Tæpir fimm mánuðir eru nú síðan að Guðmundur Felix Grétarsson fékk símtalið sem hann var búin að bíða eftir í rúma tvo áratugi en þann 13. janúar síðastliðinn voru græddir á hann tveir handleggir.

Hann hefur undanfarið leyft almenningi að fylgjast með ferlinu á samfélagsmiðlum en hann á enn eftir strangt endurhæfingarferli. Ef marka má nýjustu færslu Guðmundar virðist allt stefna í rétta átt.

„Fyrir tveimur vikum sýndi ég ykkur að tvíhöfði minn virkaði, ég gat kreist hann örlítið, en ég gat ekkert hreyft [hendina] eða neitt slíkt,“ segir Guðmundur í nýju myndbandi þar sem hann sést synda um í sundlaug. Hann sýnir nú hvernig hann getur hreyft framhandlegginn meðan hann er í vatninu.

„Þetta er enn ekki mikið en miðað við það að fyrir fimm mánuðum var einhver annar að fróa sér með þessum höndum, þá er þetta frekar geggjað,“ segir Guðmundur léttur í bragði.