Það er líf og fjör á strætisbitastaðnum Mossley að Borgarholtsbraut 19 í Kópavogi. Í dag verður slegið upp lítilli götulistahátíð undir titlinum Art & Soul, hverrar forsprakki er hinn fjölhæfi Youze. Youze er graff-listanafn Karls Kristjáns Davíðssonar, sem kallaður er Kalli.

„Ég hef verið í götulist mjög lengi,“ segir Kalli og bætir við að hann langi til þess að skapa vettvang þar sem götulistafólk geti mæst og kynnt list sína á skapandi og jákvæðan hátt.

„Mossley er kaffihús, veitingastaður og bar á tveimur hæðum og svo er garður hérna úti. Við erum með tjald út af rigningunni sem gæti orðið,“ segir Kalli um áform helgarinnar. „Planið er að götulistafólk komi og máli saman yfir daginn. Það verður opið fyrir alla fjölskylduna, þannig að börn og fjölskyldufólk geta komið og litið við og lært af þeim sem koma og sýna listir sínar,“ segir hann.

„Við viljum styðja við gildi graffíti-myndlistarinnar. Hún verðskuldar jákvæða athygli. Ég er búinn að mála húsið sjálfur, að miklu leyti, þó að það sé ekki alveg tilbúið. Aðallega úti en líka inni,“ segir Kalli.

Mynd/Aðsend

Stefnt er að sýningum í húsinu á næstu misserum þar sem graffíti-list verður gert hátt undir höfði. Með haustinu stefnir Kalli að útgáfu nýs blaðs um graffíti-list, sem hann vinnur að ásamt félaga sínum, Aroni Daða Þorsteinssyni. „Þar verður fjallað um götulistafólk og verk þeirra, ásamt öðru.“

Systurlistgrein graffíti-myndlistar er hiphop-tónlistin sem verður ekki langt undan á Mossley.

„Það verða plötusnúðar af gamla skólanum sem sjá um músík og þar á meðal ég, sem Cosmic dub hop. Hinir eru DJ AnDre, Dj Does og Dj Gnúsi Yones.

Dagskráin hefst upp úr hádegi í dag og unnið verður á pappír, krossviðarplötur og fleira.