Græni gárinn Limoncello er enn týndur. Aldís Amah Hamilton, leikkona og eigandi gárans, segir vonina um að gárinn finnist á lífi sé hægt og rólega að fjara út, en þau vilji samt sem áður fá hann heim, hvort sem hann sé lífs eða liðinn.
„Vonin er svolítið úti með þessu veðri. Það var helvíti mikill töggur í honum, hann lifði af þarna fjögur stig um nóttina,“ segir Aldís, en gárinn hefur verið týndur síðan á fimmtudagskvöldið og sást síðast við Vogahverfið eða Nauthólsvík.
Nýttu tækifærið á Eddunni
Það vakti athygli á Eddunni í gær þegar Aldís og kærasti hennar Kolbeinn Arnbjörnsson lýstu eftir gáranum áður en þau kynntu leikara og leikkonu ársins í aukahlutverki.
„Við Aldís erum hérna saman komin til þess að vera með örfáar áríðandi tilkynningar. Sú fyrsta snýr að gulum og grænum gára sem flaug á vit ævintýranna fyrir tveimur sólarhringum síðan. Ef einhver á stórhöfuðborgarsvæðinu hefur séð til hans, endilega látið okkur vita,“ sagði Kolbeinn í gær.
Aldís segist hafa ákveðið að auglýsa eftir gáranum á leiðinni á hátíðina. „Við ákváðum þetta í bílnum. Við þurfum að setja fjölskylduna í fyrsta sætið og nýta „platformið“ sem við höfum,“ segir hún og hlær.

Heldur enn í vonina
Aldís segist enn halda í vonina en segir þó að hún sé að reyna að vera raunsæ og það gæti verið að gárinn finnist ekki. „Fólk segir að alveg ótrúlegir hlutir hafi gerst. Ég held að einhver gári í Kanada hafi lifað af veturinn vegna þess að þrestir tóku hann undir sinn væng. Maður vonar að svona kraftaverk gerist en auðvitað þarf maður að vera raunsær,“ segir hún.
Hún hvetur fólk sem gæti hafa séð gárann að láta hana vita, því hún hafi heyrt af sögum af fuglum sem strjúka en lifa síðan hamingjusamlegu lífi þegar þeir eru fangaðir aftur. Fugl systur hennar sé gott dæmi um það.
