Helga Birkisdóttir, formaður kórsins, gekk til liðs við kórinn árið 2004 á sama tíma og Bára Grímsdóttir kórstjóri sem enn stjórnar kórnum. Helga segir að kórinn skipi að mestu leyti fólk sem er tengt Val á einhvern hátt, margir hafi æft með félaginu eða átt börn þar. En í kórnum er líka fólk sem hefur enga beina tengingu við Val.

„Við erum blandaður fjögurra radda kór og æfum einu sinni í viku, á mánudögum. Vetrarstarfið endar svo á glæsilegum vortónleikum,“ segir Helga. „Við höldum jólatónleika í kapellunni en vortónleikarnir hafa undanfarin ár verið í Háteigskirkju og þá erum við með einsöngvara með okkur. Við leggjum mikinn metnað í tónleikana og söngvararnir trekkja að. Við höfum fengið Ragga Bjarna, Andreu Gylfa, Diddú og Egil Ólafsson til að syngja með okkur svo dæmi séu nefnd. Ragnheiður Gröndal ætlaði að syngja með okkur í fyrra en það varð að setja það á ís út af Covid.“

Stjórnandi kórsins, Bára Grímsdóttir, er tónskáld og hefur kórinn sungið mikið af lögum sem hún hefur samið en lagavalið er annars mjög fjölbreytt.

„Svo er fastur liður á vortónleikunum að syngja alltaf lag eftir Sigfús Halldórsson. Það er svona tenging við félagið,“ segir Helga.

Annar fastur liður hjá Valskórnum er að syngja við athöfnina þegar íþróttamaður Vals er valinn á

gamlársdag.

„Við höfum samt ekki mikið verið að mæta á pallana og halda uppi söngnum þar. En það hefur verið rætt í gríni að við ættum að mæta á leiki og syngja Valssönginn,“ segir Helga og hlær.

Í kórnum ríkir góður andi en æfingar hafa þó verið með heldur óhefðbundnum hætti undanfarið.

„Vegna samkomutakmarkana höfum við hist í minni hópum í kapellunni þegar það hefur verið hægt. En svo höfum við líka hist í gegnum fjarfundarbúnað og sungið hver í sínu horni. Það hefur því vantað svolítið upp á þetta félagslega sem venjulega tengist kórstarfinu,“ segir Helga.

„Í venjulegu árferði höldum við kórpartí þar sem mikið er sungið. Eins hittumst við oft eftir tónleika og borðum saman. Við höfum haldið æfingahelgar þar sem farið er út á land, gist, æft fyrir tónleika og haft gaman saman.“

Helga segist hlakka til þegar hefðbundið kórstarf getur hafist á ný og bætir við að lokum að þau séu alltaf tilbúin að taka á móti nýju fólki í kórinn.