Sigríður Björk Bragadóttir, sem flestir þekkja sem Sirrý hjá Salt Eldhúsi er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra en að laga sælkerakræsingar af ýmsu tagi. Við fengum Sirrý til að segja okkur aðeins frá jólahaldi sínu og ljúfum jólaminningum í tilefni þrettándans og deila með okkur uppskrift af hátíðarkræsingar sem eiga vel við á degi sem þesum.

Jólin fyrir Sirrý snúast fyrst og fremst um matarstúss og bakstur. „Síðustu ár hef ég verið í vinnu þar sem byrjað er að huga að jólum í byrjun september og mér finnst það alltaf jafn gaman. Ég baka alltaf mikið á þessum tíma, bæði það helsta eins og lagtertur, brúna og hvíta og smákökurnar sem ég fékk heima þegar ég var lítil. Baka sörur og líka alltaf eitthvað nýtt sem gaman er að prófa eins og blondínurnar sem uppskrift er af hér að neðan. Ég hef síðustu ár gert litlar marsípantertur með smjörkremi og koníaki sem ég hef gefið í jólagjafir. Rétt fyrir jól geri ég kjúklingalifrakæfu sem við borðum í hádeginu á jóladag með ristuðu brauði og drekkum sætt Sauterne hvítvín með, það er jólastundin mín. Ég laga líka alltaf nokkur síldarsalöt rétt fyrir jólin, karrýsíld, rauðrófusíld og reyksíldasalat, þetta voru salötin sem tengdamamma mín gerði. Þau er gott er að eiga í ísskápnum um hátíðarnar. Jólin snerust mikið um mat á mínu æskuheimili, mikið bakað, súrsað og síld sett í kryddpækil. Á jóladagsmorgun heima var alltaf boðið upp á heitt súkkulaði með lagtertu og smákökum í morgunmat, ég á sælar minningar um þessa stund.“

Man sælusvipinn á afa og ömmu

Uppáhalds jólaminningin hennar Sirrýjar tengist mömmu hennar. „Hún elskaði rjúpur og ólst upp við þann mat á jólum en þær voru aldrei í jólamatinn heima því pabbi hafði ekki vanist þeim og líkaði ekki. Eftir að hafa opnað pakkana á aðfangadagskvöld fórum við fjölskyldan til afa og ömmu í heitt súkkulaði og þá fékk mamma rjúpuafgangana. Mamma fór varla úr skónum svo mikið gekk á að komast í kræsingarnar í eldhúsinu og ég man svo vel sælusvipinn á afa og ömmu sem fylgdust með dóttur sinni með rjúpusósu út á kinn, njóta þess að borða uppáhalds jólamatinn sinn.“segir Sirrý og brosir.

FBL jól 2021 _SirrySalt_EA_007.jpg

Sigríður Björk Bragadóttir, sem ávallt er kölluð Sirrý, er mikill matgæðingur og veit fátt skemmtilegra en að færa kræsingar uppá stærðarinnar fat.

Svo mjúk að hana má borða með skeið

Ég er hér með uppskrift að önd sem er svo mjúk að má borða með skeið “A duck you can eat with a spoon”. Uppskriftina fékk ég fyrir nokkrum árum í matreiðslubókaklúbbnum mínum og er hún úr bók sem heitir “Unforgettable” og er endurminningabók Paulu Wolfert. Paula, sem í dag er orðin harðfullorðin, var dugmikill greinahöfundur og skrifaði matreiðsludálka í Amerísku blöðin um árabil á svipuðum tíma og Julia Child var með þætti í sjónvarpinu. Hún gaf líka út nokkrar áhugaverðar matreiðslubækur en hún bjó um tíma í Frakklandi og Marokkó og skrifaði bækur um matargerð þessara landa. Þessi bók “Unforgettable” sem við elduðum upp úr í klúbbnum er blanda af endurminningum og valdar uppskriftir frá liðinni tíð sem hún hefur fengið athygli fyrir. Þannig matreiðslubækur finnst mér skemmtilegastar. Þessa uppskrift er hægt að finna á ensku á netinu, margir hafa deilt henni því hún er einfaldlega mjög áhugaverð. Öndina kaupi ég í Bónus og heitir hún “Julius”. Það þarf að afþýða hana í ísskáp og láta hana bíða þar í 3 daga svo hún verði örugglega orðin mjúk en þær leiðbeiningar eru á pakkningunum.

FBL Jól 21 _SirrySalt_EA_006 (1).jpg

Önd sem þú getur borðar með skeið – Paula Wolfert

Öndin

1 önd 2.2 – 2.7 kg

2 tsk. sjávarsalt

nýmalaður pipar

1 tsk. Herbes de Provence

2 laukar, skornir gróft niður

1 sellarístöngull, sneiddur

8 hvítlauksgeirar, skornir í tvennt

2 lárviðarlauf

2 msk. fersk söxuð steinselja

1 msk. ferskt saxað timían

Hitið ofninn á 245°C. Blandið salti, pipar og Herbes de Provence í skál. Takið pokann með innmat og hálsi innan úr fuglinum. Hlutið öndina niður í tvo hluta með því að fjarlæga hrygginn (klippa báðum megin við hann ) og klippa eða skera á milli þar sem bringur mætast. Klippið fremstu vængstubbana af til að nota í sósu og takið líka hrygginn til hliðar í sama tilgangi. Nuddið kryddblöndunni á fuglinn. Setjið lauk, sellerí, hvítlauk, lárviðarlauf, steinselju og timian í ofnskúffu eða ofnfast fat. Leggið öndina ofan á grænmetið með skinnhliðina upp. Bakið þetta við háan hita (245°C) í 10 mín. Lækkið hitann í 135°C, setjið lok eða álpappír ofan á öndina og bakið hana síðan í 3 klst.

Sósan með öndinni

2 msk. olía

vængstubbar og hryggurinn af öndinni, skerið hann í tvennt

1 laukur, skorinn í tvennt og sneiddur

1 msk. tómatpúra

120 ml (1 ¼ dl) hvítvín

9 dl vatn

1 msk. kjúklingakraftur

225 g góðar grænar ólífur

¼ tsk. Herbes de Provence

Finnið góðan meðalstóran pott og steikið hrygginn og vængstubbana í heitri olíu góða stund. Bætið lauk í pottinn og látið hann brúnast vel. Bætið tómatpúru og steikið saman 2-3 mín. Hellið hvítvíni út í og látið suðuna koma upp, bætið þá vatni í og látið síðan allt sjóða án þess að hafa lok á í klukkutíma. Þetta á að sjóða þar til u.þ.bl. 3 dl eru eftir. Sigtið beinin frá og setjið sósuna í annan pott.

Til að klára:

Skerið hvern hluta af öndinni í tvennt og setjið á fat, haldið heitu. Gott að vera búin að hita fatið. Sigtið grænmetið sem öndin lá á og takið safann sem kom af henni frá og hellið út í sósuna. Það er svolítið misjafnt hversu mikill safi kemur og gott að hella vökvanum í skál og fleyta fituna ofan af. Smakkið til og sjóðið sósuna e.t.v. enn meira niður ef þið viljið fá sósuna sterkari. Fjarlægið steinana úr ólífunum (ef þeir er util staðar) og bætið þeim í sósuna. Þykkið með sósuþykki ef ykkur finnst sósan of þunn. Hellið svolitlu af sósunni yfir öndina og raðið nokkrum ólífum á hana líka. Berið fram með flottum kartöflum annað hvort ofnbökuðum, brúnuðum, Hasselbac eða kartöflu fondant og smjörsoðnum gulrótum.

Brúnaðar kartöflur

2 dl sykur

40 g smjör

800 g soðnar kartöflur

Stráið sykri í jafnt lag á botninn á rúmgóðri pönnu. Hitið pönnuna og bíðið þar til sykurinn fer að bráðna út með hliðunum. Hrærið þá í sykrinum og bíðið þar til hann er næstum allur bráðinn. Lækkið hitann, það er mikilvægt, bætið smjöri út í og látið það bráðna í sykrinum. Blandan skilur sig aðeins en það er allt í lagi. Bætið kartöflum út í og veltið þeim upp úr sykurblöndunni góða stund eða þar til ykkur finnst nóg sykurhjúpur utanum þær. Passið bara að hafa ekki of háan hita. Berið fram strax.

Smjörsteiktar gulrætur

400 g gulrætur

2 msk. olía

2 msk. smjör

½ dl hvítvín eða safi af 1 appelsínu

örlítið meira smjör í pottinn

Skerið gulræturnar á ská. Hitið olíu og smjör í potti og steikið gulræturnar stutta stund. Bætið hvítvíni eða appelsínusafa í pottinn og látið suðu koma upp, lækkið hitann og látið malla við meðalhita með lok á pottinum í 10 mínútur.