Þegar líður að jólum kemst hún ávallt í skreytingagírinn og skreytir heimili sitt og sumarhús með sínu nefi og skortir aldrei hugmyndaflugið þegar kemur að því að fanga augað með glysi og glingri og fallegum hlutum. Þemað hjá Þórunni getur breyst frá ári til árs þó að hún eigi sín sérkenni, enda hefur hún ástríðu fyrir ákveðnum litum og formum. En jólin eru hennar uppáhaldsárstími og fyrir aðventuna er Þórunn yfirleitt búin að setja upp jólin.

Járnarinn sérsmíðaður af mági Þórunnar, Marteini Karlssyni, fæst í Magnoliu, svörtu kertastjakarnir sem koma svo fallega út eru frá Heimili og hugmyndum, aðventukertið sem stendur fyrir sínu og hvíti vasinn eru frá Tine K í Magnoliu.

Kransarnir í miklu uppáhaldi

„Jólin eru klárlega minn uppáhaldsárstími. Alveg frá því að ég var lítil stelpa þá hef ég alltaf verið mikið jólabarn. Það var alltaf mikil jólastemning á heimili mömmu og pabba í desember. Og gaman að segja frá því að krakkarnir mínir eru orðnir mikil jólabörn. Í byrjun nóvember byrja ég að tína til jólaskrautið og mikið af því hefur fylgt mér í gegnum tíðina, en annað er nýlegt, ég kaupi alltaf eitthvað nýtt fyrir hver jól. En auðvitað elti ég strauma og stefnur í litum og öðru í jólaskrauti líka. Kransarnir mínir eru mikið uppáhalds, en ég hef átt þá mörg ár, þeir eru aldrei alveg eins þótt grunnurinn sé sami, en þeir fá ávallt smá upplyftingu fyrir hver jól.“

Gaman að sjá hvað glerkúplarnir geta gert mikið þegar kemur að því að leika sér með form og hluti. Þessi stóri glerkúpull með Maríu mey er frá Heimili og hugmyndum.
Kransarnir hennar Þórunnar eru allir virkilega fallegir og Gucci-græni liturinn kemur vel út. Allir kransarnir eru úr Magnoliu.

Ferskt greni ómissandi

Segðu okkur aðeins frá jólaþemanu þínu í ár.

„Ég er oftast með svipaða litatóna í jólaskrauti en finnst líka gaman að breyta aðeins til. Jólakransar í alls konar stærðum og gerðum með mismunandi skrauti finnst mér mjög jólalegt. Einn af mínum uppáhaldslitum er þessi fallegi græni litur, forest green eða Gucci-grænn, einstaklega fallegur litur. Hann fer mjög vel við litasamsetningu heima og gaman að blanda honum saman við allt hitt jólaskrautið. Ferskt greni í fallegum vasa finnst mér ómissandi og falleg kerti hér og þar.

Mér finnst mjög gaman að nota alls kyns bakka, kökudiska, og skálar fyrir jólaskraut, núna í ár notaði ég til dæmis alls konar glerkúpla sem ég setti ofan á kertaarininn með alls konar skrauti inni í.

Svarti liturinn er ríkjandi á heimili Þórunnar og klæðir hennar persónuleika vel. Svarta skálin er frá Verzlunarfélaginu, Keflavik.

Nota sama skrautið aftur og aftur

Þórunn er dugleg að nýta það sem hún á fyrir og reynir að nota hugmyndaflugið með nýtinguna svo ekki þurfi ávallt að kaupa allt nýtt. Notar þú mikið sama skrautið?

„Já, að einhverju leyti nota ég sama skrautið en reyni ávallt að breyta aðeins til. Og spái mikið í það. Ég á mögulega alltof mikið af jóladóti en reyni að nýta það aftur og aftur, er mjög góð með spreybrúsann,“ segir Þórunn og glottir.