Guðmundur Felix Grétarsson er staddur hér á landi til að hitta fjölskyldu sína í fyrsta sinn í mörg ár. Hann fékk í janúar á þessu ári grædda á sig nýja handleggi en ítarlega hefur verið greint frá því ferli í fjölmiðlum.
Guðmundur Felix hefur nýtt heimsóknina til hins ítrasta og hitti í gær forseta Íslands og eiginkonu hans, Elizu Reid. Forsetinn nýtti tækifærið og gaf Guðmundi Felix fimmu.
„Í byrjun þessa árs gekkst Guðmundur Felix Grétarsson fyrstur manna í sögunni undir tvöfalda handleggjaágreiðsluaðgerð. Í gær gaf hann mér fimmu á Bessastöðum. Eins og aðrir landsmenn hef ég fylgst með Guðmundi Felix allt frá því hann missti handleggina fyrir rúmlega 20 árum. Leiðin hefur verið löng og ströng, og er hvergi nærri lokið, en þeim mun gleðilegra að fá að fagna þessum mikla áfanga með honum og fólkinu hans heima á Íslandi. Saga hans getur sannarlega verið okkur öllum innblástur um þrautseigju og æðruleysi,“ segir Guðni.
Guðmundur Felix fór svo í dag og hitti nemendur við sjúkraþjálfun í Háskóla Íslands þar sem hann ræddi um endurhæfingu sína eftir handleggjaágræðsluna og sýndi nemendum myndband þar sem farið var yfir þær aðferðir í sjúkraþjálfun sem beitt hefur verið eftir aðgerðina.