Rafmagnsverkfræðingurinn og þáttastjórnandinn Grant Imahara er látinn, 49 ára að aldri.

Talsmaður Discovery sjónvarpsstöðvarinnar greinir bandaríska miðlinum Variety frá þessu. Ekki liggur fyrir hver dánarorsökin var.

Imahara er hvað þekktastur fyrir þáttastjórn sína í þáttunum Mythbusters á Discovery og White Rabbit Project á Netflix.

Hann var meðal stjórnenda í yfir 200 þáttum af Mythbusters á árunum 2005 til 2014.

Þar var hann þekktur fyrir að smíða þjarka og önnur raftæki sem notuð voru í tilraunum hinna uppátækjasömu félaga.

Áður en Imahara rataði á skjáinn starfaði hann hjá Industrial Light and Magic þar sem hann vann að tæknibrellum fjölmargra stórmynda á borð við Júragarðinn og þriggja kvikmynda í Stjörnustríðsseríunni.

Adam Savage, einn meðstjórnanda Imahara í Mythbusters, minnist hans á Twitter og segir hann hafa verið frábæran verkfræðing og listamann, og ekki síður ljúf og gjafmild manneskja.

Fjölmargir aðdáendur og vinir syrgja fráfallið og minnast Imahara á samfélagsmiðlum.