„Það er erfitt að segja til um hvernig hinn fullkomni vinnustaður lítur út. Þarfir einstaklinga eru ólíkar þannig að það sama hentar ekki öllum. Við getum þó verið sammála um að góður starfsandi er grunnurinn að góðum vinnustað. Að komið sé fram við alla af virðingu, óháð kyni, aldri, stöðu og uppruna,“ segir Reynar Kári Bjarnason sálfræðingur sem hefur víðtæka reynslu af verkefnum á sviði vinnusálfræði hjá Sálfræðingunum.

Hann segir vinnustaði samanstanda af einstaklingum þar sem hver og einn skipti máli.

„Þegar kemur að samskiptum þurfa stjórnendur að ganga fram með góðu fordæmi. Ef traust ríkir á milli starfsfólks og stjórnenda eru tjáskipti gjarnan opnari og minni hætta á árekstrum í samskiptum. Á góðum vinnustað er skýr verkaskipting þannig að starfsmenn vita til hvers er ætlast af þeim. Allir þurfa líka að finna að framlag þeirra skipti máli fyrir vinnustaðinn og að þeir fái tækifæri til að koma hugmyndum sínum og skoðunum á framfæri.“

Sálfélagslegt áhættumat skylda atvinnurekenda

Reynar Kári segir mikilvægt að stjórnendur grípi fljótt inn í þegar upp koma alvarlegir samskiptaörðugleikar og sendi skýr skilaboð um að einelti og ofbeldi verði ekki liðið.

„Vinnustöðum ber að koma sér upp stefnu og viðbragðsáætlun um aðgerðir gegn einelti, kynferðislegri áreitni, kynbundinni áreitni og ofbeldi. Oft getur verið snúið að taka á slíkum málum innanhúss vegna tengsla og því leita atvinnurekendur oft til sálfræðinga og annarra fagmanna þegar upp koma slík mál.“

Samkvæmt vinnuverndarlögum ber atvinnurekendum skylda til að framkvæma sálfélagslegt áhættumat á vinnustaðnum.

„Atvinnurekandi skal fylgjast með vinnuumhverfinu, bera kennsl á hættur sem skapast geta á vinnustaðnum og meta hvaða áhrif þær geta haft á starfsfólkið. Áhættumat er verkfæri sem aðstoðar stjórnendur við að bæta vinnuaðstæður. Sálfélagslegir þættir sem eru til athugunar í slíku áhættumati eru til dæmis vinnutími, samskipti, fjölbreytni verkefna, sveigjanleiki, sjálfstæði, stuðningur, einelti og kynferðisleg eða kynbundin áreitni. Mikilvægt er að leita til viðurkenndra fagaðila sem hafa aflað sér réttinda til að framkvæma slíkt mat inni á vinnustöðum, og á heimasíðu Vinnueftirlitsins, vinnueftirlitid.is, má sjá lista yfir fagfólk sem sérhæfir sig í slíkri vinnu,“ segir Reynar Kári.

Verum vingjarnleg hvert við annað

Á vinnustað þarf hver og einn starfsmaður að huga að því hvað hann getur lagt af mörkum til að skapa góða liðsheild og vera góður vinnufélagi.

„Ef ég kem í vondu skapi með allt á hornum mér í vinnuna hefur það áhrif á hópinn og sömuleiðis hefur það áhrif á hópinn ef ég kem í góðu skapi, brosi og býð glaðlega góðan daginn. Það eru oft litlu atriðin sem skipta máli þegar kemur að því að skapa góða liðsheild á vinnustað; eins og hvort fólk venur sig á að kasta vingjarnlegri kveðju á vinnufélagana í upphafi og lok dags,“ nefnir Reynar Kári sem dæmi.

Hann segir gagnrýni geta verið jákvæða en einnig niðurbrjótandi.

„Ef gagnrýni er sett fram á hrokafullan og neikvæðan máta hefur hún neikvæð áhrif á starfsandann. Gagnrýni, sem sett er þannig fram að auðheyrt er að borin er virðing fyrir þeim sem verið er að gagnrýna, getur verið til góðs og haft þann tilgang að styðja og leiðbeina. Við gleymum líka oft að hrósa. Góður og uppbyggjandi starfsfélagi er örlátur á hrós og hvatningu við vinnufélagana.“

Nammi og góður vinnustaðahúmor

Góður vinnuandi er gríðarlega mikilvægur fyrir vinnustaði og eitt mikilvægasta verkefni stjórnenda, að sögn Reynars Kára.

„Rannsóknir sýna að góð vinnustaðamenning ýtir undir ánægju starfsmanna og eykur afköst. Reglulegar starfsánægjukannanir eru gagnlegt verkfæri fyrir stjórnendur til að fylgjast með ánægju starfsfólks og átta sig á því hvort breytingar og inngrip á vinnustaðnum skila viðeigandi árangri.“

En hvernig er hægt að skapa góðan liðsanda innan fyrirtækja?

„Þó að stjórnendur beri ríka ábyrgð á góðum liðsanda þurfa allir á vinnustaðnum að leggja sig fram. Margir vinnustaðir hafa komið sér upp jákvæðum hefðum og venjum sem eiga þátt í því að skapa góðan liðsanda. Dæmi um slíkar venjur er að hafa eitthvað gott með kaffinu á föstudögum og koma með nammi úr Fríhöfninni þegar komið er heim frá útlöndum. Þá skiptir einnig miklu máli að hafa gaman í vinnunni. Vinnustaðahúmor þjappar fólki saman. Oft er sá húmor einstakur fyrir vissan hóp og utanaðkomandi átta sig kannski ekki á hvað það er sem hópnum finnst svona fyndið,“ svarar Reynar Kári.

Hann bætir við að í könnunum hafi komið fram að jafnvægi á milli vinnu og einkalífs skipti starfsfólk miklu máli.

„Stytting vinnuvikunnar er mikilvægt skref til að auka þetta jafnvægi og sporna við of löngum vinnutíma. Það er vitað að óánægja starfsfólks ýtir undir starfsmannaveltu, fjölgun veikindadaga og almennt meiri kostnað fyrir vinnustaðinn. Starfsfólki líður best þegar það veit til hvers er ætlast af því og fær tækifæri til að ögra sér og sýna hvað í því býr. Regluleg starfsmannasamtöl og endurgjöf um frammistöðu eru mikilvæg til að vekja áhuga og fyrir starfsfólk að sjá að framlag þess skiptir máli. Flestir íslenskir vinnustaðir eru meðvitaðir um hversu mikilvægt það er að hlúa að starfsfólki og skapa öruggt starfsumhverfi þar sem öllum á að geta liðið vel. Á undanförnum árum hafa íslensk fyrirtæki lagt sig fram með markvissari hætti við að auka starfsánægju starfsfólks. Það er allra hagur að starfsfólki líði vel.“