Skynsemi í fatakaupum er í tísku. Margir leggja mikið upp úr því að eiga gæðafatnað sem endist vel og velja flíkur sem hægt er að blanda saman.

Svartur, látlaus kjóll með fallegu sniði er tímalaus flík sem hentar vel fyrir flestöll tækifæri og ætti að vera í fataskáp flestra kvenna. Hægt er að klæða kjólinn upp eða niður, allt eftir tilefninu. Ef ætlunin er að klæða sig upp á passar vel að fara í háa hæla og fínar sokkabuxur við slíkan kjól. Fyrir hversdagsleg tækifæri er hann flottur við gallabuxur og leðurstígvél. Svo má punta upp á kjólinn með slæðu eða sjali í skærum lit.

Hlýrabolur er eitthvað sem allir ættu að eiga í fataskápnum, helst í svörtu og hvítu og jafnvel fleiri skemmtilegum litum. Hlýrabolur passar vel innan undir jakka, peysur eða skyrtur. Svartur hlýrabolur með fagurri blúndu setur sparilegan svip á heildarútlitið, til dæmis við buxnadragt.

Gallabuxur með réttu sniði

Gallabuxur eiga alltaf við, sama í hvaða lit þær eru. Bláar gallabuxur hafa löngum verið vinsælar og svartar koma þar fast á eftir. Allir ættu að geta fundið rétta sniðið fyrir sig. Sumir kjósa uppháar gallabuxur, aðrir vilja heldur buxur sem sitja á mjöðmunum og síddin er líka smekksatriði. Undanfarin ár hafa niðurmjóar gallabuxur verið áberandi en útvíðar buxur sækja á og sjást æ oftar. Hægt er að nota gallabuxur spari jafnt sem hversdags, allt eftir því hvað notað er við þær. Þær eru líka þægilegur vinnufatnaður, til dæmis við skyrtu og jakkapeysu, eða bara venjulegan háskólabol.

Klassískur leðurjakki

Svartur leðurjakki setur oft punktinn yfir i-ið þegar kemur að heildarútlitinu. Gott er að eiga leðurjakka með klassísku sniði sem passar við flestallan fatnað. Yfir veturinn er gott að eiga þykka, hlýja peysu til að klæðast innan undir slíkan jakka.

Jakkapeysur eru þarfaþing, bæði stuttar og síðar, úr fíngerðu efni eða grófu. Það er alltaf gott að eiga slíka peysu þegar veturinn skellur á. Oft er heitt innandyra en kalt utandyra og þá hentar vel að eiga hlýja og notalega jakkapeysu.

Fylgihluti á borð við trefla, sjöl og slæður er alltaf gott að eiga í fataskápnum og nota til að lífga upp á annan fatnað. Ekki þarf að eiga mörg eintök af fylgihlutum heldur velja vandlega þá sem keyptir eru svo þeir endist vel og lengi.