Þorvaldur Ingi Jónsson hafði lengi leitað að æfingum sem gætu hentað honum til alhliða heilsueflingar og hafði prófað ýmislegt þegar hann rataði á fyrsta Qigong námskeiðið hjá Gunnari Eyjólfssyni leikara fyrir 10 árum. Síðan þá hefur hann sótt námskeið á hverju ári hjá þekktum Qigong meisturum til að dýpka þekkingu sína.

„Gunnar var einstakur og lagði sérstaka áherslu á hugleiðsluna í æfingunum. Áherslan er á lífsmátann og viðhorfin til lífsins. Að við ræktum hugarfar leiðtogans og tökum ábyrgð á eigin lífi. Við leggjum áherslu á að við berum aldrei með okkur reiði eða langrækni, horfum bjartsýn til framtíðar, njótum andartaksins og byggjum upp sterka núvitund og einbeitingu,“ segir Þorvaldur.

„Qi er lífsorkan frá himni og jörðu. Þegar við stundum Qigong lífsorkuæfingarnar þá erum við að njóta þess að vera hluti af hreinni náttúrunni. Við hreinsum og styrkjum hverja frumu líkamans. Qigong hefur verið stundað í Kína í yfir 5.000 ár. Þar hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum Qigong sem staðfesta mátt æfinganna til alhliða heilsubótar og lækninga,“ segir Þorvaldur.

„Qigong er í raun ekki íþrótt heldur lífsmáti. Þessi lífsmáti hefur hjálpað mér til að halda betur bæði andlegri og líkamlegri heilsu. Aukið jákvæðni og viljastyrk. Það má því segja að regluleg ástundun Qigong lífsorkuæfinganna sé alhliða heilsubót fyrir mig og grunnur að minni hamingju.“

Í Kína hafa verið gerðar margar rannsóknir á áhrifum Qigong sem staðfesta mátt æfinganna til alhliða heilsubótar og lækninga. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Þorvaldur er viðskiptafræðingur með MS-gráðu í stjórnun og stefnumótun. Hann hefur mikinn áhuga á góðum stjórnarháttum þar sem allir geta notið sín til fulls í vinnu og leik. „Um leið og við öðlumst innri styrk og erum óhrædd við að standa með okkur og vera gefandi manneskjur, þá erum við leiðtogar í okkar eigin lífi. Þá tökum við ábyrgð á okkur um leið og við viljum að allir njóti sín sem allra best. Það eru þessi lífsviðhorf sem við erum að rækta með okkur þegar við tileinkum okkur Qigong lífsmátann,“ útskýrir hann.

Byggir á 5.000 ára þekkingu

Þorvaldur segir að Qigong lífsorkuæfingar hafi mjög styrkjandi áhrif bæði andlega og líkamlega. „Eins og ég nefndi þá byggir Qigong á 5.000 ára þekkingu og reynslu. Við verðum til úr 23 litningum frá móður og föður, upphafið er ein fruma. Því er rökrétt að segja að allar upplýsingar um okkur séu í okkur sjálfum,“ útskýrir hann. „Við þekkjum öll að þegar við erum lengi í erfiðum tilfinningum, allt frá kvíða og reiði að djúpri sorg, þá hættir líkamsstarfsemin að virka rétt. Svefninn verður slæmur og við endum í orkuleysi og veikindum. Ég legg áherslu á, eins og Gunnar gerði, að við byrjum aldrei æfingarnar fyrr en við höfum stillt okkur inn á jákvæðan huga. Tíminn í æfingunum er í raun heilög stund fyrir hvern og einn. Við hvílum hugann um leið og við njótum áhrifaríkrar hugleiðslu, hreyfingar og öndunar. Við opnum á hreinsandi orkuflæði um allan líkamann. Í lok æfinganna göngum við út í lífið brosandi, fullhlaðin þeirri orku sem við þurfum á að halda.“

Samkvæmt asískum fræðum hafa hugsanir áhrif á líffærin og lífsorkuna að sögn Þorvaldar. „Brosið og jákvæður hugur hefur mjög sterk heilandi áhrif en niðurbrjótandi hugsanir hafa slæm áhrif.“

Stress hefur áhrif á magann eins og þekkt er en Þorvaldur segir að færri viti að sorgin hafi áhrif á lungu og ristil, reiði hafi áhrif á lifrina og óttinn hafi áhrif á nýrun. Hann segir allar þessar tilfinningar eðlilegar en þegar þær vara lengi geta þær haft mjög slæm áhrif á heilsuna.

Starfsfólk Sjúkratrygginga Íslands gerir Qigong æfingar með Þorvaldi.

„Í Qigong tölum við um lykilorkustöð líkamans, Dan-tian á kínversku, rétt fyrir neðan nafla. Langvarandi ótti og kvíði hafa sérstaklega slæm áhrif á starfsemi nýrna og veikja eðlilega líkamsstarfsemi. Við missum orkuna, eldurinn í Dan-tian slokknar og við verðum algerlega orkulaus. Við höfum heyrt fólk sem hefur endað í kulnun segja: „Þegar ég vaknaði einn morguninn komst ég varla fram úr rúminu, ég var algerlega orkulaus.“ Með ákveðnum Qigong æfingum getum við hreinsað líffærin og byggt upp jákvætt hugarfar. Við öndum frá okkur öllu dökku um leið og við fyllum okkur hreinni, tærri orkunni. Æfingarnar eru einfaldar en mjög áhrifaríkar til heilunar og styrkingar líffæranna. Þegar orkubrautir eru opnar og hreinar getur líkaminn unnið sitt verk. Innri þekking, frá fyrstu frumunni, virkar sem allra best. Við finnum að orkan eykst og okkur fer að líða betur andlega og líkamlega,“ segir Þorvaldur.

Fyrir unga sem aldna

Það eru til um það bil 3.000 Qigong æfingar. Lífsorkuæfingarnar eru einfaldar og flestir eiga að geta gert þær. „Þetta er samhæfing öndunar, hreyfingar og hugleiðslu. Við stöndum oft með axlarbreidd á milli fóta og sjáum okkur sem sterk falleg tré, drögum að okkur orku frá himni og jörðu. Áherslan í æfingunum er á að við hugsum ekkert, erum bara að njóta. Við erum að hlaða okkur hreinni tærri orkunni,“ segir Þorvaldur.

Hann leggur áherslu á að Qigong sé bæði fyrir unga sem aldna. „Frú Vigdís Finnbogadóttir, fyrrverandi forseti, byrjaði að stunda Qigong æfingar undir leiðsögn Gunnars Eyjólfssonar árið 1994. Á okkar fundum hefur hún oft nefnt áhyggjur sínar af kvíða hjá ungu fólki og nefnt að Qigong æfingar gætu hjálpað. Við lifum við ótrúlega mikið ytra áreiti. Við þurfum öll að gefa okkur tíma til að fara að hjarta okkar, sýna okkur kærleika og virðingu. Með þessari innri styrkingu í hugleiðslu og hreyfingu finnum við hvert og eitt okkar innri styrk og byggjum upp jákvæðan huga,“ segir Þorvaldur.

„Hamingjan byrjar innra með hverjum og einum. Lærum að brosa til hjartans. Ein leiðin til að taka ábyrgð á eigin lífi og heilsu er regluleg ástundun Qigong lífsorkuæfinga. Ég vona að sem flestir gefi sér tíma til að kynna sér Qigong. Það eru reglulega haldin námskeið og æfingatímar í Qigong í Tveimur heimum og ég er byrjaður að halda námskeið úti um land. Munum að brosa og styðja hvert annað. Kærleikur og friður ríki.“

Frekari upplýsingar um Qigong má finna á Facebook-síðunum Qigong lífsorka og Tveir heimar.