The Old Guard

Leikstjóri: Gina Prince-Bythewood

Aðalhlutverk: Charlize Theron, KiKi Layne, Matthias Schoenaerts, Harry Melling

★★

Eins og gefur að skilja hefur verið ákveðinn bíóþurrkur upp á síðkastið. Þegar fátt er að frétta í kvikmyndahúsunum neyðast gláparar landsins til að leita annað að fá fixið sitt, hvort heldur í rykfallnar DVD-hillur eða á streymisveiturnar.

The Old Guard kom út á Netflix um helgina og byggir á samnefndri myndasögu Greg Lucka frá árinu 2017. Myndin segir frá ódauðlegu stríðskonunni Andy sem leiðir hóp hermanna sem hafa barist saman í aldanna rás. Andy virðist í þann mund að gefa stríðsbraskið upp á bátinn þegar gráðugur forstjóri lyfjafyrirtækis kemst á snoðir um yfirnáttúrulega krafta liðsins. Hann beitir öllum tiltækum ráðum til að klófesta Andy og félaga í þeirri von að maka krókinn allhressilega. Málin vandast enn frekar þegar ódauðlegu hetjurnar komast að því að ung kona í bandaríska hernum er gædd sömu hæfileikum.

Hvorki fugl né fiskur

Þótt sögusviðið minni á Hálending Christopher Lambert frá ´86 þá er The Old Guard langt frá því að vera sama sjarmasprengjan. Jafnvel þótt sagan eigi sér stað víðs vegar um hnöttinn þá er einhver grámygla yfir öllu saman.

Söguhetjurnar eru daufar og lífsleiðar, sem er kannski ekki skrítið enda hafa þær lifað í hundruð ára. Það er reyndar aldrei útskýrt af hverju þær þráast við að verja lífinu í eilíf slagsmál, en maður þyrfti að vera ansi mikill hippi til að láta það trufla sig.

Charlize Theron hefur verið verri en hún er langt frá því að vera á sama plani og hún var í Mad Max: Fury Road og Atomic Blonde. Nýliðinn KiKi Layne stendur sig ágætlega en ekki nóg til að glæða myndina lífi.

Þrátt fyrir að myndin sé byggð á myndasögu um ódauðlegt fólk þá reynir hún að taka sig helst til alvarlega sem gerir henni engan greiða. Inni á milli er samt einhver kjánaskapur sem stingur í stúf. Þar má helst nefna skúrkinn í myndinni sem er svo teiknimyndalegur að hann gæti allt eins verið að snúa upp á yfirvaraskegg sitt. Ótrúlegt að þessi spengilegi maður hafi á sínum tíma leikið Dudley Dursley í Harry Potter myndunum.

Ódrepandi leiðindi

Hasaratriðin eru ágætlega útfærð en langt frá því að vera nógu mörg eða góð til að halda myndinni á floti. Það getur verið erfitt að gera bardagasenur þar sem hetjurnar geta ekki dáið spennandi en myndin fær nokkur stig fyrir að leysa vel úr því vandamáli.

Þegar hasarinn klikkar væri gott að geta reitt sig á áhugaverðar pælingar um ódauðleikann, eða í það minnsta einhvern smá húmor, en ræman flýtur áfram í grunnu vatni. Ef til vill hefði hugmyndin getað verið betur útfærð sem þáttaröð þar sem nánar hefði mátt kafa í hverja persónu fyrir sig og skoða þær hliðarverkanir sem óþrjótandi langlífi hefur í för með sér.

Verst af öllu er þó líklega tónlistarvalið sem er vægast sagt hörmulegt. Þar er popptónlist sem á engan veginn við atburðarásina, allsráðandi í öllum hasarnum. Vissulega er hægt að láta svoleiðis virka ef útfærslan er rétt en hér missir það gjörsamlega marks.

Grimmileg örlög

Netflix-myndir eru oftar fyrir neðan garð en ofan og The Old Guard brýtur ekkert á þeirri reglu. Hún er ekkert hræðileg heldur bara afskaplega flöt, og það má alveg horfa á hana með öðru auganu á meðan dútlað er í símanum. Að tileinka heilu kvöldi hana er þó bara uppskrift að vonbrigðum.

Að lokum má minnast á eftirminnilegasta atriði myndarinnar. Þar er ein af ódauðlegu hetjunum fönguð og látin sökkva til sjávarbotns í járnbúri þar sem hún drukknar endurtekið í hundruð ára. Það eru einhver verstu örlög sem hugsast geta, nema þá kannski að viðkomandi þyrfti að horfa endurtekið á The Old Guard á sama tíma.

Niðurstaða: Flatur og litlaus hasar. Hugmyndin er þó ágæt og hefði mögulega virkað sem þáttaröð.