Dansgólfið er griðastaður, staðurinn sem við leitum í þegar við þurfum pásu frá amstri hversdagsins, stund milli stríða, eða útrás fyrir tilfinningalíf okkar. Staður sem er meiri þörf á núna en svo oft áður,“ segir dansarinn Erla Rut Mathiesen um verkið Óður til dansgólfs - borgin dansar.

Verkið er í raun röð myndbandsverka, eða „safn myndbandsportretta“ eins og Erla Rut og vinkonur hennar, Eydís Rose Vilmundardóttir og Sara Margrét Ragnarsdóttir í hópnum Notalegur félagsskapur kalla það.

„Með verkinu viljum við bjóða borgarbúum að kynnast, fagna og heiðra hlutverk dansins og dansara í menningarlífi okkar Íslendinga og undirstrika um leið tilgang og mikilvægi dansins.“

Portrettin verða hluti af Ljósaslóð Vetrarhátíðar, sem mun liggja frá Hallgrímskirkju niður Skólavörðustíginn og á Austurvöll, þegar þeim verður varpað í tóma búðarglugga á Skólavörðustíg síðustu fjögur kvöld vikunnar.

Saga Sigurðardóttir dansar í einni portrettunni sinni sem mun lífga upp á gluggana á Skólavörðustíg. Mynd/Notalegur Félagsskapur

Griðastaðurinn

Vinkonurnar útskrifuðust af samtímadansbraut Listaháskóla Íslands 2016 og stofnuðu Notalegan félagsskap í fyrra til þess að skoða kóreógrafíu og samfélagslegt hlutverk dansins. Erla Rut segir þær trúa því að allir geti og hafi örugglega einhvern tímann fundið sér dálítinn griðastað á dansgólfinu. „Hvort sem það er bara aðeins til að gleyma sér eða eiga góða stund með góðu fólki.“

Vinkonurnar fengu sjö dansara með ólíka sögu og bakgrunn til þess að gera þrjár „portrettur“ hver, þannig að 21 verk munu renna yfir gluggana milli klukkan 18-21 frá kvöldi fimmtudags til sunnudags.

„Við viljum í verkinu einnig heiðra þá sem hafa tileinkað líf sitt dansgólfinu og þar fá áhorfendur að kynnast nokkrum íslenskum dönsurum sem endurspegla þessa þörf og þrá sem bergmálar um allt samfélagið og geta upplifað útrásina sem dansgólfið býður upp á.“

Gluggi lifnar við

„Glugginn verður lifandi þessi fjögur kvöld og það er bara einn dansari í einu og verkin eru hljóðlaus,“ segir Erla Rut en áhorfendur heyra ekki tónlistina sem dansararnir velja sér. Hún upplýsir hins vegar að í höfði dansaranna ómi Eurovision-lög, sígild tónlist og allt þar á milli. Rapp, hip-hop og eitthvað af íslenskri tónlist. „Bara öll flóran.“

„Dansarinn kemur bara inn í rýmið og hleypir út þeim tilfinningum, þeim sporum og þeirri stemningu sem hann er í akkúrat þegar myndböndin voru tekin upp. Þannig að þetta er í rauninni bara alveg í mómentinu,“ segir Erla Rut og bætir við að í raun sé ekkert fyrir fram ákveðið nema tónlistin.

Þótt dansararnir hafi sleppt takinu í tökunum voru engir sénsar teknir og hugað að sóttvörnum í tilfinningarússinu. Mynd/Notalegur Félagsskapur

Gleði og þakklæti

„Þetta er fólk sem við lítum upp til, sækjum innblástur til og er að gera skemmtilega hluti, þannig að við vildum líka bara kinka svona kolli til þeirra með þessu og þakka þeim fyrir,“ segir Erla Rut, um dansarana Erlu Gunnarsdóttur, Ernesto Camilo Aldazabal Valdes, Höllu Ólafsdóttir, Ingu Maríu Olsen, Sögu Sigurðardóttur, Sverri Gauta Svavarsson og Védísi Kjartansdóttur, sem öll voru til í tuskið.

„Ásta Jónína Arnardóttir tók portrettin upp á einum sunnudegi í stúdíói Ljósmyndaskólans í Reykjavík og ég held ég geti sagt að allir fóru glaðari út en þeir komu inn. Þótt allir hafi mætt glaðir,“ segir Erla Rut, um gleðina sem fylgdi því að sleppa „aðeins af sér takinu og hlusta á góða tónlist.“

„Það voru bara allir glaðir og þakklátir fyrir að fá að vera til og dansa,“ segir Erla Rut og vonar að áhorfendur muni finna „einhvern takt og einhverja ást í hjartanu,“ við að horfa á verkin.

„Þetta er svo einlægt og svo mikið frá hjartanu. Þarna er bara einhver í sínum heimi en er samt að deila því með þér í gegnum þessar portrettur.“