Bækur

Systu megin, leiksaga

Steinunn Sigurðardóttir

Fjöldi síðna: 181

Útgefandi:Mál og menning

Titill bókarinnar er tvíbentur. Hann vísar til þess að saga Systu gerist öðrum megin í hinni efnahagslegu veröld, þó að fortíð hennar hafi verið hinum megin, en jafnframt til þess afls sem Systa býr yfir. „Megin“ merkir líka „afl“ eins og við munum. Þessi tvöfalda merking nýtur sín vel í verkinu. Systa þarf á miklu þreki að halda til þess að lifa af sín megin í veröldinni.

Undirtitillinn leiksaga vísar til þess að verkið tekur sér stöðu í tveimur bókmenntagreinum, skáldsögu og leikriti, en skiptin þar á milli eru fumlaus og eðlileg. Ljóðagerð bregður einnig fyrir. Textinn skilur skýrt á milli ríkidæmis og fátæktar, nísku og örlætis. Að sjálfsögðu fylgir nískan ríkidæminu en örlætið fátæktinni. Systa á sér bróður. Hann er samkynhneigður og dálítil væluskjóða, öfugt við Systu sem er hörkutól. Foreldrar þeirra eru ólík, móðirin er nirfill og fauti en faðirinn blíðlyndur sjómaður. Þau eiga ekkert sameiginlegt nema þessi tvö börn. Hann reynir allt sem hann getur til þess að hlúa að þeim „hafði bæði bókmenntasmekk og húmor þegar hann var í landi“, eins og segir í sögunni, meðan móðirin er ekkert nema fólskan. Á sögutímanum hafa systkinin brotist undan illu valdi hennar, hvort á sinn hátt. Þau eru bæði flutt að heiman og upplýsingar um fortíðina koma fram í endurlitum.

Útigangskonan Systa er aðalpersóna og þungamiðja sögunnar. Hún er bláfátæk en dregur fram lífið með eljusemi og dugnaði í forríku samfélagi. Heimar ríkra og fátækra eru gjörólíkir og þar vill tíminn tengja sig við Steinunni. Undanfarin ár hefur það margsinnis komið fram hve mjög bilið breikkar milli fátækra og ríkra.

Saga Systu er hetjusaga, staðsett í umhverfi sem heimurinn fyrirlítur öðru meira um þessar mundir, það er í fátækt. Stíllinn sækir í þjóðsögur og hetjusögur á ýmsan hátt, nefna mætti til dæmis hve algengt það er að setja sögnina fremst í setningar. Fyrir því er löng hefð í þjóðsögum sem enda með sigri. Mikil rækt er lögð við tungutakið á sögunni. Það rennur í sínum farvegi eins og tær lækur sem þarf ekki að sanna neitt, er bara fagur. Öðru hverju fljóta með stórskemmtileg orð. Þegar Systa kemur með tvíræða athugasemd grunar bróðir hennar hana um „orðagræsku“ sem er náttúrulega dásamlegt nýyrði. Systa saknar þess mest úr fyrra lífi að fá ekki lambalæri með tilheyrandi meðlæti. Bróðir hennar færir henni stöku sinnum kaldar kjötsneiðar vegna þess að hann veit um þennan „læristrega“! Læristregi er fallegt orð og gott að eiga heiti yfir þessa tilfinningu!

Systu megin einkennist af ferskleika í hugsun eins og oft hefur áður sést í verkum Steinunnar. Andstæður í leiksögunni Systu megin eru sterkar og tengjast málefnum dagsins. Bæði tekjuskiptingu og kynjaumræðu. Það er frumlegt að blanda saman bókmenntagreinum og bókin er bráðskemmtileg!

Niðurstaða: Launfyndið og skemmtilegt skáldverk sem leikur sér að bókmenntaformi og atast í klisjukenndri hugsun. Steinunni Sigurðardóttur er einkar vel lagið að hrista upp í trénaðri orðræðu.