Kvik­myndinni Joker verður varpað á risa­stórt tjald í Eld­borgar­sal Hörpu við undir­leik sin­fóníu­hljóm­sveitarinnar Sin­foniaNord á kvik­mynda­tón­leikum, þar sem marg­verð­launuð tón­list Hildar Guðna­dóttur fær að njóta sín til hins ítrasta undir stjórn föður hennar, Guðna Franz­sonar, klarí­nettu­leikara með meiru.

„Já, já. Það gerir það,“ segir Guðni, um að vissu­lega kitli það föður­hjartað að fá slíkt tæki­færi til þess að koma að flutningi á Óskars­verð­launa­tón­list dóttur sinnar.

„Ég er mjög þakk­látur þeim fyrir norðan fyrir að draga mig út í þetta, enda er þetta mjög skemmti­legt,“ segir Guðni og bætir við að á­nægjan sé ekki síst fólgin í því að með lifandi flutningi geti tón­listin öðlast sjálf­stætt líf utan bíó­tjaldsins.

„Það er eins og músíkin lifni svo­lítið við og vonandi gerist eitt­hvað í þá veru núna,“ segir Guðni og bendir á að þótt það sé alls ekki al­gilt sé stundum eins og tón­listin sé dá­lítið falin bak við kvik­myndina sjálfa. Renni eigin­lega inn í hana, en með lifandi flutningi „kemur svo­lítið skemmti­legur fókus og þetta fer að virka svona eins og heild­stætt tón­verk.“

Til­finninga­þrungin veg­ferð

Tón­list Hildar er í raun hryggjar­stykkið í aðal­per­sónunni Arthur Fleck og til­finninga­þrunginni veg­ferð hans, sem nær há­marki þegar hann um­turnast í Jókerinn.

„Ég er náttúr­lega al­gjör­lega ó­komplexaður og ger­sam­lega laus við ein­hverja mótaða sýn á hvernig ég eigi að líta út og svo­leiðis,“ segir Guðni sem brá sér í gervi Jókersins fyrir málstaðinn.
Mynd/Aðsend

Guðni bendir á að það sé ekki síst gaman að kvik­mynda­tón­leikunum vegna þess að segja megi að Hildur vinni með svo­lítið tak­markað efni til þess að skapa þann sterka karakter sem Jókerinn er í myndinni. „Allt í einu stækkar þetta nauma efni og verður að heilu tón­verki.“

Lifandi tón­listin fram­kallar þannig alveg nýja upp­lifun á Jókernum, sem verður til við magnaðan sam­runa leikarans Joaquin Phoenix og tón­listar Hildar en bæði hlutu, eins og löngu frægt er orðið, Óskars­verð­laun fyrir fram­lög sín til myndarinnar.

Röntgen­mynd af Phoenix

„Mér finnst svo­lítið gaman að þessu vegna þess að þetta er svo ná­lægt Joaquin Phoenix og hans Jóker í þessu, þannig að það er eins og það komi ein­hvers konar nær­mynd af honum. Það er svo­lítið spes.

Hildur Guðna­dóttir vann meðal annars til Óskars, Emmy- og BAFTA-verð­launa, fyrir tón­list sína í Joker.
Fréttablaðið/Getty

Músíkin tengist honum og per­sónu Jókersins svo sterkt, sko. Þannig að það er eins og maður horfi inn í hann og dá­lítið gaman að þetta er eins og röntgen­lýsing á Joaquin Phoenix. Svo­lítið eins og maður sjái bara alveg beina­grindina í honum.“

Hildur segist sjálf hæst­á­nægð með að fá að sjá og heyra Joker á kvik­mynda­sýningu með lifandi sin­fóníu­hljóm­sveit. „Hljóm­sveitin kom með svo mikla dýpt og næmni í flutningi sínum þegar við hljóð­rituðum tón­listina. Við bók­staf­lega héldum niðri í okkur andanum meðan á upp­tökum stóð. Þetta var svo fal­legt ferða­lag og það gleður mig mjög að á­horf­endur fái nú að njóta þess á sama hátt.

Sjokkerandi mynd

Þegar talið berst að myndinni sjálfri segir Guðni að „skemmti­leg“ sé kannski ekki rétta orðið. „En mér finnst þetta rosa­lega á­hrifa­rík mynd. Ég tek hana bara sem svona á­kveðna sögn í nú­tímanum og um á­standið í sam­fé­laginu.“

Guðni bregður á leik í Hörpu og sýnir netta Jókertakta.
Fréttablaðið/Aðsend

Guðni vísar til grimmra ör­laga Arthurs sem er ó­tryggður og hefur ekki efni á heil­brigðis­þjónustu. „Ég sé þetta náttúr­lega svo­lítið með þeim gler­augum og eitt morð til eða frá hættir að skipta máli í sam­henginu. Þannig að ég sé þetta svo­lítið sem Banda­ríki nú­tímans, eða bara ver­öldina í dag.

Mér finnst þetta snúast miklu meira í kringum það. Þetta er ofsa­lega sterkt og maður varð svo­lítið sjokkeraður að sjá hana fyrst, en síðan er ég búinn að sjá hana nokkrum sinnum og þá eru það taugarnar og til­finningarnar sem tengjast þessu sem fara alltaf að koma sterkar og sterkar inn. Þetta er ein af þeim myndum sem verða alltaf magnaðri og magnaðri eftir því sem maður horfir á þær oftar.“

Joaquin Phoenix fékk Óskars­verð­laun fyrir leik sinn í Joker.
Mynd/Warner Bros.

Grænt ofan á grátt

Guðni var fenginn til þess að bregða sér í gervi Jókersins til þess að vekja at­hygli á tón­leikunum. „Þeim datt þetta snjall­ræði í hug. Að dressa mig svona upp og ég er náttúr­lega al­gjör­lega ó­komplexaður og ger­sam­lega laus við ein­hverja mótaða sýn á hvernig ég eigi að líta út og svo­leiðis,“ segir Guðni og hlær dátt, áður en hann bætir við að hann hafi sagst vera til í þetta ef talið væri að upp­á­tækið yrði til þess að draga fólk að.

Hann segist þó alls ekki ætla að stjórna sin­fóníu­hljóm­sveitinni sem Jókerinn. „Nei! Ég ætla ekkert að stela senunni frá Joaquin Phoenix. Hann á sjóið þarna. Ég verð bara svartur og sykur­laus og fer í skuggann.

Þeim fannst góð kynning að dressa kallinn upp í þetta en ég ætla ekkert að vera að trana mér. Ég held að það hafi verið vit­leysa en það er kannski smá svipur með okkur,“ heldur Guðni á­fram og bendir á einn aug­ljósan kost.

„Þegar maður er orðinn svona grár og lit­laus þá getur maður tekið hvaða lit sem er. Grænt eða blátt eða fjólu­blátt eða hvernig sem er. Það er alveg sama hvernig lit þú setur í svona grátt hár. Það er góður grunnur og verður allt í lagi,“ segir Guðni Franz­son, sem mun stjórna Sin­fóníu Norður­lands með grátt hár í Hörpu á sunnu­dags­kvöld á tón­leikunum sem hefjast klukkan 19.30.