„Mín fyrsta minning um utanlandsferð var þegar ég flutti með foreldrum mínum til Noregs á fimmta árinu. Tvennt stendur þar upp úr. Þegar við fórum í ferðalag á bílnum og ég sofnaði í aftursætinu en vaknaði þegar aksturinn færðist yfir á malarveg og spurði: „Er ég núna komin til Íslands?“ Líka þegar við fluttum aftur heim og komum við í Tívolíinu í Kaupmannahöfn þar sem ég fékk fjólubláa gasblöðru. Um leið og ég stillti mér upp fyrir myndatöku missti ég blöðruna og grét auðvitað heil ósköp. Þá sagði mamma: „Þetta er allt í lagi, Sigrún mín. Blaðran verður komin heim til Íslands á undan okkur.““

Þetta segir Ágústa Sigrún Ágústsdóttir, kona sem hefur fest sér marga hatta í lífinu. Fyrst varð hún söngkona og söngkennari, síðan fararstjóri, þá mannauðsráðgjafi og markþjálfi, líka rútubílstjóri og sáttamiðlari.

„Ég var nítján ára þegar ég stakk af úr landi til að passa börn í Þýskalandi og læra þýsku. Þegar ég fór síðar í söngnám þurfti ég að læra að syngja ítalskar óperur og þá vaknaði löngun til að læra ítölsku. Orðin altalandi á ítölsku fannst mér ég þurfa að nota tungumálið meira og hef síðan unnið með hléum sem fararstjóri á Ítalíu, en líka í Króatíu og Slóveníu,“ greinir Ágústa frá.

Hún segir örlögin stundum hafa gripið í taumana, eins og þegar hún lenti í hjólreiðaslysi þegar hún stundaði ítölskunám á Ítalíu 1997.

„Ég slasaðist sem betur fer ekki illa en flaug yfir húdd á bíl og fékk stórt gat á hausinn, sem varð til þess að ég var flutt með sjúkrabíl á nærliggjandi sjúkrahús. Svo heppilega vildi til að ég var með vegabréfið á mér en algjörlega sjónlaus þar sem ég lá á skoðunarbekk því gleraugun höfðu farið í mask í slysinu og ég með mínus sjö í sjón. Þá kemur til mín pínulítil, óljós og hvít vera og spyr: „Ertu íslensk?“ Ég svara já og þá segir veran: „Ég heiti Roberta Bianconi, er skurðlæknir og var skiptinemi á Íslandi fyrir fimmtán árum.“ Ég fór þá að hlæja og hún líka. Svo fór ég að gráta og hún líka. Síðan féllumst við í faðma og höfum verið perluvinkonur allar götur síðan. Þá reyndist Roberta vera jafnaldra mín og áður skiptinemi í Keflavík, og þvílík tilviljun að lenda á skurðarborðinu hjá henni, en við eigum líka syni á sama aldri,“ segir Ágústa um þennan örlagaríka dag.

Fór í tíu spennandi sýndarferðir

Ágústa greindist nýlega með ólæknandi ferðaþrá.

„Já, ég rakst á grein um rannsókn á fólki með visst flækingsgen og tengdi hana strax við mig. Heilkennið kallast „Permanent Passport in the Pocket Syndrome“ eða PPP, sem ég snaraði yfir á íslensku sem Varanlegt vegabréf í vasanum, eða VVV. Mér fannst hún svo fyndin að ég datt nánast um koll af hlátri, en þá rann upp fyrir mér að mér væri ekki viðbjargandi og þyrfti að sætta mig við þetta heilkenni. Þegar ég starfaði sem mannauðsstjóri hjá tveimur íslenskum flugfélögum á árum áður var ég mikið á ferð og flugi en ekki fyrr komin heim en ég varð friðlaus að ferðast meira,“ segir Ágústa, sem er með eindæmum víðförul en á enn eftir að ferðast um Asíu, Ástralíu og megnið af Suður-Ameríku.

Á kórónavetrinum sem leið sá Ágústa um tíu sýndarferðalög fyrir Heimsferðir.

„Þá laust niður þeirri eldingu í huga mér að næra ferðaþrá fólks sem komst hvorki lönd né strönd vegna Covid-19 með sýndarferðum. Þær slógu í gegn og fólk fékk mikið út úr þeim, því sýndarferðir geta hjálpað við að fá hugmyndir um hvað á að gera og nýta tímann vel. Sýndarferðirnar eru nú komnar í pásu á meðan fólk stígur aftur út úr Zoom og inn í raunveruleikann, en virði þeirra var mikið fyrir þá sem hyggja á ferðalög, að fara um þær slóðir í sýndargönguferðum þar sem ég lýsti því sem fyrir augu bar og gaf alls konar ítarefni, linka og meðmæli með veitingastöðum og fleiru til upplifunar á hverjum stað,“ segir Ágústa, sem fór í sýndarferðalög til Veróna, Rómar, Toskana, Gardavatnsins, Lissabon, Krítar, Valencia, Andalúsíu og Feneyja, og svo voru kynntar spennandi sérferðir til Ítalíu sem hún verður með í haust.

„Það var viðeigandi að koma til Feneyja á tímum kórónaveirunnar því sóttkví er einmitt uppfinning Feneyinga frá því um 1600. Þá voru Feneyjar mikið siglingaveldi og þangað kom til Evrópu mikið af drepsóttum og óværu með skipum frá Austurlöndum nær og fjær. Því var öllum kaupskipum skipað að festa landfestar við eyjur í Feneyjalóninu í fjörutíu daga og þaðan er nafnið sóttkví (e. quarantine) komið því það vísar í ítalska orðið „quaranta“ sem þýðir einmitt fjörutíu, eins og sóttkví í Feneyjum kvað á um í þá daga.“

Tengir Ísland við áfangastaðina

Ágústa segir fararstjóra stundum velta fyrir sér hvort þeirra verði þörf í framtíðinni.

„Nú vilja margir skipuleggja ferðalög sín sjálfir og fara á eigin vegum, en þegar upp er staðið er þakklátasta ferðafólkið það sem sagðist hafa lofað sér að fara aldrei í pakkaferð með fararstjóra en lætur svo verða af því. Fylgd, þekking og kunnátta fararstjórans er nefnilega ómetanleg, en afar vanmetin. Sjálf legg ég áherslu á að tengja Ísland við áfangastaðina, eins og í Ljubljana, höfuðborg Slóveníu, þar sem Jónas Hallgrímsson átti tvíburabróður sem var þjóðskáld Slóveníu. Hann var uppi á sama tíma og Jónas og lifði sams konar lífi, og það er meira að segja búið að skrifa meistararitgerð um samanburðinn á þeim tveimur. Það er óvíst hvort þarlendum leiðsögumanni dytti í hug að grafa upp slíkan fróðleik fyrir Íslendinga, en það er einmitt akkurinn við að ferðast í fylgd fararstjóra sem hafa lifað og hrærst í umhverfinu, hvort sem hann er innfæddur eða íslenskur. Það eykur virði ferðarinnar og tengsl við það sem fyrir augu ber.“

Yfir sjötíu prósent allra forminja á jörðinni eru á Ítalíu og segir Ágústa duga skammt að fara aðeins einu sinni til Ítalíu á ævinni.

„Fólk ætlar sér iðulega of mikið í yfirferð sinni um sögulega staði. Á Ítalíu mæli ég alltaf með Róm, Toskana-héraðinu og Gardavatninu, en mitt uppáhald er Marche-hérað þangað sem ég fór fyrst til að læra tungumálið. Það er hinu megin við Appennína-fjallgarðinn og minnir á Toskana fyrir þrjátíu árum. Slóvenía er líka æðislegt land, en ég verð þess áskynja að margir hugsa um slavnesku löndin sem hluta af vanþróuðu löndunum. Það rekur því í rogastans þegar það kemur til Ljubljana sem ég kalla litlu Prag, enda sömu arkitektar sem teiknuðu margar bygginganna. Hún var valin græn borg Evrópu 2016 og allt lagt upp úr að gera borgina fallega, aðgengilega, hreina og aðlaðandi fyrir ferðamenn. Þá er Króatía algjört undur, maður minn. Til dæmis Split, allar 1.271 eyjurnar og Dalmatíu-ströndin. Það er ekki að ástæðulausu að Dalmatíuhundar eru með svona marga bletti.“

Ágústa Sigrún er á leið á Hornstrandir þar sem hún stýrir nýstofnuðum Hornstrandakór sem syngja mun í heimildamynd Bjarneyjar Lúðvíksdóttur. FRÉTTABLAÐIÐ/ERNIR

Kórsöngur á Hornströndum

Ágústa stjórnar fyrstu æfingu Hornstrandakórsins í dag, en í næstu viku fer hún með hópi kvenna á Hornstrandir.

„Ég tók að mér að vera kórstjóri fyrir kvennakór sem syngur ljóðið Vökuró eftir Jakobínu Sigurðardóttur, við lag Jórunnar Viðar, í heimildamynd sem Bjarney Lúðvíksdóttir kvikmyndagerðarkona ætlar að taka í þessari ferð. Bjarney er ættuð úr Hlöðuvík þaðan sem við ætlum að ganga yfir á Hornvík, Hesteyri og Hælavíkurbjarg. Heimildamyndin verður um Eyju, ömmu Bjarneyjar og frænku skáldkvennanna Jakobínu og Fríðu Á. Sigurðardóttur, sem ólust upp á Hornströndum, og um lífið á þessum afskekkta stað sem hlýtur að hafa verið ótrúlegt.“

Í haust fer Ágústa sem fararstjóri með Heimsferðum til Toskana og Gardavatnsins en fyrst ætlar hún sjálf til Feneyja.

„Ég hef komið hundrað sinnum til Feneyja en langar að njóta þess að fara þangað á meðan enn eru tiltölulega fáir ferðamenn. Feneyjar eru eins og fljótandi listaverk og enginn viðlíka staður til á jarðríki.“

Ágústa útskrifaðist sem sáttamiðlari fyrir tveimur árum og segir það passa vel í hattasafnið.

„Ég get bætt sáttamiðlun við allt sem ég geri í ráðgjöf, mannauðsmálum og markþjálfun. Það er gott að geta miðlað málum þegar einhver er ósáttur og vita þá hvað virkar og virkar ekki, og hafa tiltæk tólin sem á þarf að halda. Ég held að sáttamiðlun eigi eftir að verða mun meira áberandi í framtíðinni og minnka álag á dómskerfið, og í Bandaríkjunum er því spáð að sáttamiðlun verði beitt í mun meira mæli í hvers kyns ágreiningsmálum.“

Spurð um uppáhaldshattinn, svarar Ágústa:

„Þegar ég fór til náms í mannauðsstjórnun var ég staðráðin í að vinna við það eitt í framtíðinni. Ég tók svo markþjálfun samhliða meistaranáminu og komst að því að ég vildi frekar finna leið til að leyfa öllum mínum höttum að hafa hlutverk í lífi mínu. Því ákvað ég að vinna sjálfstætt frekar en að ráða mig sem framkvæmdastjóra mannauðssviðs hjá stóru fyrirtæki. Við meyjur erum með fullkomnunaráráttu og ég var orðin leið á því að vera alltaf með samviskubit yfir því að biðja um frí á vinnustað til að setja upp alla hina hattana. Nú er ég minn eigin herra og þarf ekki lengur að þjást yfir samviskubiti gagnvart öðrum. Ég bjó mér til aðstæður til að þurfa ekki að fórna því sem ég elska líka að sinna. Ég verð að leyfa því öllu að vera með mér og gera hlutina eins og ég vil.“

Aldarafmæli pabba

Framundan er 100 ára fæðingarafmæli Ágústs heitins Metúsalems Péturssonar, föður Ágústu, sem lést fyrir aldur fram þann 28. júlí 1986.

„Við fjölskyldan erum farin að telja niður vegna aldar afmælis pabba sem verður 29. júní. Ég er örverpið og finnst eiginlega ótrúlegt að eiga pabba sem hefði orðið hundrað ára ef allt hefði gengið upp. Önnur staðreynd sem er eiginlega enn ótrúlegri er að föðuramma mín, Sigríður Friðriksdóttir, á sama afmælisdag og pabbi, en var fædd á þarsíðustu öld, árið 1885!“ segir Ágústa kímin.

Í tilefni aldarafmælisins er ætlunin að segja frá einu og öðru sem tengist Ágústi Metúsalem og hans lagasmíðum, en mörg laga hans lifa með þjóðinni, eins og Þórður sjóari, Harpan ómar og Æskuminning.

„Nokkrum árum eftir að pabbi dó fór ég að grúska í dótinu hans og reyna að skrásetja það sem ég fann. Ég rakst þá á kassettu með lagi sem hann hafði spilað inn á píanó stuttu áður en hann dó. Þetta var hægur, tignarlegur vals. Pabbi hafði greinilega unnið með lagið og ætlað því hlutverk í lífinu. Líklega hefur hann samið það fyrir brúðkaup í vændum, því hann kallaði lagið einfaldlega „Brúðarvals“ á kassettunni,“ segir Ágústa sem tók sig til og lét skrifa lagið upp og fékk Hörð Sigurðarson til að semja við það texta.

„Lagið fékk nafnið Næturvals og komst í úrslit í Danslagasamkeppni Kvenfélags Sauðárkróks árið 2002, sextán árum eftir fráfall pabba. Pabbi var vanur að nota millinafn sitt, Metúsalem, sem dulnefni þegar hann sendi inn lag og texta í dægurlagakeppni Félags íslenskra dægurlagahöfunda (FÍD) í Þórskaffi 1958. Hann samdi þá lagið Óskastund undir eigin nafni en virðist hafa verið feiminn að upplýsa að textinn var eftir hann sjálfan. Metúsalem er því alltaf skráður fyrir textanum af þessum fjörlega tangó, sem fékk 2. verðlaun í nýju dönsuðum í keppninni Nýju dönsunum árið 1958. Textarnir í þessum lögum eiga það sammerkt að í þeim brennur þrá og eftirsjá, ýmist til æskustöðvanna eða til horfinnar ástar.“ ■

Fylgist með Ágústu á agustasigrun.is. Þar er hægt að lesa skemmtileg ferðablogg, hlusta á hana syngja og margt fleira áhugavert og skemmtilegt.