„Það er bara gaman að fá góðar við­tökur,“ segir tón­listar­konan Hekla Magnús­dóttir, um mjög svo já­kvæðan dóm The Guar­dian um nýju plötuna hennar, Xiuxiu­ejar.

Platan er sam­tíma­tón­listar­plata mánaðarins, „con­temporary al­bum of the month“, hjá The Guar­dian þar sem gagn­rýnandinn John Lewis gaf henni fjórar stjörnur af fimm mögu­legum í gær.

Hekla segir að­spurð að þetta hafi ó­neitan­lega komið henni nokkuð í opna skjöldu þótt hún hafi nú þegar fengið tals­vert af já­kvæðum um­sögnum er­lendis.

„Þetta er mjög gaman og ég er þakk­lát að fá svona viður­kenningu fyrir þetta,“ segir Hekla og hlær hóg­vær.

Þeremínið leyst úr læðingi

Hekla hefur verið virk í ís­lensku tón­listar­lífi frá 2007 og lék meðal annars á þeremín með hljóm­sveitinni Báru­járni. Hún hóf sóló­feril sinn sumarið 2014 með plötunni Hekla sem vann til Kraum­sverð­launanna það sama ár.

Þá var tón­list hennar lýst sem dul­úðugri blöndu marg­laga þeremíns og söngs, sem kallaði fram hug­hrif allt frá angist til angur­værðar.

Hekla fer á­fram mikinn á þeremíninu sem Lewis bendir á að sé oft teflt fram sem framandi nýjung, en Hekla leysi hins vegar raun­veru­lega mögu­leika þess úr læðingi.

Greitt úr garna­flækjum

„Guar­dian með puttann á púlsinum. Þessi plata læknar öll mein og gleður geð. Góða ferð!“ sagði Óttarr Proppé, tón­listar­maður og fyrr­verandi ráð­herra, þegar hann deildi um­sögn The Guar­dian í gær.

Óttarr leggur til rödd sína á plötunni sem hann fær ekki nóg af, ef marka má fyrri yfir­lýsingu á sam­fé­lags­miðlinum: „Er að spá í að hætta að sofa til að geta hlustað oftar á þessa plötu. Nú er þetta stóra, við­kvæma, hráa og fal­lega stór­virki Heklu loksins komið út,“ skrifaði hann á sunnu­daginn og bætti við, áður en hann þakkaði Heklu fyrir, að þessi plata sé góð fyrir hjartað. „Í­trekuð hlustun kemur í veg fyrir garna­flækjur og fer­köntun.“

Haf­steinn Ár­sæls­son hannaði um­slag Xiuxiu­ejar.
Mynd/Aðsend

Snerti­laus tón­list

Þeremínið er fyrsta raf­magns­hljóð­færið sem sögur fara af og heiðurinn af því er eignaður rúss­neska vísinda­manninum Léon Theremin sem fann það upp 1919 þegar hann var, sam­kvæmt Wiki­pedia, að rann­saka út­vörp og út­varps­bylgjur á mis­munandi tíðnum.

Hljóð­færið er það eina sem krefst ekki snertingar hljóð­færa­leikarans sem breytir tón­hæðinni með því að hreyfa aðra höndina nær eða fjær loft­neti og hljóð­styrknum með handa­hreyfingum ýmist upp eða niður.

Að hvísla

Hekla segist þó ekki að­eins þreifa fyrir sér við tón­smíðarnar þar sem hún setji einnig mikið traust á sellóið. „Þetta eru svona þau tvö hljóð­færi sem er oftast líkt við manns­röddina.“

Titill plötunnar er ekki síður framandi þeim sem ekki þekkja til en þeremínið er þó ekki mjög lang­sótt þegar betur er að gáð.

„Ég bjó lengi á Spáni og þetta er kata­lónska,“ segir hún um nafn plötunnar, sem er í­gildi ís­lensku sagnarinnar „að hvísla.“

Haf­steinn Ár­sæls­son hannaði um­slag Xiuxiu­ejar sem er að­gengi­leg á Spoti­fy og öðrum streymis­veitum auk þess sem hægt er að panta hana á vínyl hjá út­gefandanum Phantom Limb á Band­camp.