Ragna Björg Ársælsdóttir segist svo sannarlega vera komin í grillgírinn, enda varla annað hægt í þessari endalausu blíðu sem hefur leikið um hörund landans að undanförnu.

Ragna starfar sem verkefnastjóri yfir stórri evrópskri rannsókn á vegum Keresis í Evrópu. Bæði verkefnin snúast um að skoða árangur fiskroðs til að græða krónísk sykursýkisfótasár. Þar fyrir utan er Ragna menntaður hjúkrunarfræðingur og tekur aukavaktir á Landspítalanum, syngur eins og engill, bakar og eldar eins og enginn sé morgundagurinn, hefur gaman af því að spá í tísku og förðun og margt fleira.

Allt eldað á grillinu

Um árabil hefur þessi iðni matgæðingur haldið úti vinsælli uppskrifta- og bloggsíðu á netinu, ragna.is, þar sem hún birtir girnilegar uppskriftir að ljúffengum mat, meðlæti og dýrindis eftirréttum. Hér deilir hún með okkur uppskrift að grilluðum steinbít með kaldri og frískandi sinnepssósu. Hún mælir sérstaklega með því að bera fiskinn fram með grilluðu brokkolíní, grilluðum kartöfluskífum og grilluðum haloumi-osti.

Fyrst byrjar Ragna á því að skella í sósuna sem er ofureinföld, en hún er best ef hún fær að standa í að minnsta kost fimmtán mínútur áður en hennar er neytt. Næst hrærir hún í marineringuna og á meðan fiskurinn er að marinerast veltir hún brokkolíní og kartöfluskífum upp úr olíu og stráir salti og pipar yfir. Einnig penslar hún haloumi með olíu svo hann festist síður við grillgrindina. Þá er allt klappað og klárt á grillið og ekkert eftir nema að láta logana leika um lostætið. Gott er að byrja á kartöflunum sem geta tekið lengri tíma, sem og brokkolíníinu. Svo má alltaf færa það sem er tilbúið upp á efri grindina til að halda á því hita á meðan hitt klárast.

Fiskinn, kartöflur, haloumi og brokkolíní er allt hægt að grilla saman.

Fiskur og marinering

4 þykk stykki af steinbít eða skötusel

Safi úr 1 sítrónu

2 msk. matarolía

1 tsk. saltflögur

½ tsk nýmalaður pipar

2 pressuð hvítlauksrif

½ dl söxuð fersk steinselja eða 2 msk. þurrkuð

1 msk. rifinn börkur af sítrónu

Þeytið saman leginum og hellið yfir fiskinn. Látið standa í 10 mínútur á borði.

Grillið á miðlungshita á grilli (gott að pensla grillgrindina með olíu áður en fiskurinn er lagður á). Snúið bitunum bara einu sinni á meðan þeir eru grillaðir.

Það er einfalt að hræra í þessa sjúklegu sinnepssósu sem smellpassar með grillaða fiskinum. Sinnepsspretturnar toppa svo allt með fallegum grænum lit og frískandi biti.

Köld sinnepssósa

2 kúfaðar msk. majones

2 kúfaðar msk. sýrður rjómi

1 tsk. dijonsinnep

1 tsk. sætt sinnep

2 tsk. sítrónusafi

¼ tsk. hvítlaukskrydd/duft

Salt og pipar eftir þörfum

3 msk. gróftsaxaðar sinneps-sprettur

Hrærið öllu saman í skál og látið standa í minnst 15 mínútur áður en þið berið fram.

Meðlæti

Grillað brokkolíní

Grillaðar bökunarkartöfluskífur

Grillaður halloumi

Sinnepssósa

Hér er um að ræða æðislega sinnepssósu sem bragð er að. Þessi er einföld í samsetningu og frábær með grillmatnum í sumar eða hvers kyns fiskréttum. Sósan geymist vel og er tilvalið að búa til nóg af henni til að eiga í ísskápnum.

Grillmatur hefur sjaldan verið svona ferskur og girnilegur.