Efnahagsleg óveðursský höfðu um nokkur skeið safnast saman yfir landinu þangað til allt hrundi örlagadaginn 6. október og forsætisráðherra hélt hina sögulegu ræðu í sjónvarpinu. „Á þann hátt, með íslenska bjartsýni, æðruleysi og samstöðu að vopni, munum við standa storminn af okkur,“ sagði Geir undir lok ræðunnar áður en hann bað Guð að blessa Ísland. Tilvalið að staldra við á þessari dramatísku dagsetningu, horfa um öxl og spyrja einfaldlega: Var Geir Haarde bænheyrður?

Heppnasta þjóð í heimi

„Guð og góðar vættir hafa blessað Ísland með fádæma ríkidæmi fámenns hóps í stóru landi með miklar auðlindir. Tæknibylting Internetsins færði þennan fyrrum útnára að miðju heimsins. Við lifum í hugrænni veröld sem eyðir landfræðilegum farartálmum. Gosið í Eyjafjallajökull varð þannig blessun, ævintýraleg frétt um ægivald náttúrunnar yfir tækni mannsins sem barst í allar deildir jarðar. Og á eftir fylgdu ferðamenn sem færðu landsmönnum meiri gjaldeyristekjur en fiskimiðin höfðu gefið. Guð blessaði Ísland með vexti raunhagkerfisins þegar fjármálakerfið hrundi," segir Sósíalistaforinginn Gunnar Smári Egilsson.

„Kannski hefði okkur farnast betur ef Guð hefði ekki blessað okkur með meira ríkidæmi en þess í stað með heitari von,“ segir Sóísalistaforinginn Gunnar Smári.

Íslendingar hafa af þessum sökum öll tromp á hendi, eru í raun heppnasta þjóð í heimi. Við getum byggt hér upp stórkostlegt samfélag. Við höfum efni á öllu sem okkur dreymir um; réttlæti, jöfnuði, fegurð og kærleika. Við þurfum ekki að taka neina ákvörðun út frá skorti eða þröngri stöðu. Við getum haft þetta eins og við viljum helst.

En Guð og góðar vættir hafa ekki blessað okkur hið innra. Við erum vondauf og óttaslegin, auðveld bráð fólks sem leikur á slíkar tilfinningar. Er ekki bara best að breyta sem minnstu? var slagorðið sem sigraði í síðustu kosningum.

Úr því að Guð er stór persóna á þessum degi, má líkja ástandinu við ferð Ísraelslýðs frá ánauðinni í Egyptalandi til fyrirheitna landsins. Guð rauf hafið svo lýðurinn mætti ganga þurrum fótum í átt að frelsi og fyrirheitum. En þá muldraði einhver: Er ekki bara best að vera áfram í Egyptalandi? Og lýðurinn beygði sig undir áframhaldandi yfirráð hinna fáu, þeirra sem eiga mest og aldrei fá nóg.

Kannski hefði okkur farnast betur ef Guð hefði ekki blessað okkur með meira ríkidæmi en þess í stað með heitari von.“

Guð leiðir þjóðina

„Það var huggun og styrkur í orðum forsætisráðherra þegar hann bað Guð að blessa Ísland. Í fordæmalausu fjármálaöng­stræti þjóðarinnar og stórs hluta heimsins reiddi forsætisráðherra sig á trúna og Guð. Ég er ekki í nokkrum vafa um að Guð blessaði og blessar Ísland,“ segir Agnaes Sigurðardóttir, biskup yfir Íslandi.

Agnes Sigurðardóttir biskup er sannfærð um að Guð vaki yfir þjóðinni.

Efnahagslegur bati þjóðarinnar var undraverður og skjótur. Ég er stolt af þjóðinni og sannfærð um að almáttugur Guð vakir yfir henni, leiðir hana, styrkir og verndar.

Mér þykir vænt um að við erum ennþá að ræða þessi orð Geirs – það segir mér að trúin skiptir máli. Trúin sem þjóðkirkjan boðar, trúin sem nærir andlega íslenska þjóð dag hvern. Guð blessi Ísland eins og beðið er hvern sunnudag við messur um land allt.“

Best í heimi

Íslensk tunga er vitaskuld besta tungumál í heimi og öðrum fremur auðug af orðum og hugtökum. Jafnvel tugum eða hundruðum mismunandi orða yfir sama hlutinn. Enginn skortur er heldur á fleygum setningum sem hafa lifað og munu lifa með þjóðinni um aldir alda. Til dæmis:

Jafn ólíkar persónur og Jón Hreggviðsson og forsetafrúin fyrrverandi Dorrit Moussaieff eiga sinn sess í íslensku spakmælabókinni.
Fréttablaðið/Samsett

Þessi hnífur á að vera þungur

Þetta tilsvar úr víkíngaspaghettívestra Hrafns Gunnlaugssonar, Hrafnin flýgur frá 1984, er einhver meitlaðasta og lífseigasta setnining íslenskrar kvikmyndasögu enda tilvitnun sem hentar við ýmis tækifæri og er enn jafn töff og hún var á sínum tíma.

Ísland er stórasta land í heimi

Dorrit Moussaieff, þáverandi forsetafrú, lýsti þessu vígreif yfir eftir Spánverjavíg íslenska handknattsleiklandsliðsins á Ólympíuleikunum í Kína 22. ágúst 2008. Þrátt fyrir að landið hafi skroppið hratt saman og forsætisráðherra hafi örfáum mánuðum síðar þurft að biðja Guð að blessa það lifa þessi orð enn. Eins og ódrepandi andinn að baki þeim.

Íslensk kvikmyndasaga er drekkhlaðin fleygum orðum sem lifa með þjóðinni.
Fréttablaðið/Samsett

Ég geri sko ekki neitt fyrir neinn sem gerir ekki neitt fyrir neinn

Þessi setning úr kvikmynd Óskars Jónassonar, Sódóma Reykjavík, er ekki síður meitluð í stein en þungi hnífurinn enda kjarna þessi orð hins ólánsama Axels íslenska þjóðarsál með ágætum.

Hvenær drepur maður mann og hvenær drepur maður ekki mann?

Tjah, þegar stórt er spurt, Jón Hreggviðsson, er fátt um almennileg svör en spurningin er djúp og eitt af eilífðarviðfangsefnum okkar allra.