María Gomez heldur úti matarblogginu Paz.is sem ætlað er nautnaseggjum sem hafa gaman af því að baka og elda góðan mat án mikillar fyrirhafnar, en flestar uppskriftirnar eru í einfaldari kantinum. María er mikill sælkeri og segist alltaf hafa haft gaman af því að reyna fyrir sér í eldhúsinu og fáum við að birta úrval uppskrifta úr fórum hennar.

María deilir reglulega girnilegum uppskriftum með lesendum sínum á vefsíðunni paz.is.

Grískur kjúklingur í fetasósu

4 kjúklingabringur

2 msk hveiti

2 tsk oregano

3 msk ólífuolía (2 fyrir bringurnar og 1 seinna)

1 smátt skorinn gulur laukur

3-5 hvítlauksrif marin

1,5 bolli kjúklingasoð (1 teningur í 400 ml af vatni eða 1 msk duft eða soð í 500 ml vatn) nota svo 1,5 bolla af því.

1/2 bolli rúsínur

2 msk sítrónusafi

1 bolli fetaostur (kubbur en ekki í olíu)

1 stór fersk mozzarella kúla

4 sítrónusneiðar

Salt

Ekki skemmir fyrir að hafa snittubrauð með réttinum sem svo er hægt að dýfa í syndsamlega góða sósuna.

Setjið bringurnar í plastfilmu og berjið létt á þær með kökukefli.

Veltið þeim svo upp úr hveitinu og 1 tsk af oregano.

Hitið 2 msk af olíunni á pönnu og setjið bringurnar út á þar til þær verða svona gyllinbrúnar báðum megin, sirka 5 mínútur á hvorri hlið.

Takið svo bringurnar af pönnunni og setjið til hliðar.

Bætið svo 1 msk af olíu á pönnuna og setjið smátt skorinn laukinn og marinn hvítlaukinn út á og passið að brúna ekki heldur steikja við vægan hita svo það soðni meira en brúnist. Saltið létt yfir.

Hellið svo soðinu út á pönnuna með lauknum og látið suðuna koma upp.

Bætið þá rúsínum, sítrónusafa og 1 tsk oregano út í og hrærið.

Setjið næst fetaostinn út á og látið hann bráðna alveg í soðinu.

Bætið svo bringunum aftur út á og setjið þunnt skorna sneið af mozarella osti ofan á hverja bringu.

Setjið svo sítrónusneið ofan á mozarella sneiðina.

Leggið lok á og sjóðið í 10 mínútur eða þar til osturinn er alveg bráðnaður.

Miðjarðarhafsmatur eins og hann gerist bestur.