Guðmundur Felix Grétarsson, sem gekkst undir ágræðslu á handleggjum við axlir fyrir ári síðan, greindist með Covid-19 skömmu eftir heimsókn sína til Íslands á dögunum.
Greint er frá þessu á fréttavef DV.
Guðmundur Felix dvaldi á Íslandi yfir hátíðirnar og kom víða við á ferð sinni. Hann hélt af landi brott þann 7. janúar síðastliðinn og greindist hann með Covid-19 tveimur dögum eftir að hann sneri aftur heim til Frakklands.
Í frétt DV kemur fram að hann hafi verið bólusettur gegn kórónuveirunni en þrátt fyrir það hafi engin mótefni mælst hjá honum. Er hann með hita og beinverki og sefur í um 18 tíma á sólarhring.
Guðmundur Felix var valinn maður ársins af lesendum DV sem og lesendum Vísis og hlustendum Bylgjunnar.