Einn frægasti köttur allra tíma, kötturinn í tónlistarmyndbandi við lagið Triumph of a heart með Björk gluggaði í Fréttablaðið frá 23. ágúst 2004 í myndbandinu. Það var Grétar Þór Sigurðsson sem komst að þessu eftir rannsóknarvinnu en hann greinir frá málinu á Twitter.
Kötturinn gegndi lykilhlutverki í tónlistarmyndbandi Bjarkar og varð atriðið i myndbandinu þar sem hann sést halda á dagblaði eitt af frægari myndum internetsins. Myndin hefur síðan þá ítrekað verið notuð sem svokallað „meme“ þar sem iðulega stendur „Ég ætti að kaupa mér bát.“
„Hafið þið einhvern tímann velt því fyrir ykkur hvaða blað kötturinn í Triumph of a Heart er að lesa? ('I should buy a boat' kötturinn)“ spyr Grétar Þór á Twitter síðu sinni þar sem hann opinberar hvaða blað það var.
„Kisi hefur verið að glugga í Fréttablaðið frá 23. ágúst 2004 með morgunbollanum,“ skrifar Grétar sem er spurður hvernig í ósköpunum hann hafi komist að þessu.
„Fór að hugsa um þetta áðan og hélt að þetta yrði ekki svona auðfundið. Vissi að myndbandið var skotið á Íslandi en í Wikipedia færslunni um lagið kemur fram að það var skotið í ágúst '04. Ég renndi yfir forsíður Mbl og Fbl á http://tímarit.is frá þeim mánuði, et voilà!“
Aðalsteinn Kjartansson blaðamaður á Heimildinni og varaformaður Blaðamannafélagsins slær á létta strengi við færslu Grétars og skilur eftir hlekk að blaðamannaverðlaununum við færsluna.
Hafið þið einhvern tímann velt því fyrir ykkur hvaða blað kötturinn í Triumph of a Heart er að lesa? ('I should buy a boat' kötturinn)
— Grétar Þór (@gretarsigurds) January 24, 2023
Kisi hefur verið að glugga í Fréttablaðið frá 23. ágúst 2004 með morgunbollanum. pic.twitter.com/dXAHEbn5XO
Vitaskuld. Sé köttinn fyrir mér þenja Volvo Penta vélina í þessum Fjord Doplphin á spegilsléttum Breiðafirði á íslenskri sumarnótt. pic.twitter.com/MFvXSPu7b2
— Grétar Þór (@gretarsigurds) January 24, 2023