Söfnun hefur verið hrundið af stað fyrir hjón og tvö ungbörn þeirra eftir að þau greindust bæði með krabbamein sama daginn fyrir skemmstu.
Fyrst var það Kirsty Lee sem greindist með þriðja stigs brjóstakrabbamein og nokkrum klukkustundum síðar fékk eiginmaður hennar, Steve, þær fréttir að hann hefði greinst með krabbamein í endaþarmi.
Hjónin eru búsett í Adelaide í Ástralíu og hafa nú þegar um tvær milljónir króna safnast fyrir þau.
Kidspot fjallar um þetta en söfnunin fer fram á vefnum GoFundMe. Sonya Kohlhagen, vinkona hjónanna, segir að það sé erfitt að horfa upp á vini sína glíma við þessa baráttu á sama tíma – sérstaklega í ljósi þess að þau eiga tvö ung börn, 4 og 5 ára.
Þau munu bæði þurfa að gangast undir lyfjameðferð og skurðaðgerð og taka sér leyfi frá vinnu meðan á veikindunum stendur.
Kirsty og Steve eru rétt rúmlega fertug og segir Sonya að þau séu ósköp venjulegt fjölskyldufólk sem vill hafa líf sitt einfalt. Sonya segir að söfnuninni sé ætlað að létta undir með fjölskyldunni á þessum erfiðu tímum.