Berglind Guðmundsdóttir, lífskúnstner, eigandi vefsíðunnar Gulur, rauður, grænn og salt, bókaútgefandi og þáttastjórnandi hjá Dagmálum á mbl.is, kann svo sannarlega að njóta góðs matar og fanga árstíðabundna stemningu um leið. Hún hefur líka gert sjónvarpsþætti þar sem matargerð og að kunna að njóta er í forgrunni.

„Ég gerði nýlega fjóra stórkostlega þætti um hina einstöku Sikiley og fólkið sem þar býr en þeir eru sýndir í Sjónvarpi Símans. Ég mæli svo mikið með að horfa á þá því þeir endurspegla hæglætislíf Sikileyinga og eru svo góðir fyrir hjartað,“ segir Berglind sem leggur mikið upp úr því að við kunnum að njóta.

Þurfti að velja á milli tveggja rétta

Berglind á sína uppáhalds haustrétti og við fengum hana til að deila með lesendum einum af sínum uppáhalds. „Haustréttirnir sem ég held upp á eru reyndar margir, en að lokum stóð valið á milli tveggja rétta; ítölsku kjötsúpunnar og guðdómlegs grænmetislasagna. Úr varð að ég valdi grænmetislasagna og ég veit að hér verður enginn svikinn.“

Var grænmetisæta á sínum yngri árum

Að baki mörgum réttum býr saga og þessi réttur er einn þeirra. „Ég var grænmetisæta í nokkur ár, á mínum yngri árum, eða þar til ég datt í skál af buffalo-vængjum með gráðaostasósu á Hard Rock Café, þá rétt rúmlega tvítug. Þrátt fyrir að vera ekki grænmetisæta í dag elska ég góða vegan- og grænmetisrétti. Það er eitthvað við mat í fallegum litum. Þessi réttur er kannski ekki sá fljótlegasti, en þvílík dásemd. Hér smellur allt saman og punkturinn yfir i-ið er heimagert pestó, en það jafnast ekkert á við pestóið sem maður gerir sjálfur.“

Haustið kallar á þyngri mat

Berglind segir að matargerðin breytist mikið hjá sér á haustin og hún fari þá í allt annan gír. „Ég fer meira í „comfort food“ eins og lambaskanka og kartöflumús, kjötbollur, rótargrænmeti og súpur. Já, líklega borða ég aðeins þyngri mat, ef svo má kalla, þegar haustið gengur í garð. En þetta fer að sjálfsögðu eftir því hvort haustið er ljúft eða haustlægðirnar skelli á okkur af fullum krafti. Verra veður kallar á „þyngri“ mat.“

Berglind leggur líka mikla áherslu á að við njótum matarins og fáum ekki samviskubit yfir því sem við borðum. „Mig langar að minnast á að heilbrigði er ekki bara að borða hollan mat heldur einnig að borða hann með réttu hugarfari. Að borða og njóta hvers bita, í stað þess að borða kannski eitthvað óhollt og refsa sér með ljótum hugsunum. Tölum fallega við okkur, leyfum okkur alls konar og gerum það af ást,“ segir Berglind og brosir sínu fallega og einlæga brosi.

Girnilegt grænmetislasagna að hætti Berglindar

Ólífuolía

Smjör

3 stk. laukar, skornir í þunnar sneiðar

1 msk. púðursykur

1 msk. timían + 1 tsk.

3 stk. kúrbítur (zucchini), skorinn í þunnar sneiðar langsum

6 stk. plómutómatar, skornir langsum

Lasagnaplötur

Spínat

1 poki rifinn mozzarellaostur

1 stór dós kotasæla, vökvi lítillega síaður frá og hrært út í 1-2 msk. rjómaost (ef vill)

½ bolli rifinn parmesanostur

Fínrifinn börkur af einni sítrónu

½ búnt söxuð steinselja

3 msk. smjör

1½ dl brauðmylsna, mæli með Panko

1 msk. dijonsinnep

8 msk. ólífuolía

Pestó (má kaupa tilbúið)

50 g basil, stilkar fjarlægðir

2 hvítlauksrif

3 msk. ólífuolía

3 msk. furuhnetur

3 msk. parmesanostur

Allt sett í blandara og blandað vel saman.

Látið tvær matskeiðar af olíu og eina matskeið af smjöri á stóra pönnu og hitið við lágan hita þar til smjörið hefur bráðnað. Bætið þá út í lauk, púðursykri og einni matskeið af timían og hitið á pönnunni í 20 mínútur eða þar til laukurinn er kominn með karmelluáferð. Hrærið reglulega í lauknum.

Hitið ofninn á 150°C. Blandið saman í stórri skál zuccini ásamt fjórum matskeiðum af olíu og saltið. Raðið á bökunarplötu (gæti þurft tvær) og eldið í 20 mínútur eða þar til það er orðið mjúkt. Aukið þá hitann í 200°C og eldið í um 10 mínútur eða þar til zucchiniið er orðið gyllt.

Blandið kotasælu, parmesan, sítrónuberki, steinselju (nema 1 msk.) saman í skál og saltið og piprið.

Hitið pönnu og bræðið tvær matskeiðar af smjöri við meðalhita. Bætið einni teskeið af timían, einni matskeið af dijonsinnepi og einni matskeið af steinselju. Takið af hitanum og hrærið kröftuglega. Bætið brauðraspinu út í og blandið vel saman. Takið til hliðar.

Raðið nú hráefnunum saman í ofnfast mót:

■helmingur af lauknum í botninn

■helmingur af zucchinisneiðum

■helmingur af tómatsneiðum

■látið pastaplötur yfir allt

■pestó yfir pastaplöturnar

■helmingur af kotasælublöndunni

■spínat

■helmingur af mozzarellaosti

Endurtakið einu sinni enn í sömu röð og látið síðan brauðmylsnu yfir allt.

Hitið í 175°C heitum ofni í 20 mínútur með álpappír yfir forminu. Takið hann síðan af og eldið í aðrar 40 mínútur. Berið fram á fallegan hátt og njótið.

Hægt er að fylgjast matargerð Berglindar á vefsíðunni hennar grgs.is og á Instagram-reikningnum @gulurraudurgraennogsalt

Grænmetislasagna Berglindar er ómótstæðilega girnilegt og hún lofar að enginn verði svikinn af þessum rétti.