Hertogahjónin af Windsor þau Játvarður 8. Bretlandskonungur og Wallis Simpson voru ekki nándar nærri því eins hamingjusöm í raunveruleikanum eins og þau eru látin líta út fyrir að hafa verið í Netflix þáttunum The Crown.
Þetta segir Guðný Ósk Laxdal, sérfræðingur í bresku konungsfjölskyldunni, í Crownvarpinu, viðhafnarhlaðvarpi Fréttablaðsins um fimmtu seríu The Crown. Þáttinn má hlusta á neðst í fréttinni.
„Peter Morgan er með einhverja rosalega sýn á hertogahjónin,“ segir Guðný og vísar til höfunda þáttanna.
„Þau voru rosalega til vandræða fyrir konungsfjölskylduna, það vissi enginn hvað átti að gera við þau, þau voru hálfgerðir nasistar og vildu alltaf meiri pening,“ segir Guðný.
„Ég hef aldrei skilið það hvers vegna þau eru sýnd í The Crown eins og rosalega ástúðleg og krúttleg hjón. Þetta er ekki hjónaband sem var þekkt fyrir að vera hamingjusamt,“ segir Guðný.
Eins og frægt er orðið gaf Játvarður frá sér konungstignina í desember 1936 til yngri bróður síns Georgs 6., föður Elísabetar Bretlandsdrottningar. Þetta gerði hann til að geta verið með hinni fráskyldu bandarísku Wallis Simpson en þau giftust eftir að hann sagði af sér. Hann var fyrsti þjóðhöfðingi Bretlands til að segja af sér embætti.

„Hún var alltaf að halda framhjá honum. Samkvæmt ævisögum hennar var hún grátandi í símanum þennan dag sem hann tilkynnir þetta og biður hann um að gera þetta ekki, sem hann hlustar svo ekki á,“ segir Guðný.
Hún segir útgáfu The Crown hafa málað upp töluvert aðra útgáfu. „Þetta er rómantíska útgáfan og mjög falleg, en hann var bara miklu ástfangnari af henni en hún honum.“
Þá segir Guðný andlát hertogaynjunnar hafa verið töluvert verra í raunveruleikanum en í fimmtu seríunni. „Hún var veik síðustu árin og lögfræðingurinn hennar seldi húsgögnin hennar og eignir til vina sinna á meðan hún var ein í húsinu.“
Hlusta má á þáttinn hér fyrir neðan. Hann er mættur á Spotify undir merkjum Bíóvarpsins.