Átakið „Allir vinna“ var sett í gang til að stemma stigu við neikvæðum efnahagsáhrifum kórónaveirufaraldursins í vor og var svo framlengt í haust þannig að það verður í gildi út þetta ár. Jóhanna Klara Stefánsdóttir, sviðsstjóri mannvirkjasviðs hjá Samtökum iðnaðarins, segir að átakið hafi skilað góðum árangri og að ástæða sé til að framlengja það enn frekar.

„Í sögulegu samhengi hefur byggingariðnaðurinn verið atvinnugrein þar sem sveiflur hafa verið tvöfalt meiri en almennt gerist í hagkerfinu,“ segir Jóhanna. „Eftir efnahagshrunið 2008 virtist ekki vera nægilegur skilningur á mikilvægi þess að halda áfram stöðugri uppbyggingu og viðhaldi húsnæðis og innviða, sem á endanum leiddi til húsnæðisskorts og mikillar uppsafnaðrar viðhaldsþarfar á innviðum. Í kjölfar faraldursins á síðasta ári var ríkisstjórnin meðvituð um mikilvægið og greip strax til ýmissa aðgerða til að örva bygginga- og mannvirkjagerð. Við sjáum að þær aðgerðir hafa haft áhrif og byggingariðnaðurinn hefur þess vegna ekki sveiflast eins mikið og áður. En það má gera meira.“

Tækifæri fyrir sveitarfélög

„Einn liður í þessum efnahagslegu aðgerðum stjórnvalda var átakið „Allir vinna“, sem felur í sér að endurgreiðsla fæst af öllum virðisaukaskatti af vinnu við uppbyggingu og viðhald íbúðar- og frístundahúsnæðis,“ segir Jóhanna. „Endurgreiðslan nær líka til hönnunar, þannig að það er hægt að nýta tækifærið til að fá arkitekta og verkfræðinga til að fullhanna verkefni, jafnvel þó ekki sé hægt að byrja á þeim strax.

Sveitarfélög fá líka endurgreiðslu virðisaukaskatts við uppbyggingu fasteigna í þeirra eigu og þau ættu því að nýta tækifærið núna,“ segir Jóhanna. „Samkvæmt nýrri skýrslu Samtaka iðnaðarins og Félags ráðgjafarverkfræðinga um ástand og framtíðarhorfur innviða landsins eiga sveitarfélögin um 1.900 fasteignir sem eru um 453 milljarða króna virði og um 5.500 félagslegar íbúðir sem eru um 160 milljarða króna virði. En talið er að uppsöfnuð viðhaldsþörf á fasteignum sveitarfélaga sé um 25 milljarðar króna. Þannig að „Allir vinna“ átakið býður upp á gríðarleg tækifæri fyrir sveitarfélög til að sinna nýbyggingum og nauðsynlegu viðhaldi á sínum fasteignum.“

Mikill árangur

„Landsmenn tóku vel í þetta átak, sem margir þekktu frá efnahagshruninu 2008 og tilkynning þess hafði jákvæð áhrif á atvinnulífið, sem stóð frammi fyrir mikilli óvissu. Margir atvinnurekendur voru reiðubúnir að halda áfram starfsemi og taka áhættuna að geta haldið starfsfólki í vinnu,“ segir Jóhanna. „Við vonumst líka til að þessi aðgerð hafi þau áhrif að dregið verði úr fúski og svartri atvinnustarfsemi.

Vissulega erum við ekki komin í gegnum þetta erfiða tímabil, en við sjáum það glöggt á ágætri stöðu byggingariðnaðarins í dag að þetta, ásamt aðgerðum eins og aukin innviðafjárfesting getur skilað árangri,“ segir Jóhanna. „Það er bráðnauðsynlegt að sinna innviða- og íbúðafjárfestingu. Ef það er ekki stöðug uppbygging og viðhald erum við að skella skuldinni á komandi kynslóðir.“

Gæti nýst til framtíðar

„Við hjá SI hefðum viljað sjá alla virðiskeðjuna fellda undir átakið. Jarðvinna er til dæmis næsta skrefið á eftir hönnun en hún fellur ekki undir átakið og ekki heldur vinna á verkstæðum sem er tengd framkvæmdum, heldur bara vinna sem fer fram á staðnum,“ segir Jóhanna. „Við viljum auðvitað líka helst að það sem felst í átakinu verði látið gilda til frambúðar, eða í það minnsta að það verði framlengt enn frekar. Við teljum mikla þörf á því, enda tekur það tíma að hanna og koma upp fullbyggðu húsi.

Ef horft er til framtíðar er svo hægt að hugsa sér að nýta svona átak til að styðja við umhverfisvæna uppbyggingu,“ segir Jóhanna. „Þannig væri hægt að skapa jákvæða hvata fyrir byggingariðnaðinn til að fara í þá vegferð.“