Agla María var meðal annars valin leikmaður ársins 2021 í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu, Pepsi Max-deildinni, hjá Morgunblaðinu, auk þess sem hún hefur staðið sig framúrskarandi vel í landsleikjunum með íslenska landsliðinu á árinu sem er að líða. Agla María hefur alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem við kemur hollum og heilbrigðum lífsstíl sem hefur svo sannarlega skilað henni góðum árangri út í lífið.

Agla María er uppalin í Kópavogi og hefur spilað fótbolta frá því hún var 7 ára og æfði fimleika fram til 13 ára aldurs auk þess sem hún spilaði á þverflautu út fyrsta árið í menntaskóla. „Síðastliðið vor útskrifaðist ég úr viðskiptafræði frá Háskólanum í Reykjavík og er núna í meistaranámi í fjármálum fyrirtækja í Háskóla Íslands,“ segir Agla María.

Hreyfing og góður svefn

Heilbrigður og hollur lífsstíll hefur verið til staðar frá því að Agla María man eftir sér. „Ég hef alla tíð haft mikinn áhuga á öllu sem við kemur hollustu og heilbrigðum lífsstíl. Það skiptir mig miklu máli að hreyfa mig, sofa nóg og borða hollan mat þar sem mér finnst ég þannig vera besta útgáfan af sjálfri mér.“

Getur þú lýst hefðbundnum degi hjá þér bæði hvað varðar hreyfingu og mataræði?

„Hefðbundinn dagur hjá mér byrjar á því að ég fæ mér morgunmat áður en ég held í vinnu/skóla. Ég borða síðan alltaf heitan mat í hádeginu og fæ mér síðan eitthvað minna áður en ég fer á æfingu seinni partinn. Eftir æfingu er síðan heitur matur heima en mér finnst mjög mikilvægt að geta fengið heitan mat bæði í hádeginu og á kvöldin.“

Mamma hugsar um heilsuna

Hefur þú ávallt hugsað vel um heilsuna og mataræðið?

„Mamma hefur alltaf hugsað mikið um heilsuna og að allir fjölskyldumeðlimir fái hollan og góðan mat. Þegar ég var yngri sá mamma til þess að ég fengi góðan og næringarríkan mat og hef ég síðan tekið við boltanum eftir því sem ég hef orðið eldri. Mér finnst mataræði og góður svefn vera algjört lykilatriði í því að ná árangri í íþróttum, líða vel í eigin líkama og síðast en ekki síst til þess að vera heilsuhraust alla ævi.“

Varstu búin að setja þér markmið um að verða landsliðskona í fótbolta ung á árum?

„Ég setti mér ekki beint markmið um að verða landsliðskona þegar ég var yngri en hef alltaf viljað gera betur og ná árangri. Þegar ég varð síðan eldri og það að komast í landsliðið varð raunverulegur möguleiki setti ég mér það sem markmið.“

Besta útgáfan af sjálfri sér

Aðspurð segist Agla María fremur einbeita sér af litlu hlutunum og einblína ekki of mikið á markmiðin. „Sama hvort það eru markmið tengd fótbolta eða öðru í lífinu þá finnst mér best að horfa ekki of mikið á markmiðin. Ég kýs frekar að einbeita mér að litlu hlutunum sem ég hef stjórn á, halda mínu striki, leggja mig alla fram og hafa markmiðin meira á bak við eyrað. Það er oft svo langt ferðalag þangað til maður nær lokamarkmiðinu þannig mér finnst best að einbeita mér að þessum litlu dagsdaglegu hlutum og gera allt sem í mínu valdi stendur til þess að verða betri útgáfa af sjálfri mér.“

Áttu góð ráð handa þeim sem eiga sér þann draum að komast alla leið sem íþrótta-/afreksíþróttamanneskjur?

„Hugarfarið er það sem kemur manni lengst og því mikilvægt að stilla kollinn rétt. Til þess að vera í sem bestu líkamlegu formi er síðan nauðsynlegt að huga vel að svefni og mataræði og leggja sig alltaf 100% fram á öllum æfingum.“

Undirbúningur skiptir máli

Agla María segir að mataræði skipti miklu máli þegar hún skipuleggur sig fyrir leiki. „Mataræðið skiptir miklu máli þegar ég undirbý mig fyrir leiki en ég borða yfirleitt mjög svipaðan mat á leikdag. Við spilum oftast á kvöldin og fæ ég mér því oftast hádegismat sem inniheldur grænmeti, hrísgrjón/pasta/sætar kartöflur og kjúkling. Ég borða síðan minni máltíð 3 tímum fyrir leik, til dæmis ristað brauð og banana.“

Ertu til í að segja okkur hvernig dagurinn þinn er fyrir mikilvægan leik eins og landsleik?

„Á leikdag með landsliðinu er alltaf sama rútínan en við stjórnum því hvernig við nýtum tímann að stórum hluta sjálfar. Mér finnst gott að nýta fyrripart dagsins í að læra og slaka á seinni partinn og safna orku fyrir leikinn.“

Skiptir máli að undirbúa sig bæði andlega og líkamlega fyrir leiki?

„Á leikdag vill maður gera það sem maður getur til þess að vera í toppformi en þá spilar það mikið inn í hvernig æfingaálag og svefn í vikunni hefur verið. Það skiptir því máli að hugsa vel um sig andlega og líkamlega alla daga en ekki bara á leikdegi.“

Líður best af því að borða hollt

Leyfir þú þér að borða hvað sem er? Til dæmis detta í sælgætispokann?

„Ég er ekki mikið fyrir það að setja mér boð og bönn og borða það sem mig langar í hverju sinni. Ég reyni hins vegar að velja oftast hollari kostinn þar sem mér líður einfaldlega betur af því að borða hollan og næringarríkan mat.“

Plokkfiskur á Þorláksmessu

Ert eitthvað sem þér finnst ómissandi að fá að borða?

„Fyrir jólin er það ómissandi að fá plokkfisk á Þorláksmessu en við fjölskyldan förum alltaf út að borða niðri í bæ þar sem einhverjir fá sér skötu og aðrir plokkfisk. Í framhaldinu er síðan tekið rölt um miðbæinn en mér finnst þetta vera ómissandi hluti af jólunum og hringja inn jólin fyrir mér.“

Einfalt og gott salat eftir jólin

Ertu til í að deila með lesendum góðum heilsurétti sem á vel við á nýju ári eftir jólahátíðirnar?

„Eftir allar kræsingarnar um jólin finnst mjög gott að fá mér hollan og góðan mat þegar hátíðunum lýkur. Mér finnst þá oft tilvalið að skella í einfalt en mjög gott kínóasalat. Mér finnst kínóasalatið vera bæði ferskt og gott og auðvelt að laga það að mismunandi þörfum. Þetta er réttur sem fjölskyldan hefur oft þegar okkur langar í eitthvað hollt og ferskt. Fáum okkur oft þegar við vitum ekki hvað skal hafa í matinn.“

Kínóasalat að hætti Öglu Maríu.

Kínóasalat að hætti Öglu Maríu

2 dl kínóa og 3 ½ dl vatn

½-1 krukka fetaostur

2-3 msk. hampfræ

1-2 msk. furuhnetur

Ein sæt kartafla

1 msk. af olíu

Hvítlaukur, saxaður

½-1 mangó, skorið í bita

1 krukka kjúklingabaunir (má líka vera kjúklingur)

20 stk. kirsuberjatómatar

100 g spínat

30 stk. kóríanderfræ

Slatti af niðurskorinni basilíku

1-2 msk. góð ólífuolía

Eftir smekk

Rauðlaukur

Rauð paprika

Ruccolasalat

Sjóðið kínóa í um 10-15 mínútur.

Skerið sætu kartöfluna í ca. 1 cm bita og bakið í ofni í ca. 30 mínútur með 1 matskeið af olíu og söxuðum hvítlauk.

Blandið öllu saman og dreifið ólífuolíunni yfir salatið.