„Við erum öll sorg­mædd. Það er ekki gaman að sjá komið svona fram við börnin sín. Þau eru í að­stæðum sem þau skilja ekki full­kom­lega,“ sagði grát­klökkur Jóa­kim prins, yngri sonur Margrétar Dana­drottningar, í við­tali við Extra Bladet í morgun.

Það vakti at­hygli í gær þegar greint var frá því að frá og með 1. janúar næst­komandi verði börn Jóa­kims og Alexöndru greifynju svipt titlum sínum og fá þar með ekki lengur nafn­bótina prins og prinsessa. Verður þess í stað vísað til þeirra sem greifans og greifynjunnar af Mon­pezat.

Málið vakti tals­verða at­hygli í Dan­mörku í gær og lýsti Alexandra því að henni væri brugðið vegna málsins. Kvaðst hún upp­lifa það þannig að börn hennar hefðu verið úti­lokað frá konungs­fjöl­skyldunni.

Jóa­kim virðist líta málið sömu augum en hann ræddi við blaða­mann Extra Bladet við sendi­ráð Dan­merkur í París í Frakk­landi.

Í kjöl­far fréttanna í gær kom fram að Jóa­kim hefði verið upp­lýstur um þessa á­kvörðun í maí síðast­liðnum en sjálfur tekur hann fyrir það. „Ég var látinn vita með fimm daga fyrir­vara,“ sagði hann og bætti við að í maí síðast­liðnum hafi komið fram að þetta myndi gerast þegar börnin yrðu 25 ára. Benti hann á að dóttir hans Aþena væri nú að­eins 11 ára.

Málið virðist hafa fengið mikið á Jóa­kim og átti hann erfitt með að fela til­finningar sínar þegar hann var spurður hvort þessi á­kvörðun myndi hafa slæm á­hrif á sam­band hans við móður sína. „Ég held að ég þurfi ekki að fara mörgum orðum um það,“ sagði hann.