Gunnar Ingi Jones er 27 ára, gítarleikari í þungarokkshljómsveitinni Une Misère og starfar sem framleiðandi á RÚV.

Lífið tók heldur betur óvænta stefnu fyrir rúmum mánuði síðan þegar hann greindist með illkynja æxli á mjöðm.

„Þetta eru líklegast erfiðustu fréttir sem ég hef fengið. Læknirinn minn hringdi fyrst í móður mína og hún sagði mér fréttirnar."

Var með kúlu á mjöðminni í rúmt ár

Gunnar var með litla kúlu á mjöðminni í rúmt ár. Hann stundar kraftlyftingar en á einni æfingu datt hann og lenti á mjöðminni. Hann tengdi kúluna við þetta atvik og hélt að þetta væru vöðvar sem hefðu gróið illa saman. Það var ekki fyrr en í janúar í ár sem að hann leitaði til læknis, rúmu ári eftir hann varð fyrst var við hana.

„Ég fór til læknis í janúar út af einhverju allt öðru en ákvað að spyrja lækninn í leiðinni út í þessa kúlu. Hann gat ekki staðfest neitt við mig en vildi að ég færi í myndatöku sem fyrst. Ég var á leiðinni á tveggja vikna tónleikaferðalag og spurði hann hvort það væri ekki í lagi að ég færi í myndatöku þegar ég kæmi heim aftur. Læknirinn sagði að það væri í góðu."

Þegar Gunnar kom heim aftur var hann búinn að gleyma myndatökunni. Nokkrum dögum síðar fór Une Misère aftur á tónleikaferðalag til Bandaríkjanna og stóð til að vera þar næstu þrjár vikurnar.

Gunnar Ingi á tónleikum.
Ásgeir Helgi.

„Ég fer beint aftur á tónleikaferðalag til Bandaríkjanna. Við héldum eina tónleika, en daginn eftir að við komum lýsti Trump yfir ferðabanni til Bandaríkjanna. Öllum tónleikum var aflýst og það var ekkert annað í stöðunni fyrir okkur en að pakka í töskur og halda heim. Þetta var mjög svekkjandi fyrir okkur en varð til þess að ég fór loksins í myndatöku."

Gunnar fór í myndatöku nokkrum dögum eftir að hann sneri heim.

„Ég fer í myndatökuna rúmum tveimur mánuðum eftir að ég fór fyrst til læknis. Læknirinn hélt að ég væri erlendis þegar að hann fékk niðurstöðurnar úr myndatökunni og hringdi því í móður mína og tilkynnir henni að þessi kúla hafi verið illkynja æxli. Það er svo mamma sem að segir mér þetta.“

„Þetta var mikið áfall. Um leið og maður heyrir orðið krabbabein þá fer maður að hugsa það versta"

Um var að ræða illkynja æxli í mjöðminni sem heitir Lipomasarcoma. Það kom fljótlega í ljós að æxlið var á stigi 0,5 af 3 sem er hættuminnsta stigið og leggst ekki á líffæri.

„Þetta var mikið áfall. Um leið og maður heyrir orðið krabbabein þá fer maður að hugsa það versta.“

Hann segir að þetta hafi verið sérstaklega mikið sjokk þar sem hann fann ekki fyrir neinu.

„Ég fann ekkert fyrir þessu og þessi kúla á mjöðminni truflaði mig ekki neitt. Ég er duglegur að hreyfa mig og hugsa vel um mig og ég trúði því eiginlega bara ekki að þetta væri að koma fyrir mig þegar ég fékk fréttirnar."

Gunnari var tilkynnt að hann þyrfti að fara í aðgerð til að fjarlægja æxlið en hann þyrfti ekki að fara í lyfjameðferð.

„Það var mikill léttir að heyra að æxlið var á lágu stigi og það róaði mig mikið. Ég fór í aðgerðina fyrir þremur vikum og litli vinurinn var fjarlægður af mjöðminni á mér. Aðgerðin gekk vel og mér líður vel í dag. Ég varð að vísu smá veikur eftir hana sem er eðlilegt í svona inngripi í líkamann."

„Ég veit að þetta hljómar eins og klisja en ég áttaði mig í alvörunni á því hvað lífið er stutt og viðkvæmt og ég ætla ekki að eyða því í neikvæðni"

Tók á þessu af æðruleysi

Gunnar er heima þessa dagana að jafna sig en vonast til að vera orðinn fullkomlega góður eftir tvær til þrjár vikur.

Hann segist hafa tekið á þessari lífsreynslu af æðruleysi.

„Ég setti mér markmið strax í byrjun að geta litið til baka eftir tíu ár og séð að ég hafi breytt þessari neikvæðu lífsreynslu í eitthvað jákvætt. Ég er svo ótrúlega heppinn að þetta var ekki alvarlegra."

„Það er stuttur tími síðan að þetta gerðist en þetta setur hlutina í lífinu klárlega í annað samhengi. Ég ætla ekki að eyða tímanum í litla hluti sem maður á til að svekkja sig á í daglegu lífi. Ég veit að þetta hljómar eins og algjör klisja en ég áttaði mig í alvörunni á því hvað lífið er stutt og viðkvæmt og ég ætla ekki að eyða því í neikvæðni."

Mikilvægt að fara til læknis

Gunnar vill biðla til fólks að fara til læknis ef eitthvað er óvenjulegt.

„Ég held að við þekkjum öll líkama okkar frekar vel og ef maður fer að taka eftir einhverju óvenjulegu eins og hnútum eða kúlum þá á maður bara að leita til læknis strax. Ekki taka sénsinn eða harka það af sér. Maður tapar engu á því að fara til læknis og ég er svo feginn að hafa látið kíkja á þetta og hefði átt að vera löngu búinn að því.“

Sér fram á bjarta tíma

Gunnar hefur í nógu að snúast. Hann starfar sem framleiðandi hjá RÚV núll og var nýkominn úr heimsókn í vinnunni þegar að fréttamaður náði tali af honum.

Auk þess hefur hljómsveitin hans Une Misère notið mikilla vinsælda síðustu ár og þrátt fyrir að flestum tónleikum hafi verið aflýst eða frestað hafa þeir ekki dáið ráðalausir.

„Það er ljós í myrkrinu að við vorum sendir heim fyrr frá Bandaríkjunum því annars væri ég eflaust ekki búinn að fá staðfest að ég væri með æxli."

„Þetta er fyrst og fremst búið að vera tekjumissir fyrir hljómsveitina en við vorum bókaðir allt sumarið og áttum að vera á tónleikaferðalagi bæði í Bandaríkjunum og Evrópu. Við látum það samt ekki stoppa okkur og erum búnir að semja fullt af nýju efni sem okkur hlakkar til að flytja fyrir aðdáendur þegar við megum spila aftur. Þetta Covid- ástand hefur sett strik í reikninginn fyrir alla en það er ákveðið ljós í myrkrinu að við vorum sendir heim fyrr frá Bandaríkjunum því annars væri ég eflaust ekki enn þá búinn að fá staðfest að ég væri með æxli."

Gunnar hefur einnig stundað kraftlyftingar síðustu ár og ætlar að halda því ótrauður áfram þegar heilsan er komin í lag.

„Ég ætla að fara á fullt í kraftlyftingarnar strax og ég má hjá honum Rúnari Geirmundssyni og ætla mér að rústa öllum gömlum metum.“

Gunnar spilar á gítar í hljómsveitinni Une Misère
Amy Haslehurst