Það voru endalausar próteintengdar spurningar vina og vandamanna um veganfæði sem kveiktu áhugann hjá henni og undu upp á sig. „Ég byrjaði að borða dýraafurðir aftur um tíma en hef núna hætt því að mestu,“ segir Dögg sem stundar nám í næringarfræði við HÍ. „Ég fór virkilega að spá í þessu aftur þegar ég eignaðist börn. Þegar eldri stelpan mín byrjaði að borða kom í ljós að hún var viðkvæm fyrir mjólkurvörum. Og yngri stelpan mín er með mjög leiðinlegt eggjaóþol. Þá var gott að kunna það sem ég lærði á vegantímanum. Mér finnst líka mikilvægt að börnin mín læri að borða fjölbreyttan, góðan og næringarríkan mat og til þess verð ég að vera góð fyrirmynd.“

Það var nóg komið

Ein stærsta ástæðan fyrir lífsstílsbreytingum Daggar var seinni meðgangan. „Hún var mjög erfið. Síðustu mánuðina var ég rúmliggjandi og mátti lítið. Ég losnaði aldrei við ógleðina og það leið ekki sá dagur að ég kastaði ekki upp. Áður hafði ég lifað tiltölulega heilbrigðu lífi en þarna hafði ég alveg fengið nóg og lofaði sjálfri mér að gera allt til að koma mér í líkamlegt stand eftir meðgönguna, þó svo það yrði kannski ekki upp á það besta. Ég byrjaði að skoða mataræði og næringu í fæðingarorlofinu og fór í kvíðameðferð hjá Kvíðameðferðarstöðinni til að huga að andlegu heilsunni. Þegar ég treysti mér fór ég til sjúkraþjálfara og byrjaði að æfa hjá Granda101. Þetta hefur verið krefjandi vinna en mjög skemmtileg og núna er ég á mun betri stað en fyrir meðgöngu.

Ég virka mun betur yfir daginn ef ég byrja hann á skemmtilegri æfingu. Ég tengdi alltaf hreyfingu við keppnir sem barn og unglingur enda var mikið lagt í keppnisíþróttir, sem hentaði mér ekki. Í dag er þetta geggjaður klukkutími sem ég á algjörlega fyrir sjálfa mig. Ég er ekki að keppa við neinn. Eftir meðgöngu var ég með verki í mjöðm og neðanverðu baki, sem ég finn ekki fyrir núna ef ég hreyfi mig reglulega. Stærsti kosturinn er að geta leikið og að eltast við börnin mín án þess að finna fyrir stirðleika og verkjum og vera móð og másandi. Að borða vel hefur líka jákvæð áhrif á andlegu heilsuna. Það sem ég lærði helst var að ef ég vildi borða og elda góðan og hollan mat yrði ég að gefa mér tíma til þess. Mín helstu mistök áður voru að bíða þar til korter í kvöldmat til að ákveða hvað ætti að vera í matinn. Þá varð eldamennskan að kvöð og ég endaði á að elda einfalt og alltaf það sama. Núna er matreiðsla orðið eitt af mínum helstu áhugamálum.

Gríðarlegt frelsi

Mín stærsta framför er án efa hugarfarið. Að byrja að sjá mat sem eitthvað sem ég fæ að njóta. Það eru forréttindi að hafa aðgengi að næringarríkum og góðum mat. Svo er líka stór sigur að losna við gamlar glataðar ranghugmyndir um mat og næringu tengdar megrunarkúltúr sem maður hamraði vel inn í hausinn á sér sem unglingur. Það er gríðarlegt frelsi að losna úr þeim hlekkjum. Í dag finnst mér óþægilegt að hugsa um mat sem eitthvað sem maður svindlar á. Tilhugsunin um „að svindla“ þýðir að eitthvað sé slæmt, og þá á maður það frekar til að refsa sér fyrir að hafa gert eitthvað sem „ekki má“. Ef ég hlusta rétt á líkamann minn, borða reglulega bragðgóðan og hollan mat, hef ég minni þörf til að bæta ís og nammi í mataræðið.

Það er samt fátt sem mér finnst betra en ís og yndið hún mamma mín gaf mér ísgerðarskál í afmælisgjöf, svo núna bý ég bara til minn eigin ís. Mér finnst jafn mikilvægt að leyfa sér, einstaka sinnum. Að gera það daglega er orðið eitthvað annað. Það er hollt að æfa sig að fá sér bara ákveðinn skammt af ís, og brjóta niður þá hugsun að „jæja núna er ég búin að fá mér ís, ég get alveg eins étið alla dolluna og snakkpoka líka af því að núna er allt ónýtt“, sem var til dæmis mjög öflugt hjá mér áður fyrr.“

Ekki vegan en nálægt því

Dögg segist vera á plöntumiðuðu mataræði en myndi ekki segja að hún væri vegan. „Ég fæ mér alveg ost á tyllidögum. En mér finnst veganúar frábært tækifæri til að víkka út sjóndeildarhringinn þegar kemur að mat. Persónulega finnst mér að fólk ætti ekki að líta á veganúar þar sem þú „mátt ekki“ borða dýraafurðir, heldur frekar mánuð til að uppgötva ný hráefni, nýjar uppskriftir og nýja rétti sem ekki innihalda dýraafurðir.“

Dögg borðaði síðast kjöt á áramótunum 2019/2020. „Ég hafði minnkað kjöt- og fiskneyslu niður í sama og ekkert, en það var ríkt í mér að jól og áramót yrðu að vera kjöthátíð. Ég tók nokkra bita og man að ég hugsaði að mig langaði ekki í þetta og hvers vegna ég væri að pína mig til að borða þetta. En ef mig langar í kjöt aftur þá mun ég ekki neita mér um það. En löngunin er bara ekki til staðar, og ég er ekkert viss um að hún komi nokkurn tíma. Mér líður mun betur líkamlega og andlega á plöntufæði og ég er mun betri kokkur. Svo finnst mér skemmtilegra að borða mat í öllum regnbogans litum. Fyrir utan allan persónulegan ávinning þá veit ég að kolefnissporið mitt er töluvert minna.“

Hinir fjölskyldumeðlimirnir á heimilinu segir Dögg að borði kjöt og fisk. „Í þau fáu skipti sem ekki eru grænmetisréttir í kvöldmat höfum við sama mat fyrir alla, nema ég fæ mér oumph eða baunir í staðinn fyrir kjúkling eða fisk. Börnin eru ekki á sérfæði í leikskólanum nema út af eggja- og mjólkuróþolinu. En við tölum mikið um mat og hvað maturinn gerir fyrir líkamann. Þannig reynum við að tengja mat við jákvæða og skemmtilega upplifun og ef þær ákveða sjálfar að taka alfarið út dýraafurðir þurfa þær ekki að hafa áhyggjur af næringunni.“

Döggu hefur tekist nokkuð vel að halda sig við efnið í faraldrinum og hefur komið sér upp líkamsræktarrými í garðskálanum.

Líkamsrækt er nauðsyn

Dögg segist hafa verið lengi að fatta hvað hreyfing væri ótrúlega skemmtileg. „Mér fannst aldrei gaman í skólaleikfiminni og var svolítið brennd. Svo byrjaði ég í Boot Camp um 2008, þar sem ég kynntist því fyrst hvað líkamsrækt getur verið ótrúlega skemmtileg.”

Dögg hefur tekist nokkuð vel að halda sér við efnið í faraldrinum og hefur komið sér upp líkamsræktarrými í garðskálanum. „Ég vissi að ég yrði að setja mér markmið til að halda mér gangandi, en ég vissi að þau þyrftu að vera minni en ella. Ég ákvað að líta á þetta sem frábært tækifæri til að nýta tímann í að ná einhverju sem ég hefði annars ekki reynt við. Núna hef ég reynt að standa á höndum og í síðustu lokun var ég að æfa mig í að sippa. Þetta hefur hjálpað mér við að halda mér við efnið.“

Nám í næringarfræði

Dögg langaði að læra næringarfræði í mörg ár en skorti kjarkinn. „Þegar ég var að leita mér að vinnu í upphafi heimsfaraldurs sá ég að líkurnar á að finna nýja vinnu fóru ansi hratt minnkandi. Ég held að þetta hafi allt smollið saman eins og það átti að gera. Ég þurfti persónulegu undirbúningsvinnuna til þess að ég yrði tilbúin að skrá mig.

Í náminu undrast ég sífellt meira yfir því hvað líkaminn er stórkostlegt fyrirbæri. Námið hefur líka kennt mér að það er ótrúlega mikið af upplýsingum í gangi sem segja hálfan sannleikann og eru oft einfaldlega rangar. Það er ekki skrítið að fólki finnist næring og mataræði ruglandi.“ Dögg stefnir á að starfa við næringarfræði í framtíðinni. „Mig dreymir um að vinna með börnum og unglingum. Samhliða náminu hef ég þróað tilraunaverkefni og hef fengið nokkra einstaklinga til að taka þátt í því með mér. Markmiðið er að skapa samtal og finna leið til að vekja áhuga á matargerð með næringu að leiðarljósi, veita stuðning til að skapa betri og heilbrigðari venjur og ýta undir sjálfsöryggi og jákvæðan hugsunarhátt þegar kemur að mat. Hingað til hefur þetta verið skemmtilegt, bæði fyrir mig og þá sem hafa tekið þátt og vonandi næ ég að leyfa þessu að vaxa og dafna samhliða náminu.“