Græni gárinn Limoncello er enn týndur. Al­dís Amah Hamilton, leik­kona og eig­andi gárans, segir vonina um að gárinn finnist á lífi sé hægt og ró­lega að fjara út, en þau vilji samt sem áður fá hann heim, hvort sem hann sé lífs eða liðinn.

„Vonin er svo­lítið úti með þessu veðri. Það var hel­víti mikill töggur í honum, hann lifði af þarna fjögur stig um nóttina,“ segir Al­dís, en gárinn hefur verið týndur síðan á fimmtu­dags­kvöldið og sást síðast við Voga­hverfið eða Naut­hóls­vík.

Nýttu tækifærið á Eddunni

Það vakti at­hygli á Eddunni í gær þegar Al­dís og kærasti hennar Kol­beinn Arn­björns­son lýstu eftir gáranum áður en þau kynntu leikara og leik­konu ársins í auka­hlut­verki.

„Við Al­dís erum hérna saman komin til þess að vera með ör­fáar á­ríðandi til­kynningar. Sú fyrsta snýr að gulum og grænum gára sem flaug á vit ævin­týranna fyrir tveimur sólar­hringum síðan. Ef ein­hver á stór­höfuð­borgar­svæðinu hefur séð til hans, endi­lega látið okkur vita,“ sagði Kol­beinn í gær.

Al­dís segist hafa á­kveðið að aug­lýsa eftir gáranum á leiðinni á há­tíðina. „Við á­kváðum þetta í bílnum. Við þurfum að setja fjöl­skylduna í fyrsta sætið og nýta „plat­formið“ sem við höfum,“ segir hún og hlær.

Aldís og Kolbeinn lýstu eftir Limoncello á Eddunni í gær.
Mynd/Skjáskot

Heldur enn í vonina

Al­dís segist enn halda í vonina en segir þó að hún sé að reyna að vera raun­sæ og það gæti verið að gárinn finnist ekki. „Fólk segir að alveg ó­trú­legir hlutir hafi gerst. Ég held að ein­hver gári í Kanada hafi lifað af veturinn vegna þess að þrestir tóku hann undir sinn væng. Maður vonar að svona krafta­verk gerist en auð­vitað þarf maður að vera raun­sær,“ segir hún.

Hún hvetur fólk sem gæti hafa séð gárann að láta hana vita, því hún hafi heyrt af sögum af fuglum sem strjúka en lifa síðan hamingju­sam­legu lífi þegar þeir eru fangaðir aftur. Fugl systur hennar sé gott dæmi um það.

Aldís hefur einnig vakið athygli á málinu á Instagram-síðu sinni.
Mynd/Skjáskot af Instagram