Svandís Svavarsdóttir matvælaráðherra sló á létta strengi í erindi sínu á málþingi landlæknis til heiðurs Þórólfi Guðnasyni, fyrrum sóttvarnalækni, sem fór fram í föstudag í tilefni starfsloka hans. Hún greindi til að mynda frá aprílgabbi Þórólfs.

Á meðan heimsfaraldurinn stóð sem hæst sendi Þórólfur á Svandísi, sem þá var heilbrigðisráðherra, nýjustu smittölur á hverju kvöldi. Hún bætti við að meira að segja eftir að hún hætti sem heilbrigðisráðherra og varð matvælaráðherra hafi þessi samskipti þeirra haldið áfram.

„Við áttum í leynisambandi. Hann hélt áfram að senda á mig smittölur þó hann væri byrjaður að hitta Willum,“ sagði Svandís og uppskar hlátur.

Aprílgabb Þórólfs átti sér þó stað á meðan hún var enn heilbrigðisráðherra, en eitt kvöldið sendi hann á hana að það væru hundrað smitaðir, og að öll þeirra væru utan sóttkvíar.

„Ég hefði andað í poka hefði mér dottið það í hug,“ sagði Svandís, en skömmu síðar sendi Þórólfur á hana „1. apríl“.

„Svona var alvarleikinn í stjórn þjóðarinnar á þessum erfiðu tímum,“ bætir hún við.

Fréttablaðið/Valli

Fleiri sem héldu erindi minntust á hversu mikill húmoristi Þórólfur væri. Þar á meðal var Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra, sem sagði aðdáunarvert hvernig hann færi í gegn um allt saman með húmorinn að leiðarljósi.

Í kjölfarið ákvað Þórólfur að minnast á einn brandara í viðbót, sem hann sendi Katrínu með smittölum dagsins. „Fimmtíu greindust og fjörutíu utan sóttkvíar. Allt saman framsóknarmenn.“ sagði hann og salurinn sprakk úr hlátri.

Þess má geta að áður en hann sagði brandarann baðst hann velvirðingar gagnvart Willum Þóri Þórssyni núverandi heilbrigðisráðherra.