Stefán Ingvar Vigfússon og Rebecca Scott eru meðal þeirra grínista sem fram koma á viðburðinum Grínþyrstir grínistar á morgun í Tjarnarbíói. Rebecca stendur fyrir viðburðinum ásamt Heklu Elísabetu Aðalsteinsdóttur, en þær tilheyra báðar uppistandshópnum Fyndnustu mínar, en Stefán Ingvar hefur undanfarið gert það gott með uppistandshópnum VHS. Á viðburðinum koma fram ásamt Stefáni, Heklu og Rebeccu, þau Þórdís Nadia Semichat, Ari Eldjárn og Kimi Tayler.

„Við Rebecca kynntumst á myndlistarsýningu sem hún hélt á kaffihúsi á Rauðarárstíg. Þá þekkti Hófí, kærastan mín, hana og kynnti okkur. Eftir þetta fóru leiðir okkar að liggja saman, Rebecca var í mastersnámi þegar ég var í BA námi í LHÍ og við fórum í uppistandið á svipuðum tíma,“ segir Stefán.

Njálgur og erótískar bókmenntir

Þau segja að nokkrir hlutir skilji þau að þegar kemur að grínstílnum.
„Grínið mitt er meira um kynlíf, erótískar bókmenntir og njálg. Allir vita að Stefán er hreinn sveinn, svo hann fjallar lítið um það. En mig grunar að hann hafi fengið njálg mögulega sem barn, þannig að kannski eigum við eitthvað sameiginlegt í þessum málum,“ segir Rebecca.

En hvort ykkar er fyndnara?
„Rebecca,“ svarar Stefán um hæl.
„Þetta er engin keppni,“ bætir Rebecca við.

Stefán byrjaði í uppistandinu upp úr 2017.

„Árið 2019 byrjaði ég svo í hópnum VHS með Villa Neto og Hákoni Erni,“ segir Stefán.
„Ég byrjaði í uppistandinu sumarið 2018, í kjölfar þess að hafa gert uppistand sem part af verkefni frá LHÍ. Eftir að ég útskrifaðist hélt ég áfram í uppistandinu með þeim sem unnu verkið með mér, þeim Lóu Björk og Salvöru Gullbrá. Síðan bættist Hekla í hópinn,“ segir Rebecca.

Efaðist um tilvist sína

Þau segjast vissulega finna fyrir stressi, þó það hafi að einhverju leyti skánað með tímanum.

„Fyrst fann ég fyrir svo miklum kvíða að ég fór hreinlega að efast um tilvist mína. Þetta er aðeins skárra núna. Ég sé áhorfendur og hugsa að það sé nú varla hægt að hætta við upp úr þessu, þau borguðu og ég valdi að gera þetta,“ segir Rebecca.

„Ég verð stressaður af því að ég vil standa mig vel. Einhvern tímann var ég búinn að skemmta nokkur kvöld í röð og á síðasta var ég hættur að vera stressaður, þá tók við versta gigg lífs míns. Ef ég er ekki stressaður þá veit ég að ég er ekki að vanda mig,“ segir Stefán.

Þau hafa bæði lent vandræðalegum uppákomum á sýningum.

„Já, ég lenti einu sinni í því. Það var á mjög stóru uppistandi og það var frammíkallari sem kom með betra „punchline“ en ég var sjálfur með á brandaranum mínum,” segir Stefán.

„Ég hef gleymt hvaða brandara ég ætlaði að segja næst, en ég er alltaf með blaðsnepil þar sem ég get tékkað. Stundum gleymi ég hluta af brandaranum og jafnvel fatta að hann var betri án hans,“ segir Rebecca.

Blautþurrkur og aukaföt


Stefán segir að fólk geti átt von á einstaklega góðu gríni á fimmtudaginn.

„Þetta verður besta kvöld lífs þíns,“ segir hann.

„Það er mikilvægt að koma undirbúinn, með handklæði, blautþurrkur og aukaföt. Þið getið rétt ímyndað ykkur hvernig sex sturlaðir grínarar verða af margra mánaða þvingaðri heimaveru,“ segir Rebecca.

Þau segja gesti því geta átt von á nokkrum ferskum bröndurum sem taka á samkomubanninu og fordæmalausum tímum.

„Það verður nóg um samkomu­bannið, sem við upplifðum örugglega öll á mismunandi hátt. Ég í það minnsta efast um að þau hafi verið að hámhorfa á Rock of Love á VH1 eins og ég. Það yrði allavega vandræðalegt ef allt settið hans Ara Eldjárns er líka algjörlega tileinkað söngvara Poison og stjórnanda Rock of Love, Bret Michaels,“ segir Rebecca.

Miða á viðburðinn er hægt að nálgast á tix.is.