„Ég var sein af stað á skáldaveginn og þorði ekki að vera listamaður fyrr en ég var komin yfir þrítugt. Mig hafði lengi langað til að skrifa og ákvað að standa með draumnum og skráði mig í ritlistarnám. Eftir það byrjaði boltinn að rúlla. Fyrsta bókin mín, smásagnasafnið Keisaramörgæsir, kom út 2018. Núna kemur mín önnur eigin bók, Tanntaka, út og er það ljóðabók,“ segir Þórdís Helgadóttir. Þórdís er ein Svikaskálda, en hópinn skipa sex skáldkonur. „Við höfum gefið út þrjár ljóðabækur og kom fyrsta skáldsagan okkar, Olía, út í gær hjá Forlaginu.“

Grensan á milli

Allajafna vinnur Þórdís á mörkum hins raunverulega og óraunverulega. „Árið 2019 var ég ráðin sem leikskáld Borgarleikhússins. Ég samdi verk sem átti að sýna í fyrra, en vegna faraldursins á það enn eftir að birtast á fjölunum. Verkið er eins konar absúrd, hryllingsdrama um kynslóðir, áföll, mæður, dætur og allt þar á milli.

Þetta hefur verið ákveðið þema hjá mér upp á síðkastið. Ég er algerlega gagntekin af mannlegri hegðun sem stýrist af óheilbrigðum viðbrögðum við alls kyns tilfinningum, sárum og áföllum. Ég hef gaman af þessu skrítna, að taka eitthvað skrítið, skrúfa upp í því og leika mér með það. Mér finnst gaman að vera á grensunni á milli veruleika, raunsæis og fantasíu og sýna hvernig það sem við teljum eðlilega hegðun getur verið svo absúrd og klikkað. Ég sé það hjá sjálfri mér og fólkinu í kringum mig. Við verðum fyrir áföllum og fólk virðist vera með alls konar undarlega mekanisma til þess að forðast að vinna úr hlutunum og tilfinningum. Viðbrögð fólks geta verið svo skrítin og mér finnst gaman að skoða húmorinn í því hvað við erum öll skrítin og asnaleg.“

Þær eiga það þó allar sameiginlegt að vera „erfiðar konur“ í togstreitu við samfélagið og hlutverkin sem þeim eru ætluð.

Hryllingur og fegurð

Ljóðabókin Tanntaka segir Þórdís að sé pæling um þroska, um það að fullorðnast og vera í stöðugri umbreytingu og að fara á milli hlutverka. Þá skoðar hún móðurhlutverkið í áhugaverðu ljósi. „Þetta fjallar ekki bara um að vera mamma, en hlutverkið sjálft er svo djúsí. Það er eitthvað svo líkamlegt og existensíalískt og fullt af líkamshryllingi. Hlutverkið er ríkt af alls konar myndhverfingum eins og að skipta um ham, sem getur bæði verið fallegt en líka frekar ógeðslegt.

Verkið er pínu hrátt og mér finnst mjög uggandi að vera ljóðskáld. Það er eitthvað mjög persónulegt við að gefa út ljóðabók og öðruvísi en að gefa út sögur. Ég er mun spéhræddari við að vera ljóðskáld en smásagnahöfundur, því í ljóðunum er ekki hægt að fela sig á bak við sögurnar.“

Samunnið skáldverk

Olía er sérstakt verk í íslenskri bókmenntasögu enda unnið af sex höfundum. „Svikaskáld hafa starfað frá 2017. Við höfum gefið út bækur saman, haldið námskeið og alls konar. Þetta er frábær félagsskapur og það er ótrúlega skemmtilegt og gefandi að glíma við það að skapa saman. Bókmenntir hafa lengi haft orð á sér að vera einmanalegt listform ef við berum þær saman við önnur listform eins og dans eða leiklist. En þær þurfa ekki að vera það. Það er í raun ekkert sem segir að bókmenntir þurfi að vera einmanalegar. Ekkert nema hefðin kannski.“

Olía er fyrsta skáldsaga Svikaskálda og vonandi ekki sú síðasta. „Fyrst bjuggum við til persónurnar og svo skrifuðum við verkið. Persónurnar eru ólíkar týpur á ólíkum aldri. Þær eiga það þó allar sameiginlegt að vera „erfiðar konur“ í togstreitu við samfélagið og hlutverkin sem þeim eru ætluð. En það er samt engin önnur leið fyrir þessar konur að vera, en að vera erfiðar, í þeim aðstæðum sem þær lenda í og í þessu karllæga samfélagi. Hver okkar skapaði eina persónu. Svo fléttast líf þeirra saman í bókinni. Við unnum verkið út frá baráttu kvennanna við sjálfar sig, hverja aðra eða jörðina.“

Þennan rómantíska blómakjól keypti Þórdís í Gallerí 17 fyrir útgáfuhóf Tanntöku. „Ég ákvað að fara alla leið í rómantíkina áður en ég yrði endanlega miðaldra. Svo skellti ég lifandi orkídeu í hárið.“

Ný verkfæri

Þórdís hefur komið víða við í bókmenntaheiminum og vinnur í ýmsa miðla. „Mér þykir gaman að fara á milli og prófa nýja miðla. Það er ólíkt að skrifa ljóð eða skáldsögu heldur en að vinna í leikhúsinu eða annað. Auðvitað er það krefjandi að læra sífellt á ný og ný verkfæri. Þegar þú lærir á nýtt form vantar svo stóran hluta af gömlu verkfærunum, en það má ýmislegt nota á milli miðla. Svo lærir maður alltaf eitthvað nýtt og getur haft með sér á milli forma.“

Þrátt fyrir að vinna í mörgum miðlum býr Þórdís yfir einkennandi höfundarrödd sem hefur vakið athygli víða í bókmenntasamfélaginu. „Ég nota innsæið mjög mikið við sköpunina. Áður en ég fór í ritlist var ég mjög greinandi og sótti í heimspekina.

Einn daginn á fyrstu önninni minni í ritlistinni þá fattaði ég hvernig ég á að skrifa. Soffía Bjarnadóttir rithöfundur kenndi okkur að kafa í drauma og dagdrauma og nota sem innblástur. Þarna fann ég tækni sem funkeraði til þess að komast fram hjá öllum hindrunum og stíflum. Ég nota ákveðna tækni í byrjun til þess að loka á lætin í hausnum á mér og setja í samhengi. Fyrst opna ég autt skjal í tölvunni og byrja að skrifa eitthvað út í loftið.

Fyrir mig virkar það ekki að setjast niður til þess að skrifa eitthvað ákveðið. Ég verð að fara öfuga leið að skáldskapnum. Þá kemur þetta. Þetta er eina leiðin sem ég kann. Ég er samt enn undir mjög miklum áhrifum frá heimspekinni. Greinandinn í mér kemur svo aftur inn í ferlið þegar ég vinn sögurnar eða ljóðin áfram.“

Ég er auðvitað bara ómeðvitað að elta uppi það sem heillar mig og mér finnst fallegt og það kemur auðvitað fram hjá mér í fatastílnum jafnt sem og í skrifunum

Höfundarstíll og fataeinkenni

Þórdís hefur gaman af því að klæða sig upp og segist vera með veikan blett í hjartanu fyrir öllu sem er rómantískt. „Mér finnst mjög gaman að klæða mig upp á og elska að hafa tilefni til þess að fara í bleika pelsinn eða fína kjólinn. Á sama tíma er ég samt oftast hrædd við að vera „overdressed“ eða of fín. Ég er alger sökker fyrir öllu sem er rómantískt, pífum, blúndum, og finnst æðislegt að vera með lifandi blóm í hárinu. En það er ekki alltaf praktískt og rómantíkin þarf eitthvert mótvægi. Það þarf líka að vera eitthvað töff finnst mér.

Ég var svo hissa þegar vinir mínir sögðu eitt sinn við mig að ég væri með svo flottan og skýran fatastíl, því ég hef alltaf öfundað fólk sem er með augljósan stíl. Svona týpur sem eru kannski alltaf í svörtum rúllukraga og ógeðslega töff. Ég ímynda mér að þetta fólk hljóti að vera með allt á hreinu og hef oft fantaserað um að nú ætli ég að verða þessi týpa. Ég klippi á mér hárið og fer í svartan rúllukraga, en svo koma bara dagar þar sem maður getur bara alls ekki verið í svörtum rúllukragabol. Ég á rosalega erfitt með að skuldbinda mig við einn stíl. Mér finnst þetta fólk sjúklega kúl en ég gæti bara aldrei verið svona stílhrein.

En það er kannski eins með fatastíl og höfundareinkenni? Kannski er erfitt að fatta það sjálfur að maður sé að gera eitthvað ákveðið fyrr en einhver bendir manni á það. Ég er auðvitað bara ómeðvitað að elta uppi það sem heillar mig og mér finnst fallegt og það kemur auðvitað fram hjá mér í fatastílnum jafnt sem og í skrifunum.“

Kjóllinn er úr Maiu og jakkann fann hún á fatamarkaði.

Tískuvagnar

„Ég viðurkenni að ég er frekar illa að mér í tískunni. Mér finnst gaman að skoða Vogue en ég hef ekki efni á að kaupa fötin þar. Hér heima dýrka ég Yeoman-fatamerkið. En það er kannski orðið eins og Múmínbollinn fyrir ákveðinn samfélagshóp. Svo er ég mjög skotin í fatahönnuðinum Andreu í Hafnarfirði. Hún er með geggjaða kjóla og það er dálítil rómantík í henni.

Ég er þó alger sökker fyrir öllu nýju. Ég fylgist ekki jafn vel með og þegar ég var yngri. Kannski þarf maður að vera ákveðið ungur til að vera með allt á hreinu í tískunni. Núna er ég tveggja barna móðir og farin að róast. Ég er samt frekar íslensk í nýjungagirninni og hoppa stundum á einhverja tískuvagna. Núna er ég til dæmis rosalega veik fyrir pastellitum og er oft í pastelalklæðnaði. Áður klæddi ég mig þó aldrei í pastel. Tískuvagnarnir passa mér misvel, og ég man alveg eftir vafasömum ákvörðunum eins og ofplokkuðum augabrúnum og slíku. Ég held að eftir því sem maður eldist þá læri maður betur á sig.“

Sumar flíkur búa yfir galdri

Þórdís segir að hún hafi nýlega tekið Marie Kondo-aðferðina á fataskápinn. „Ég er ekkert rosalega klár í að kaupa mér föt. Ég á alltaf nokkrar flíkur sem eru uppáhalds. Svo á ég slatta sem ég hélt að virkuðu í búðinni en nota aldrei. Núna er ég dugleg að pakka flíkunum niður sem ég nota aldrei og vera bara með geggjuðu fötin uppi. Ég á mér stundum uppáhaldsflíkur sem ég geng í þar til þær detta í sundur. Núna syrgi ég samfesting sem ég keypti í Dublin fyrir þremur árum en er nú að detta í sundur. Sumar flíkur eru með einhvern galdur, þær passa svo fullkomlega á mann og gera eitthvað fyrir mann, að það verður erfitt að láta þær frá sér.“