Game of Thrones leikararnir, Kit Harrington og eigin­kona hans Rose Lesli­e, eiga von á sínu öðru barni. Kit til­kynnti gleði­tíðindin í við­tali við Jimmy Fall­on í sjón­varps­þættinum The Tonight Show sem sýndur var í gær­kvöldi. Dailyma­il greinir frá

Í við­talinu ræða þeir Harrington og Fallon um börn og barn­eignir, en fyrir á Harrington tveggja ára son.
„Hann er um það bil að fá stærsta á­fall lífs síns. Hann mun eignast litla systur eða lítinn bróður von bráðar,“ sagði Harrington, sem stað­festi að eigin­kona hans, Rose Lesli­e, gangi nú með annað barn þeirra hjóna. Þrátt fyrir að eiga eitt barn fyrir sé hann pínu­lítið uggandi yfir því að bæta við öðru barni.

„Með fyrsta barn ertu fljótandi um á bleiku skýi og dansandi um blóma­engi í níu mánuði. Eða að minnsta kosti faðirinn,“ sagði Harrington.

„En í þetta skiptið blasir raun­veru­leikinn við þér mun fyrr og þú verður skyn­samur og hag­sýnn á núll einni,“ bætti hann við.

Þá hafi þau hjónin reynt að út­skýra fyrir syni sínum að hann sé að fara að eignast lítið syst­kini, en sökum aldurs hans sé hann ekki alveg að ná utan um það.

„Við erum að reyna að undir­búa hann og bendum á kvið Rose og segjum: „Barnið hennar mömmu, barnið hennar mömmu,“ og hann bendir á magann sinn og segir: „Barnið mitt, barnið mitt,“ segir Harrington og hlær.

Eins og frægt er orðið kynntust þau Harrington og Lesli­e við tökur á Game of Thrones sjón­varps­þátta­röðinni sem gerði garðinn frægan hér á landi árið 2011 og byrjuðu að stíga í vænginn hvort við annað fljót­lega eftir fyrstu kynni. Þau trú­lofuðu sig 2017 og gengu í hnapp­helduna ári síðar í Aber­deen í Skot­landi. Þeim fæddist sonur í febrúar 2021 mörgum að ó­vörum þar sem þau greindu aldrei frá því opin­ber­lega.

Harrington hefur látið hafa eftir sér í banda­rískum fjöl­miðlum að það að vera for­eldri sé „líkam­lega erfiðasta og mest lýjandi verk­efni“ sem hann hafi nokkurn tímann staðið frammi fyrir. Þrátt fyrir það sé hann ein­stak­lega sáttur við líf sitt sem faðir.

„Ég á barn og sam­band mitt við Rose er frá­bært. Ég er mjög mjög mjög hamingju­samur, sáttur og alls­gáður maður,“ og vísar þar til for­tíðar sinnar, en Harrington átti við á­fengis­vanda að stríða.