Sumarið á Íslandi er fullkominn tími til að leita uppi öll útigrillin sem finna má í nágrenninu.

Það er þó eitt betra en að fíra upp í kolunum og grilla sér pylsu í fallegu umhverfi, og það er að gera það saman að góðri göngu lokinni. Því útiveran er það sem kemur roða í kinnarnar og býr til eftirvæntinguna eftir grillmetinu ljúffenga. Í nágrenni Reykjavíkur má finna fjölmörg skemmtileg útivistarsvæði sem bjóða upp á fjölbreytta afþreyingu og útiveru. Á sumum þessara svæða hefur sveitarfélagið plantað útigrilli sem hægt er að nýta sér. Oftast þarf að skaffa eigin kol og eldfæri en þau má nú geyma í bílskottinu ásamt grillmatnum á meðan gengið er um grænt kjarrlendi og lundi. Munum svo auðvitað að ganga vel um, skilja ekki rusl eftir okkur og gæta ítrustu varúðar þegar farið er með eld í náttúrunni.

Heimsækjum Heiðmörk

Heiðmörk er gullfallegt útivistarsvæði með fjöldanum öllum af miskrefjandi gönguleiðum. Þar má einnig finna fallega áningarstaði og lundi og sumir hverjir eru jafnvel búnir útigrilli sem tilvalið er að nýta sér eftir smá áreynslu.

Furulundur er fjölskyldulundur búinn leiktækjum, blakvelli og grillaðstöðu. Inn af Furulundi er Dropinn, áningarstaður með grilli, borðum og bekkjum.

Grenilundur er fjölskyldurjóður frá 2005. Þar er grillaðstaða, bílastæði og leik- og klifurtæki. Grenilundur rúmar um 50 manns.

Á áningarstaðnum við Helluvatn er grillaðstaða undir þaki.

Hjallaflatir eru stærsti áningarstaður Heiðmerkur. Þar geta komið saman meira en 300 manns. Þar er fótboltavöllur og grillaðstaða.

Símamannalaut er afrakstur kraftmikils landnemastarfs. Félag íslenskra símamanna hóf gróðursetningu þar strax eftir friðun Heiðmerkur árið 1950. Í Símamannalaut er bílastæði, grill, borð og bekkir. Svæðið hentar vel fyrir hópa upp að 40 manns.

Vígsluflöt er sögufrægur staður í Heiðmörkinni, en mörkin var stofnuð þar formlega 25. júní árið 1950. Á Vígsluflöt eru grill, borð, bekkir og bílastæði. Svæðið getur rúmað um 70 til 100 manns.

Þjóðhátíðarlundur var stofnaður árið 1974 af Skógræktarfélagi Reykjavíkur til að minnast 1100 ára afmælis Íslandsbyggðar og jafnframt 75 ára afmælis skógræktar á Íslandi. Þjóðhátíðarlundur er í Löngubrekkum og skammt frá eru Hulduklettar. Í Þjóðhátíðarlundi er grill, borð og bekkir, bílastæði, leiktæki og fótboltavöllur. Svæðið hentar vel fyrir stærri hópa, eða 70 til 100 manns.

Grillað í Gufunesbæ

Frístundagarðurinn við Gufunesbæ býður upp á fjölbreytta afþreyingu og skemmtun sem hentar bæði fjölskyldum og vinahópum. Stór leikvöllur hefur ofan af fyrir þeim yngstu. Einnig er þar að finna frisbígolfvöll og strandblakvelli, gönguleiðir, rathlaupabraut og margt fleira. Fyrir grillglaða gesti er tilvalið að panta grillskýlið til notkunar. Grillskýlið við Gufunesbæ er opið fyrir almenning og er aðstaðan öllum að kostnaðarlausu. Grillið er kolagrill og því þarf að taka með sér kol og grillvökva og svo auðvitað að ganga vel frá eftir sig.

Grillaðstaðan er frátekin fyrir skóla- og frístundarhópa á virkum dögum milli klukkan 08.00-16.00. Því gildir það sama og fleyg orð Hannesar Hólmsteins um dagsgróða og kvöldgrill, að hægt er að panta grillaðstöðuna eftir klukkan fjögur á daginn. Slóðin er gufunes.is/grillskyli.