Game of Thrones leikararnir, Kit Harrington og eiginkona hans Rose Leslie, eiga von á sínu öðru barni. Kit tilkynnti gleðitíðindin í viðtali við Jimmy Fallon í sjónvarpsþættinum The Tonight Show sem sýndur var í gærkvöldi. Dailymail greinir frá
Í viðtalinu ræða þeir Harrington og Fallon um börn og barneignir, en fyrir á Harrington tveggja ára son.
„Hann er um það bil að fá stærsta áfall lífs síns. Hann mun eignast litla systur eða lítinn bróður von bráðar,“ sagði Harrington, sem staðfesti að eiginkona hans, Rose Leslie, gangi nú með annað barn þeirra hjóna. Þrátt fyrir að eiga eitt barn fyrir sé hann pínulítið uggandi yfir því að bæta við öðru barni.
„Með fyrsta barn ertu fljótandi um á bleiku skýi og dansandi um blómaengi í níu mánuði. Eða að minnsta kosti faðirinn,“ sagði Harrington.
„En í þetta skiptið blasir raunveruleikinn við þér mun fyrr og þú verður skynsamur og hagsýnn á núll einni,“ bætti hann við.
Þá hafi þau hjónin reynt að útskýra fyrir syni sínum að hann sé að fara að eignast lítið systkini, en sökum aldurs hans sé hann ekki alveg að ná utan um það.
„Við erum að reyna að undirbúa hann og bendum á kvið Rose og segjum: „Barnið hennar mömmu, barnið hennar mömmu,“ og hann bendir á magann sinn og segir: „Barnið mitt, barnið mitt,“ segir Harrington og hlær.
Eins og frægt er orðið kynntust þau Harrington og Leslie við tökur á Game of Thrones sjónvarpsþáttaröðinni sem gerði garðinn frægan hér á landi árið 2011 og byrjuðu að stíga í vænginn hvort við annað fljótlega eftir fyrstu kynni. Þau trúlofuðu sig 2017 og gengu í hnapphelduna ári síðar í Aberdeen í Skotlandi. Þeim fæddist sonur í febrúar 2021 mörgum að óvörum þar sem þau greindu aldrei frá því opinberlega.
Harrington hefur látið hafa eftir sér í bandarískum fjölmiðlum að það að vera foreldri sé „líkamlega erfiðasta og mest lýjandi verkefni“ sem hann hafi nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Þrátt fyrir það sé hann einstaklega sáttur við líf sitt sem faðir.
„Ég á barn og samband mitt við Rose er frábært. Ég er mjög mjög mjög hamingjusamur, sáttur og allsgáður maður,“ og vísar þar til fortíðar sinnar, en Harrington átti við áfengisvanda að stríða.