Vissu­lega er þetta heims­enda­sýn , verkið gerist eftir hrun mann­legs sam­fé­lags. Allir eru dánir úr ein­hverjum vírusum og við erum búin að skemma jörðina. Það er svo­lítið ó­ljóst hvað gerðist en hugsan­lega er runnin upp ný ís­öld.“

Þannig hefst lýsing Önnu Maríu Tómas­dóttur leik­stjóra á efni nýs leik­rits á sviði Tjarnar­bíós, eftir Reykja­víkur­dótturina Kol­finnu Niku­lás­dóttur. Verkið kallast The last kvöld­mál­tíð og sá titill er býsna við­eig­andi, miðað við lýsingar Önnu Maríu og leik­konunnar Helgu Brögu Jóns­dóttur á inn­taki þess.

Fyndið og hræði­legt

„Það eru fimm mann­eskjur sem húka á botni laugarinnar í Sund­höll Reykja­víkur og eru búnar að króa sig af,“ byrjar Anna María og Helga Braga grípur boltann. „Já, þetta fólk hefur lifað af og er að fara að halda há­tíð. Hvað gerir maður ekki þegar maður er lokaður inni? Maður reynir að stytta sér stundir með ein­hverjum hætti.“ Hún bendir á að þetta verk tali til okkar sem höfum búið við inni­lokanir vegna CO­VID19, þó að það hafi verið skrifað árið 2017.

„Þarna sér maður klassíska fjöl­skyldu­dýnamík, sem margir hafa kynnst í kófinu með þeirri ein­angrun sem því hefur fylgt. Það er gaman, það er þrúgandi, það er klikkað, það er alls konar.“ Anna María tekur undir það og segir The last kvöld­mál­tíð vera bæði fyndið og hræði­legt, þar komi upp erfiðar spurningar um á­stand heimsins og hvort við ætlum að bjarga jörðinni og mann­kyninu, en líka spurningar um hvernig við komum fram við ást­vini okkar. „Þetta er grimmur spegill en á sama tíma spaugi­legur.“

„Það sem vekur líka at­hygli við verkið er að höfundurinn, Kol­finna Niku­lás­dóttir, leikur sér svo mikið með tungu­málið,“ segir Helga Braga. „Þetta gerist í fram­tíðinni og fólkið er hætt að kunna al­menni­lega ís­lensku heldur talar sam­bland af ís­lensku og ensku og svo smá­slettu af dönsku. Það er frekar fyndið – en auð­vitað dapur­legt um leið.“

„Já, þarna er bæði kómík og drama, al­ger veisla,“ segir Anna María. „En verkið er á­leitið því það krefur mann um að spegla sjálfan sig og velta upp spurningum eins og: Er ég að gera rétt? Er ég að hugsa nógu vel um fólk og fram­tíð? Kem ég fal­lega fram við mína nánustu? Og er ég að gera allt sem ég get til að minnka gróður­húsa­á­hrif og skila jörðinni í betra á­sig­komu­lagi en hún var í þegar ég fékk hana í vöggu­gjöf?“

Þrjár að debútera

Auk Helgu Brögu eru á sviðinu þau Ólafur Ás­geirs­son, Albert Hall­dórs­son, Ragnar Ís­leifur Braga­son og Ást­hildur Úa Sigurðar­dóttir. Anna María getur þess að hún sjálf, Ást­hildur Úa og Kol­finna séu allar að hefja nýjan feril með þessu verki og Helga Braga kveðst vera að koma í leik­hús eftir átta ára hlé, þar hafi hún þó verið í upp­hafi leik­ferilsins og þá sem drama­leik­kona.

Fleiri koma vissu­lega að sýningunni. Brynja Björns­dóttir hannar leik­mynd, Ólafur Ágúst Stefáns­son ljós og Brynja Skjaldar­dóttir búninga. Salka Vals­dóttir semur tón­list, Þór­oddur Ingvars­son er tækni­maður og Ragn­heiður Maí­s­ól Sturlu­dóttir fram­leiðandi. En telja þær Anna María og Helga Braga að al­menning langi í Tjarnar­bíó til að upp­lifa heims­endi?

Anna María svarar að bragði: „Já, það er mikill spenningur og þó sýningin sé á­leitin þá er hún engin kvöl og pína.“ „Gengur vissu­lega langt og er engin hálf­velgja,“ segir Helga Braga. „En hún er spennandi og alls ekki hefð­bundin.“