COVID-faraldurinn kom sér ágætlega því við náðum að nýta tímann í að gera og græja. Og með ómetanlegri hjálp vina og ættingja gátum við flutt inn á viku. Við erum samt langt í frá búnir. Nú erum við að smíða girðingu fyrir Áru. Hún fær svo pall næsta sumar. Við ætlum líka að mála hurðirnar í íbúðinni og gluggakarmana. Svo á eftir að taka risið í gegn. Þetta verður örugglega aldrei búið, en er maður ekki alla ævi að bæta og framkvæma? Þegar maður klárar eitt lítið atriði þá poppar annað upp,“ segir Bjarmi vöruhönnuður, sem hannar meðal annars undir merkinu Stundum stúdíó með Kristínu Soffíu Þorsteinsdóttur.

Plöntur, blóm og framandi kaffihúsastemning í Efstasundinu.

Íbúðin er um 71,2 fermetrar á efri hæð, með 33 fermetra risi undir súð og um sjö fermetra garðskúr. „Við erum því að leika okkur með 111 fermetra ef garðurinn er frá talinn.“ Bjarma og Bjarna gengur vel að nýta plássið. „Enn á eftir að fullnýta risið, en ég hef engar áhyggjur. Reynslan sýnir að maður fyllir upp í alla þá fermetra sem manni bjóðast. Hugmyndin er að hafa gestaherbergi og skrifstofu í austurendanum og hugleiðslu/jóga/púðahorn í vesturendanum.“

Duglegir að endurnýta

Bjarmi segir Bjarna ekki vera mikinn búðarkarl svo að hann tekur verslunarhlutverkið vasklega í sínar hendur. „Ikea er í uppáhaldi núna enda góður byrjunarreitur. Annars hef ég gaman af blómabúðum, Fakó, Ilvu og Søstrene Grene hér heima. Hugmyndafræðin og vörurnar frá MUJI eru líka í uppáhaldi og svo er gaman að líta inn í Target, Bath and Beyond og Home Sense í Bandaríkjunum og Kanada. Annars erum við báðir á því að nýta og endurgera það sem hægt er, frekar en að kaupa allt nýtt.“

Bjartir litir poppa upp Rustic-Bohemian stemninguna.

Bjarmi segir stílinn vera í sífelldri mótun. „Ég er viss um að vöruhönnunarnámið hefur haft áhrif á minn stíl, sérstaklega þegar kemur að hugsunarhættinum hvað varðar endurnýtingu og mikilvægi sjálfbærni. Maður hugsar meira út fyrir rammann og fram í tímann. Ég sá til dæmis alltaf fyrir mér að innstungurnar í íbúðinni yrðu að vera svartar, því það rímar betur við litapallettuna sem við erum að vinna með. En mér fannst blóðugt að skipta út nothæfum innstungum svo ég athugaði hvort þeir í Slippfélaginu ættu matta málningu eða sprey. Mér var ráðlagt að spreyja fyrst með glærum primer og svo yfir með svörtu, möttu Montana-spreyi. Þetta kom það vel út að ég hef verið að spreyja hina ýmsu hluti á heimilinu eftir þetta, þar á meðal rofa, klósettkassann og sturtulista.“

Íbúðin er á tveimur hæðum, efri hæð og ris.

Í stað þess að skipta út eldhúsinnréttingunni skiptu þeir um höldur á skápum og skúffum sem gerði gæfumuninn. „Þá tókum við niður hluta af innréttingunni, keyptum nýjar hurðir á tvo efri skápa og breyttum þeim í baðskápa fyrir handklæði og snyrtivörur. Þetta var virkilega ódýr og skemmtileg lausn á baðherbergið. Það stendur til að taka salernið alveg í gegn, en við vildum gefa því smá upplyftingu áður en við réðumst almennilega í það verkefni. Við þurftum því að hugsa í lausnum með fagurfræðilegu ívafi. Við lökkuðum baðflísarnar á gólfinu, máluðum loft og veggi fyrir ofan flísarnar, keyptum nýjan baðvask og skiptum út klósettsetunni. Þannig tókst að gefa baðherberginu nýtt útlit á einfaldan og hagkvæman hátt.“

Risið er tilvalið fyrir hugleiðslu, jóga og notalegt púðahorn.

Góð blanda af ólíkum stílum

„Þegar maður hefur sambúð þarf jú að slípa stílana saman og ég held að okkur hafi tekist það ágætlega. Bjarni er með litríkan Pop art-stíl með hefðbundum skandinavískum blæ. Sjálfur er ég með jarðtengdan Rustic-Bohemian stíl. Ég hallast sífellt meira í átt að mínímalisma í húsgögnum, en þegar kemur að plöntum og blómum tekur við einhvers konar áráttukenndur söfnunarstíll.“

Stílarnir þeirra Bjarma og Bjarna blandast vel saman. Veggljósið ÆR hefur fengið töluverða athygli innan geirans og má sjá í horni svefnherbergisins.

Báðir eru þeir Bjarmi og Bjarni mikil blómabörn og iðar íbúðin af líflegum og fallegum plöntum. „Þegar ég kynntist Bjarna átti hann eitt stofublóm, drekatré að nafni Lúkas. Plöntusafnið stækkaði ört eftir að við fluttum inn saman og er nú komið upp í 82 plöntur. Og enn fjölgar. Ég er klárlega með grænu puttana í sambandinu, þótt Bjarni sé grænkerinn.“

Litagleðin er allsráðandi hjá þessu skemmtilega pari sem hefur hreiðrað um sig í Efstasundinu.

Töfrar hreiðra um sig í Efstasundinu

Bjarmi segist fá mikinn innblástur af ferðalögum og öðrum upplifunum. „Við Bjarni erum orðnir hálfgerðir fastagestir á Balí enda er þetta guðdómleg paradís, og við fáum óneitanlega mikinn innblástur þaðan sem og úr heimspeki hindúisma. Þarna eru einhverjir töfrar sem erfitt er að koma í orð og heimilið er mjög smitað af þessum blæ. Hér eru jarðlitir í brúnum og sandlituðum tónum, tugir plantna og blóma og hugleiðsluhorn. Birtan, ilmurinn og tónlistin minnir einnig á Balí. Svo útbjó ég kaffibarborð í aðalrýminu undir áhrifum kaffihúsamenningarinnar frá Ubud á Balí. Þá erum við báðir mikið í hreinu mataræði. Þetta hefur allt hreiðrað um sig hérna í Efstasundinu.“

Pride ÆR lífgar ærlega upp á rýmið.

ÆR lýsir upp heimilið

Uppáhaldshlutur Bjarma á heimilinu er Sage-espressovélin. „Ekkert er betra en nýmalaður kaffibolli í morgunsárið. Svo er veggljósið ÆR að sjálfsögðu í uppáhaldi.“ Bjarmi frumsýndi ÆR ásamt Kristínu á Hönnunarmars í júní síðastliðinn, en undanfarin tvö ár hafa þau unnið saman við að opna augu almennings fyrir möguleikum og verðmætum íslensku ullarinnar og sett hana í nýtt samhengi og búning. „ÆR er gerð úr ullarkembu og íblöndunarefni sem minnir á gler þegar það harðnar. Ullin gegnir hlutverki trefja og gefur ljósinu lit. Svo er ullarplattinn festur á ljósið með sterkum seglum svo auðvelt er að leika sér með stemningu og aðlaga ljósið að umhverfinu.“ Bjarmi hefur hannað fleiri skemmtilegar vörur, svo sem veggmyndir með orðunum Kaffi og Köff sem hafa hlotið töluverða athygli. „Að sjálfsögðu er ég með þau í eldhúsinu hjá espressovélinni. Vonandi get ég farið að selja þessi plaköt bráðum.“ Verk Bjarma má nálgast á vefsíðunum bjarmii.com og stundumstudio.com, sem og á Instagram undir @stundumstudio og @bjarmii.

Bjarmi og Bjarni eru greinilega miklir fagurkerar sem kunna að nota liti til að poppa upp rýmið.
Ára er mikill gleðigjafi og er að sjálfsögðu með sína eigin Instagram-síðu. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI