Jón Viðar Jónsson, sá meðvirknilausi leikhússrýnir, greindi frá því á Facebook í gærkvöld að hann hafi horft á fyrri helming Verbúðarinnar, fjóra þætti, í einni beit og þótt hann geti ekki annað sagt en að þeir hafi bara runnið „nokkuð þægilega niður,“ er hann ekki nema rétt í meðallagi hrifinn af þáttunum sem hann lýsir sem hann lýsir sem „eintómri sápu.“

Jón Viðar segist heldur ekki hafa orðið var við „sérstök tilþrif í myndatöku og klippingu, en tónlistin nokkuð snyrtilega unnin.“ Þá finnast gamalreyndum rýninum samtölin yfirleitt stirð og „stundum beinlínis hjákátleg“ og hann greinir ekki nokkra dýpt í persónunum en segir ljóst að leikurunum sé ætlað að bæta það upp og sumir komist dável frá því. Í því sambandi nefnir hann sérstaklega Góa, Guðjón Davíð Karlsson, Jóhann Sigurðarsson og Kristínu Þóru Haraldsdóttur. „Aðrir eru bara svona þokkalegir en ekkert mikið meir.“

Jón Viðar segir að í hálfleik sé enn mjög erfitt að sjá hvaða stefnu sundurlaus atburðarrásin ætli að taka. „En sem stendur sjást þess engin merki að sú samfélagsádeila sem þarna er fitjað upp á nái tengingu við aðra söguþræði sem lyppast áfram til hliðar við braskið og bisnissinn, s.s. framhjáhald og forræðisdeilur.“

Þrátt fyrir þau ósköp öll sé „vart hægt að tala um plott, og kannski gerir það ekkert til, það er alltaf eitthvað æsilegt að gerast, slysfarir tíðar og dauðsföll, endalausar uppáferðir, berir rassar og brjóst; á því sviði hefur amk enginn kvóti verið settur á leikstjórann.“

Staðan í hálfleik hjá Jóni Viðari sjálfum er síðan ekki betri en svo að hann veit satt að segja ekki hvort hann muni endast til að horfa á þáttaröðina til enda en telur sig þó þvingaðan til að horfa á næsta þátt þar sem skilið var við áhorfendur í lok fjórða þáttar í nokkurri óvissu um afdrif einnar aðalpersónunnar, ráðherrans Jóns Hjaltalín. Nanfi hans viðar metur lífslíkur hans þó 95% og er síður en svo tilbúinn til að dæma persónuna úr leik.