Að­dá­endur bresku sam­fé­lags­miðla­stjörnunnar Molly Mae segjast gruna að maðkur sé í mysunni í máli hennar sem hel­tekið hefur um­ræður á breskum sam­fé­lags­miðlum síðustu daga.

Molly sem varð heims­fræg í raun­veru­leika­þáttunum Love Is­land sagði í ný­legu hlað­varps­við­tali að allir hefðu 24 stundir í sóla­hringnum, óháð því af hvaða bak­grunni við­komandi hefur. Molly gaf síðar út yfir­lýsingu og sagðist ein­göngu hafa átt við sjálfa sig en engan annan. Orð hennar hefðu verið tekin úr samhengi.

Um var að ræða hlað­varps­þáttinn „The Diary of a CEO“ en þar fer hinn lítt þekkti Ste­ven Bar­lett með þátta­stjórn. Hann tók ný­verið þátt í breska raun­veru­leika­þættinum The Dragon's Den þar sem við­skipta­frum­kvöðlar kynna sína hug­mynd og reyna að sann­færa þátta­stjórn­endur um að sú hug­mynd geti orðið sjálf­bær og mögu­lega slegið í gegn meðal neyt­enda.

Að­dá­endum Molly Mae þykir þetta allt hið grun­sam­legasta. Benda þeir á að hlað­varps­þátturinn hafi farið í loftið þann 13. desember síðast­liðinn en ekki sprungið út á sam­fé­lags­miðlum fyrr en nú í janúar.

„Maður veltir fyrir sér hvort að um­mælin hafi vakið svona mikla at­hygli ein­fald­lega vegna þess að Ste­ven er að keppa í Dragon's Den? Við­talið er búið að vera þarna á netinu í margar vikur, hvers vegna er það allt í einu svona vin­sælt um leið og fyrsti þátturinn af þessum þáttum er sýndur?“ spyr einn net­verja.

Ste­ven segir þetta af og frá. „Ég er góður í markaðs­setningu, en ekki SVONA góður,“ svarar hann við­komandi á Twitter. Sjálfur hefur Ste­ven komið Molly til varnar vegna málsins.

„Ég hef fengið til mín karl­kyns við­mælendur sem hafa sagt ná­kvæm­lega það sama og hún. Öllum var sama. En þegar Molly segir þetta, þá er hún kross­fest? Klikkað.“

Viðtalið umdeilda má hlusta á hér að neðan: