„Ég er bara mjög góður,“ sagði Þórhallur Sigurðsson, Laddi sjálfur, við Fréttablaðið í gær, daginn fyrir 75 ára afmælið, og alveg til í framlengda afmælisgleði eins og fyrir tíu árum þegar afmælissýningin Laddi 6-tugur varð ein vinsælasta grínsýning Íslandssögunnar og gekk fyrir fullu húsi í tvö ár samfleytt.

„Ég væri alveg tilbúinn í það,“ segir Laddi og hlær þegar hann er spurður hvort 75 ára afmælisgleðin muni einnig standa í tvö ár. „En það verður ekki. Af því að við erum með Háskólabíó bara þessa daga. Því miður. Það er bara þannig og svona líka bara til þess að koma í veg fyrir að þetta fari úr böndunum og verði í tvö ár.“

Fyrri afmælissýningin hefði átt að vera í kvöld en faraldurinn hefur seinkað henni fram í mars. „Við þurftum að fresta því og það eru komnar dagsetningar, 18. og 19. mars.“

Drepfyndið kamelljón

Laddi er sannkallað kamelljón íslenskrar dægurmenningar sem hann hefur sett sterkan svip á og tekið þátt í að móta áratugum saman. Hann er allt í senn og einum manni síkvikur skemmtikraftur sem hefur sungið, leikið, grínað, samið og skrifað og kallað fram hlátur og bros hjá heilu kynslóðunum enda rúmast innra með honum heill herskari furðufugla og kynlegra kvista sem margir hverjir hafa öðlast sjálfstætt líf í þjóðarvitundinni.

Gert er ráð fyrir að einhver þeirra láti sjá sig í Háskólabíói í mars og næsta víst að Elsa Lund, Marteinn Mosdal, Eiríkur Fjalar, Saxi læknir og Magnús bóndi muni láta sjá sig, hvort sem þeim er boðið eða ekki.

Sérstakir gestir verða hins vegar Þórhallur Þórhallsson, sonur Ladda sem telst með fyndnustu mönnum Íslands, og heiðursgesturinn Hörtur Howser, samferðamaður Ladda í tónlistinni síðustu 40 árin.

Margir aukapabbar

„Ég er ótrúlega stoltur af föður mínum og öllu sem hann hefur afrekað og finnst ég ansi lánsamur að eiga alla þessa aukapabba, Saxa lækni, Skúla rafvirkja, Eirík Fjalar og auðvitað sætustu útgáfuna af pabba, Elsu Lund,“ segir Þórhallur Laddason, sem hefur fetað í fótspor þess gamla í gríninu og bíður eftir afmælisveislunni í Háskólabíói.

„Það hafa ekki allir upplifað það að sjá pabba sinn klæða sig í sokkabuxur. Tónlistarmaður, grínari, myndlistarmaður, leikari og pabbi. Allt saman eru þetta hlutverk sem hann hefur tæklað með afbragðs árangri.“

Þórhallur Þórhallsson er stolltur af öllumhlutverkum pabba síns og þá ekki síst Elsu Lund en hér er Laddi í sokkabuxunum hennar ásamt Hemma heitnum Gunn.
Fréttablaðið/Samsett

Í dag kemur hins vegar afmælissafnplatan, Það er aldeilis, út á víníl og geisladiski sem rúma 40 lög frá löngum söngferli Ladda. „Sko, ég treysti mér ekki til að velja þetta þannig að ég bað þá hjá Alda Music um að fara í málið,“ segir Laddi sem reyndi að sneiða hjá valkvíðanum við að fylla plötuna. „Síðan gerði ég einhverjar smá breytingar á því en það er svo erfitt fyrir mann sjálfan að velja svona. Þetta er eins og að gera upp á milli barnanna sinna.“

Salt jarðar

„Það er svo margt sem ég get sagt. Ég er búinn að þekkja Ladda svo ofsalega lengi af því að hann er úr Hafnarfirði og það gera sér ekki allir grein fyrir því að Laddi er fimm árum eldri en ég. Hann verður 75 ára í dag. Ég er sjötugur,“ segir Björgvin Halldórsson, tónlistarmaður og fornvinur Ladda.

Björgvin fer fyrir Brimkló í júlí 1977 og þá er gamli vinurinn, Laddi, ekki langt undan.

Þeir félagar hafa ýmislegt brallað í gegnum tíðina og gerðu til dæmis stormandi lukku, ásamt Halla bróður Ladda, sem HLH flokkurinn. „Hann sýndi náttúrlega strax af sér mikinn hæfileika og fór nú í Leiklistarskólann en komst nú ekki að þar. Svo fór hann upp á svið Þjóðleikhússins og lék Fagin í Oliver Twist og skákaði öllum lærðu leikurunum á sviðinu.

Hann er bara svo fullur af hæfileikum hann Laddi fyrir utan það að vera salt jarðar. Hann er svo hreinn og beinn og góður drengur. Góður við menn og dýr og alveg heill í gegn og allt það,“ heldur Björgvin áfram.

„Og hann er bara listfengur. Hann er farinn að mála eins og brjálæðingur og svo er hann lagahöfundur, söngvari og náttúrlega leikari par excellence og er með þessa meðfæddu tímasetningartækni sem er alveg sérstök og menn læra ekki í skólum, sko. Þetta er bara eitthvert gen í honum og hann er bara einstakur. Einstakur hæfileikapakki. Og svo er hann í golfinu. Orðinn ágætur þar og er víst helvíti góður í sínum aldursflokki,“ segir Bjöggi og hlær.

Skrámur alltaf uppáhald

„Síðan eru náttúrlega allir þessir karakterar sem eru inni í honum og ég þekki þá alla. Ég man bara þegar ég gerði textann við Skrámur skrifar jólasveinunum og Skrámur hefur alltaf verið í uppáhaldi,“ segir Bjöggi og telst til að hann hafi pródúserað þrjár eða fjórar sólóplötur Ladda.

Glámur og þá kannski sérstaklega Skrámur gerðu gott mótí hljóðveri með Bjögga sem hefur alltaf haldið mest upp á Skrám af öllum þeim aragrúa persóna sem Laddi, vinur hans, hefur skapað.
Mynd/Aðsend

„Hann sjálfur heldur mest upp á Eirík Fjalar,“ upplýsir Bjöggi og varpar síðan ljósi á ýmsa af þeim furðufuglum sem hafa holdgerst í Ladda á löngum ferli. „Margir af þessum karakterum eru kallar úr Hafnarfirði. Svona menn sem settu svip á bæinn. Hann er bara með skúffu af öllum þessum köllum og svo sýður hann eitthvað upp úr þessari skúffu og úr verða einhverjir karakterar.

Edda Björgvins bregður á leik með Gísla Rúnari og Ladda í áramótaskaupinu 1984.

Hann er náttúrlega bara æðislegur. Ég get haldið áfram í allan dag að tala á þessum nótum,“ segir Björgvin Halldórsson, sjálfur Bó, um sinn 75 ára gamla aldavin.

Listamaður á heimsmælikvarða

Leiðir Ladda og leikkonunnar Eddu Björgvinsdóttur hafa oft og víða legið saman í gegnum áratugina þar sem þau hafa grafið upp margan fjársjóðinn. „Laddi vinur minn, sá hógværi snillingur, er yfirburða leikari, alveg sama hvað hann tekur sér fyrir hendur,“ segir Edda.

Edda Björgvins er ekki ein um að halda mest upp á sótraftinn ruglaða Martein Mosdal sem er þeirrar náttúru að hann kemur alltaf aftur.

„Allt sem hann kemur nálægt verður fjársjóður. Þetta eru sannarlega gjafir guðs sem hann fékk ótal margar, en svo vinnur Laddi öll sín hlutverk af svo einstaklega mikilli færni og næmni að það kemst enginn listamaður með tærnar þar sem hann hefur hælana. Laddi er einfaldlega listamaður á heimsmælikvarða.“

Þegar Edda er spurð út í eftirlætis persónu hennar úr galleríi Ladda stendur ekki á svari: „Margar týpurnar hans hafa látið mig hlæja en mitt uppáhald er möppudýrið rykfallna Marteinn Mosdal. Ég fæ alltaf kast þegar ég horfi á það kríp,“ segir Edda og skellir upp úr.