„Ég opnaði í september í Bolholti en fyrir það þá rak ég Andagift með vinkonu minni Tinnu Sverris,“ segir Lára Rúnarsdóttir, tónlistarkona og jógakennari, sem rekur Móa Studio, þar sem boðið er upp á andlega rækt og námskeið af ýmsu tagi. Í Móum er blásið til fagnaðar um helgina, ásamt fatamarkaði.

Þar sem grímurnar falla

„Þessi hugmynd er hálfs árs gömul og sprettur út frá þessari miklu þörf fyrir svona rými. Rými sem er ekki hefðbundið jógarými eða jógalíkamsrækt heldur bara að hlúa að andanum, koma saman og vera í samveru þar sem egóið og grímurnar og varnirnar fá að falla hægt og rólega,“ segir Lára.

„Það er alls konar í boði, en ég geng að mestu út frá einfaldleikanum.“ Hún segir að mikilvægt sé að til séu rými til að „líða alls konar og mæta sjálfum sér“, sama hvar maður er staddur þá stundina. „Það eru allir að fást við ógeðslega mikið þessa dagana. Maður finnur að það er frekar þungt í mörgum,“ segir hún.

„Þetta snýst rosa mikið um slökun, hugleiðslu í þögn og tónheilun. Ég er tónlistarkona og vinn rosa mikið með tónlist sem heilunartæki í söng, trommum og spuna.“

Fjarri hörku og samkeppni

Lára segir að í Móum gefist tækifæri til að færa sig frá því sem hún lýsir sem ótrúlegri hörku og samkeppni sem einkenni þjóðfélagið. „Það er svo nauðsynlegt að æfa sig í því. Það getur verið rosalega erfitt að fara út úr þessari rosalegu meðvitund um hvernig við tölum, hreyfum okkur og erum, og inn í það að bara vera.“

Lára er með kennararéttindi í jóga. „Ég kláraði það fyrir tíu árum síðan, en ég er líka með menntun í norðuramerískum Shamanisma, sem er svolítið mikið á jaðrinum,“ segir hún. „Það snýst um að fara aftur í grunninn, tenginguna við náttúruna og vinna með plöntur sem Ísland á. Tengja aftur við náttúruna og hvaðan við komum. Við erum svolítið að gleyma okkur í að vinna, vinna, vinna.“

Hugleiðsluferðalag

Að sögn Láru er tromman notuð til að styðja við hugleiðsluferðalag. „Þegar við trommum í ákveðnum takti förum við inn í þetta Z-djúpslökunarástand. Við færum heilanum það, og það er svo mikil lækning í því.“

Lára kveðst einnig búin með fyrstu þrjú stigin í höfuðbeina- og spjaldhryggjarmeðferð. „Þar sem hið andlega og hið læknisfræðilega mætist,“ segir hún.

„Svo er ég líka með menntun í kynjafræði og er að passa mig rosalega mikið á að vera ekki með kynjaða orðræðu. Að það sé jöfnuður og við séum ekki að vinna inn í þessa tvíhyggju. Við reynum að vinna alltaf að þessari valdeflingu einstaklingsins.“

Kakó sem leið úr kulnun

Lára segir að í stúdíóinu sé notast við kakóplöntuna frægu. Aðspurð um þá gagnrýni sem kakóhugleiðsla hefur sætt leggur Lára áherslu á að ekki sé verið að vinna með hugvíkkandi efni. „Þetta er ekki rými sem býður upp á slíkt,“ segir hún og bætir við að ef fólk skoði næringarinnihald kakóplöntunnar sé hún mjög holl heilsunni. „Ástæðan fyrir því að ég nota þetta er að kakóið hjálpaði mér út úr kulnunarástandi árið 2018,“ segir hún. „Plantan er svo rík af magnesíum og það hjálpar okkur inn í slökun,“ segir hún.
Lára segir að þarna sé ekkert ólöglegt á ferðinni, heldur sé plantan algjörlega náttúruleg og áhrif hennar á líkamann sömuleiðis.

Aukið álag eftir inniveru

Aðspurð hvort fólk sé undir álagi eftir heimsfaraldur svarar hún játandi. „Já, ég held að fleiri séu að átta sig á að þeir séu að koma inn í eitthvert lífsmynstur sem þjónar ekki. Við fengum í heimsfaraldri að vera með sjálfum okkur, vera ein og í okkar nánasta umhverfi og mikið heima,“ segir hún. „Og eins og gerist þegar fólk fær að hvíla sig eftir mikið álag, þá hrynur kerfið,“ segir hún.

Ætli fólk sér að gera breytingar á lífshögum sínum geti fylgt því mikið álag. „Það umbreytingarferli tekur rosalega mikið á, það þarf að ögra ákveðnum hugmyndum og öryggi. Og svo auðvitað fylgir depurð eftir þetta allt, heimsfaraldur og stríð.“