Aðdáendur bresku samfélagsmiðlastjörnunnar Molly Mae segjast gruna að maðkur sé í mysunni í máli hennar sem heltekið hefur umræður á breskum samfélagsmiðlum síðustu daga.
Molly sem varð heimsfræg í raunveruleikaþáttunum Love Island sagði í nýlegu hlaðvarpsviðtali að allir hefðu 24 stundir í sólahringnum, óháð því af hvaða bakgrunni viðkomandi hefur. Molly gaf síðar út yfirlýsingu og sagðist eingöngu hafa átt við sjálfa sig en engan annan. Orð hennar hefðu verið tekin úr samhengi.
Um var að ræða hlaðvarpsþáttinn „The Diary of a CEO“ en þar fer hinn lítt þekkti Steven Barlett með þáttastjórn. Hann tók nýverið þátt í breska raunveruleikaþættinum The Dragon's Den þar sem viðskiptafrumkvöðlar kynna sína hugmynd og reyna að sannfæra þáttastjórnendur um að sú hugmynd geti orðið sjálfbær og mögulega slegið í gegn meðal neytenda.
Aðdáendum Molly Mae þykir þetta allt hið grunsamlegasta. Benda þeir á að hlaðvarpsþátturinn hafi farið í loftið þann 13. desember síðastliðinn en ekki sprungið út á samfélagsmiðlum fyrr en nú í janúar.
„Maður veltir fyrir sér hvort að ummælin hafi vakið svona mikla athygli einfaldlega vegna þess að Steven er að keppa í Dragon's Den? Viðtalið er búið að vera þarna á netinu í margar vikur, hvers vegna er það allt í einu svona vinsælt um leið og fyrsti þátturinn af þessum þáttum er sýndur?“ spyr einn netverja.
Steven segir þetta af og frá. „Ég er góður í markaðssetningu, en ekki SVONA góður,“ svarar hann viðkomandi á Twitter. Sjálfur hefur Steven komið Molly til varnar vegna málsins.
„Ég hef fengið til mín karlkyns viðmælendur sem hafa sagt nákvæmlega það sama og hún. Öllum var sama. En þegar Molly segir þetta, þá er hún krossfest? Klikkað.“
Viðtalið umdeilda má hlusta á hér að neðan: