Í kvöld klukkan 19.45 verður sýndur söfnunarþáttur á vegum UN Women á RÚV sem ber yfirskriftina Stúlka – ekki brúður. Tilgangur söfnunarinnar er að leggja ungum konum í Malaví lið sem hafa verið neyddar barnungar í hjónabönd. Önnur hver stúlka sem fæðist í landinu er gift fyrir 18 ára aldur, en þvinguð barnahjónabönd hafa skelfilegar afleiðingar. Þótt málstaðurinn sé háalvarlegur þótti aðstandendum söfnunarinnar mikilvægt að bjóða áhorfendum upp á skemmtilega og fyndna dagskrá á milli þess sem áhorfendur eru fræddir um alvöru vandans. Einar ástsælustu leikkonur þjóðarinnar voru fengnar í verkið, þær Katla Margrét Þorgeirsdóttir og Ilmur Kristjánsdóttir. Kunnuglegir karakterar munu mögulega birtast á skjáumm landsmanna í kvöld, en Ilmur segir stíl innslaganna vera í anda hinna geysivinsælu þátta Stelpurnar.

Þeir Bergur Ebbi og Sveppi koma fram meðal annara í sketsunum.

„Þetta er mjög þekkt í svona söfnunarþáttum, þótt viðfangsefnið sé alvarlegt er gott að hafa grín inn á milli til að létta aðeins á. Eins furðulegt og það kann að hljóma þá er það samt gott, til að halda fólki við efnið. Fyrst þegar við vorum að skrifa handritið þá reyndum við að tengja það eitthvað efninu en það var náttúrulega ekki hægt. Við leituðum þess vegna í okkar klassísku grínsmiðju,“ segir Ilmur um gerð sketsanna.

Ilmur bregður á leik, en hún segir nokkra karaktera sem áður hafa birst mæta á skjái landsmanna.

Hún segir að þær stöllur hafi mest gert þetta sjálfar en þó séu nokkrir skemmtilegir aukaleikarar á borð við Berg Ebba, Sveppa og Eddu Björgvinsdóttur. Ilmur segir að ferlið hafi verið ótrúlega skemmtilegt, það sé alltaf gaman hjá þeim Kötlu að skapa saman grín. Á dögunum deildi Ilmur með áhorfendum Vikunnar með Gísla Marteini að hún hefði bókstaflega pissað úr hlátri við gerð þáttanna.

Ilmur segir það alltaf ótrúlega skemmtilegt ferli að gera grín með Kötlu.

„Það er svo vandræðalegt hvað okkur finnst við sjálfar fyndnar. Maður hugsar eiginlega að þótt engum öðrum finnist þetta fyndið, þá er það samt þess virði að gera, þetta er svo ógeðslega skemmtilegt. Svo eru einhverjir sketsar sem komust ekki að vegna tíma en þeir verða sýndir á heimasíðu UN Women.“

Ilmur sagði landsmönnum frá því í Vikunni hjá Gísla Marteini að hún hefði nánast pissað á sig af hlátri, svo vel hefðu þær skemmt sér við gerð innslaganna. Myndir/UN Women