Grillað græn­meti er mjög gott með­læti og hægt að velja um allt það sem hugurinn girnist. Í þessari upp­skrift er fennel, paprika, kirsu­berjatómatar, laukur og kúr­bítur. Krydd­blandan sem notuð er hentar alveg líka á kjúk­ling eða svína­kjöt. Þessi mál­tíð getur ekki klikkað. Upp­skriftin miðast við fjóra.

Grillað entrecôte

800 g nautaentrecôte

1 fennel, skorið í sneiðar

2 rauð­laukar, skornir til helminga

2 rauðar paprikur, skornar í grófa bita

1 kúr­bítur, skorinn á lengdina

8 kar­töflur

12 kirsu­berjatómatar, helst á klasanum

Ferskt basil, til skrauts

Marineríng

1 dl ó­lífu­olía

1 búnt ferskt basil

2 stór hvít­lauks­rif

½ sítróna, safinn

Salt og pipar

Grill­krydd

3 msk. reykt papriku­duft

2 msk. papriku­duft

2 msk. chilli-duft

1 msk. svartur pipar

1 msk. hvít­lauks­duft

1 msk. ó­rega­nó

1 tsk. ca­yenne­pipar

2 msk. salt

2 msk. púður­sykur

Chilli-smjör

200 g mjúkt smjör

½ - 1 chilli-pipar, fínt skorinn

2 stór hvít­lauks­rif

½ sítróna, safi og börkur

Setjið allt sem á að fara í chilli-smjörið í blandara. Fólk getur ráðið hversu sterkt smjörið á að vera með meira eða minna chilli. Smakkið til. Setjið smjörið í plast­filmu og rúllið upp eins og pylsu. Geymið í ís­skáp svo það stífni en smjörið er skorið í sneiðar þegar það er borið fram.

Grillað nautaentrecôte er sannkallaður veislumatur.
Fréttablaðið/Getty

Græn­metið

Setjið allt niður­skorið græn­meti í skál með marineríngunni. Bætið við sítrónu­safa ef þarf og salti og pipar. Látið standa í marineríngunni í að minnsta kosti klukku­stund. Grillið græn­metið á beinum hita í nokkrar mínútur. Leyfið tómötunum að vera á grillinu líka í síðustu mínúturnar.

Kar­töflurnar

Sjóðið kar­töflur í um það bil tíu mínútur. Hellið vatninu af og setjið þær á grill­pinna. Ef notaðir eru tré­pinnar skal leggja þá í bleyti í minnst 20 mínútur fyrir notkun. Penslið kar­töflurnar með olíu og grillið þær með öðru græn­meti.

Kjötið

Blandið öllu kryddinu í skál og hrærið vel saman. Það ætti að duga í nokkrar mál­tíðir og geymist auð­veld­lega. Best er að geyma það í loft­þéttum um­búðum.

Skerið kjötið í fjóra á­líka stóra bita. Nuddið krydd­blöndunni á báðar hliðar nauta­bitanna og grillið í 2-3 mínútur á hvorri hlið. Takið kjötið af og látið það hvíla í 10 mínútur.

Góð ráð

Hafið allt til­búið og niður­skorið áður en hafist er handa við eldun. Þá gengur allt snurðu­laust fyrir sig. Það er vel hægt að bjóða gestum upp á þessa mál­tíð og jafn­vel gott rauð­vín með ef fólk vill.

Grillað grænmeti er mjög gott. Hægt er að nota hvaða eftirlætisgrænmeti sem til er.
Fréttablaðið/Getty

Ti­ramisù með jarðar­berjum

Ti­ramisù er frá­bær sumar­desert, ferskur réttur með jarðar­berjum sem hæfir öllum góðum gestum. Upp­skriftin miðast við fjóra.

1 ½ dl espresso

2 eggja­rauður

1 sítróna, rifinn börkur

1 ½ - 2 msk. sykur

1 vanillu­stöng, að­eins fræin

250 g mas­car­pone ostur

10-12 Lady Fin­ger kex

Kakó­duft

250 g jarðar­ber

4 fal­leg glös eða desert­skálar

Hrærið saman eggja­rauður og sykur þar til blandan verður létt og ljós. Bætið vanillu­fræjunum saman við á­samt sítrónu­berki og mas­car­pone. Hrærið allt vel saman. Stundum er gott að hræra mas­car­poneostinn að­eins upp áður en hann er settur saman við blönduna.

Skerið Lady Fin­ger í bita. Setjið í botninn á fal­legu glasi eða desert­skál. Dreifið smá­vegis kaffi yfir. Skolið jarðar­berin og skerið í sneiðar og raðið ofan á kexið. Þar ofan á kemur mas­car­pone-blandan. Aftur kex og jarðar­ber, síðan mas­car­pone efst. Geymið í kæli­skáp í minnst 3-4 tíma, helst yfir nótt.

Þegar desertinn er borinn fram er kakói stráð yfir og puntað með jarðar­berjum.

Tiramisù er í uppáhaldi hjá mörgum enda er þessi ítalski desert vinsæll.
Fréttablaðið/Getty