Halldóra Mogensen, þingmaður Pírata, telur að undanþágan sem var veitt fyrir ræktun iðnaðarhamps sé mikilvægasta breytingin sem hefur orðið á regluverkinu varðandi hamp á Íslandi. Hún telur plöntuna og efni sem er hægt að vinna úr henni bjóða upp á gríðarleg tækifæri fyrir ræktendur og að nauðsynlegt sé að setja lög um hamp sem byggja á bestu þekkingu og gögnum sem völ er á, en ekki fordómum.

„Hampur er á mjög gráu svæði lagalega séð á Íslandi, því iðnaðarhampur er unninn úr plöntunni Cannabis sativa en framleiðir nánast ekkert af vímugefandi efnum. Lögin kveða hins vegar á um að kannabis sé ólöglegt, óháð því hvort vímugefandi efni séu í því. Samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni frá 1974 er öll varsla og meðferð hamps því refsiverð,“ segir Halldóra. „Þessi lög eru enn í gildi og þeim hefur verið beitt, meðal annars af Lyfjastofnun í samstarfi við lögreglu til að stoppa ræktun á iðnaðarhampi.

Ræktendur hamps og aðrir hagaðilar hafa staðið í gríðarlega flottri baráttu fyrir leyfi fyrir iðnaðarhampsræktun. Svandís Svavarsdóttir heilbrigðisráðherra veitti undanþágu svo hægt væri að flytja inn fræin, sem gerði ræktun á síðasta ári mögulega,“ segir Halldóra. „Heilbrigðisráðherra gerði þetta meðal annars til að uppfylla vilyrði sem Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, ferðamála-, iðnaðar- og nýsköpunarráðherra, gaf mér í óundirbúnum fyrirspurnum í október 2019. Hún sagðist opin fyrir að endurskoða reglur varðandi ræktun hamps, sem var svo gert.“

Getur nýst á ótal vegu

„Ég hef alltaf haft mikinn áhuga á lyfjahampi og hvernig hann er nýttur til lækninga. Ég hef fylgst vel með þeirri þróun og lagði fram frumvarp um að lögleiða lyfjahamp, sem er á ensku kallað „medical marijuana“,“ segir Halldóra. „Ég hef líka áhuga á hvernig cannabidiol, eða CBD, sem er eitt af virku efnunum í hampi, hefur verið nýtt til lækninga. Það er unnið úr iðnaðarhampi sem veldur ekki vímu og er ekki ávanabindandi.

Iðnarhampur getur nýst í margt og úr honum er hægt að framleiða alls konar efni á umhverfisvænni hátt, til dæmis pappír, textíl fyrir föt, plast, steypu, snyrtivörur og margt fleira,“ segir Halldóra. „Hampur bindur líka mikinn koltvísýring og það er miklu umhverfisvænna að gera pappír úr plöntu sem þú ræktar á þremur mánuðum en tré sem verður 100 ára. Svo er líka spennandi hugmynd að byggja hér hús úr hampsteypu, sérstaklega eftir umræðuna um rakaskemmdir og myglu, því hún myglar ekki.

Halldóra segir að mikilvægasta breytingin sem þurfi núna sé að tryggja aðgengi fólks að CBD, sem getur komið að gagni í meðferð við ýmsum taugasjúkdómum, flogaveiki, langvarandi verkjum og mögulega einnig kvíðaröskunum og svefnleysi. FRÉTTABLAÐIÐ/ STEFÁN
Stefán.

Þegar maður skoðar söguna á bak við bannið á kannabis, þar sem iðnaðarhampur fylgdi með, sést vel að þar voru gríðarlegir hagsmunir í húfi hjá pappírsframleiðendum, textílframleiðendum og fleirum sem voru ekkert svakalega spenntir fyrir samkeppninni,“ segir Halldóra. „Banninu er svo viðhaldið vegna skorts á þekkingu sem leiðir af sér fordóma. Þess vegna er umræðan sem er í gangi núna gríðarlega gagnleg og hefur áhrif á hvernig fólk hugsar um þessa plöntu.“

Lög eiga að byggja á þekkingu

„Núna má rækta iðnaðarhamp og eftir uppskeru er svo hægt að þurrka stönglana og vinna úr trefjunum. Blómin og blöðin er hægt að þurrka og framleiða úr þeim te, en það er kallað hráhampur,“ útskýrir Halldóra. „En um leið og þú hitar blómin, sem þarf að gera til að virkja kannabínóða og gera virka CDB-olíu, þá virðist þetta vera orðið ólöglegt þó að það valdi engri vímu. Það er ekkert vit í þessu og um leið og það gerist fer fólk að brjóta lögin, sem grefur undan löggjöfinni.“

Halldóra segir að bannið á hampi sé dæmi um hvernig bannhyggjustefna getur unnið gegn hagsmunum almennings.

„Það sýnir líka hvernig við þurfum að setja lög sem eru byggð á gögnum og þekkingu. Það getur flækt hlutina en það er nauðsynlegt,“ segir hún. „Ég held að hræðslan við að leyfa CBD byggi bara á þekkingarleysi og hræðslu við að það ýti undir misnotkun. En við vitum að fólk sækir í þetta ólöglega og á meðan það er ekkert regluverk í kringum þetta er ómögulegt að hafa eftirlit.“

Aðgengi að CBD mikilvægt

„Ég held að undanþágan sem var veitt til að leyfa ræktun iðnaðarhamps seinasta sumar hafi verið mikilvægasta breytingin sem hefur orðið á regluverkinu hér á landi. Við sáum fjölda ræktenda fara af stað og hampræktun hefur blómstrað víða um land,“ segir Halldóra. „Þetta er mjög stórt tækifæri fyrir ræktendur, það er mikil og síaukin eftirspurn eftir þessum vörum og þetta býður upp á tækifæri fyrir alls kyns tilraunastarfsemi í vöruþróun.

Mikilvægasta breytingin sem þarf að gera núna er að tryggja aðgengi fólks að CBD, sem hefur margvíslegt notagildi, meðal annars við ýmsum taugasjúkdómum, flogaveiki og langvarandi verkjum. Það eru einnig vísbendingar um að það hjálpi með kvíðaraskanir og svefnleysi. Það er ekki ávanabindandi og gefur enga vímu, svo það er enginn möguleiki á misnotkun,“ útskýrir Halldóra. „En gallinn á núverandi regluverki er sá að CBD telst enn hluti af kannabisplöntunni samkvæmt lögum um ávana- og fíkniefni, og því lyfseðilsskylt, eftirritunarskylt og Z-merkt, rétt eins og ópíóðar og aðrir ávanabindandi vímugjafar. Þetta hefur skapað svartan markað og þá fara í umferð olíur sem er ómögulegt að hafa eftirlit með og eru ótrúlega dýrar. Þessu verður að breyta.

Á seinasta þingi lagði ég fram þingsályktunartillögu um að setja CBD í almenna sölu, en það virtist ekki stemning fyrir því hjá meirihluta velferðarnefndar sem vildi frekar flokka CBD sem lyf. Ég gerði því breytingu á tillögunni þess efnis að fela heilbrigðisráðherra að auka aðgengi að vörum sem innihalda CBD og set þannig í hendur ráðherra að ákveða skilgreininguna,“ segir Halldóra. „Mér finnst alls ekki að eigi að flokka CBD sem lyf, það gerir aðgengi erfitt og ekkert bendir til að þess sé þörf. Það ætti að vera öllum frjálst að framleiða CBD-olíu úr jurt sem er leyfilegt að rækta hér og líka að kaupa tilbúna og vottaða olíu. Ég vona að málið fái hljómgrunn á þingi og verði samþykkt í góðri sátt. Það væri frábært að klára kjörtímabilið með því að afgreiða þessa tillögu og setja þetta í hendur næsta heilbrigðisráðherra.“

Gæti orðið stór grein á Íslandi

„Það er spennandi að fylgjast með hvernig ræktendur eru að prófa sig áfram með vörur og það eru klárlega ótrúlega margir kostir og spennandi möguleikar í ræktun hamps,“ segir Halldóra. „Við sjáum það líka úti í heimi, það er gríðarlega stór markaður fyrir bæði iðnaðar- og lyfjahamp.

Það er nóg að horfa til þess hvað hampur og efni úr honum hjálpa mörgu fólki sem glímir við erfið veikindi og jafnvel fíkn,“ segir Halldóra. „Lögin eiga að þróast í samræmi við nýja þekkingu og það er erfitt að sjá hvað löggjafinn er oft mikið á eftir.

Ísland virðist henta vel fyrir hampræktun og bændur eru að flytja inn ólík fræ og prófa sig áfram með mjög góðum árangri,“ segir Halldóra. „Ég hef mikla trú á þessu og held að þetta gæti orðið stór grein hér á landi. Hér virðast vera tilvaldar ræktunaraðstæður, það er frábært að það sé hægt að rækta hampinn úti.“