Einn frægasti köttur allra tíma, kötturinn í tón­listar­mynd­bandi við lagið Triumph of a heart með Björk gluggaði í Frétta­blaðið frá 23. ágúst 2004 í mynd­bandinu. Það var Grétar Þór Sigurðs­son sem komst að þessu eftir rann­sóknar­vinnu en hann greinir frá málinu á Twitter.

Kötturinn gegndi lykil­hlut­verki í tón­listar­mynd­bandi Bjarkar og varð at­riðið i mynd­bandinu þar sem hann sést halda á dag­blaði eitt af frægari myndum inter­netsins. Myndin hefur síðan þá í­trekað verið notuð sem svo­kallað „meme“ þar sem iðu­lega stendur „Ég ætti að kaupa mér bát.“

„Hafið þið ein­hvern tímann velt því fyrir ykkur hvaða blað kötturinn í Triumph of a Heart er að lesa? ('I should buy a boat' kötturinn)“ spyr Grétar Þór á Twitter síðu sinni þar sem hann opin­berar hvaða blað það var.

„Kisi hefur verið að glugga í Frétta­blaðið frá 23. ágúst 2004 með morgun­bollanum,“ skrifar Grétar sem er spurður hvernig í ó­sköpunum hann hafi komist að þessu.

„Fór að hugsa um þetta áðan og hélt að þetta yrði ekki svona auð­fundið. Vissi að mynd­bandið var skotið á Ís­landi en í Wiki­pedia færslunni um lagið kemur fram að það var skotið í ágúst '04. Ég renndi yfir for­síður Mbl og Fbl á http://tíma­rit.is frá þeim mánuði, et voilà!“

Aðal­steinn Kjartans­son blaða­maður á Heimildinni og vara­for­maður Blaða­manna­fé­lagsins slær á létta strengi við færslu Grétars og skilur eftir hlekk að blaða­manna­verð­laununum við færsluna.