„Því miður hefur maður komið að mörgum hræðilegum vettvangi og maður er búinn að sjá margt ljótt, sérstaklega þegar börn eiga í hlut,“ segir Gunnar Rúnar Ólafsson, sjúkraflutningamaður og varaslökkviliðsstjóri hjá Slökkviliði Akureyrar. Gunnar Rúnar bendir þó á að þegar farið er á slíkan vettvang fær enginn að fara heim fyrr en atburðurinn hafi verið ræddur. „Það hefur verið mikil þróun hjá slökkviliðs- og sjúkraflutningamönnum varðandi það að vinna úr svona hlutum.

Síðan fylgjumst við vel með hver öðrum. Það er misjafnt hvernig þetta leggst á fólk. Á minni stöðum er oft hætt við að viðkomandi sjúkraflutningamaður þekki sjúklinginn, hann sé jafnvel ættingi.

Við fylgjumst líka sérstaklega með nýliðum ef þeir fara á erfiðan vettvang, eins og sjálfsvíg til dæmis. Sálfræðiþjónusta er nýtilkomin þar sem við erum í forgangi. Þetta byrjar hjá Neyðarlínunni, hún ræsir út þetta teymi þegar vettvangurinn er erfiður. Þetta er orðið mjög flott kerfi sem er komið í kringum okkur og landssambandið á mikið hrós skilið,“ segir hann.

Gunnar Rúnar byrjaði 1996 í Slökkviliði Hafnarfjarðar og segir að starfið heilli alveg jafn mikið í dag og það gerði þá. „Það var ævintýraljómi yfir starfinu þá og 20 árum síðar finnst mér þetta enn alveg jafn skemmtilegt. Það er alltaf jafn gaman að koma til vinnu og þetta verður seint sagt einhæft starf.“

Gunnar tekur einnig fram að þó að sjúkraflutningamenn séu oft sendir í erfið útköll séu einnig tilvik sem skilji eftir sig gleði. Til dæmis þegar börn koma í heiminn. „Það gerist ekki mörgum sinnum á ári en kemur nokkrum sinnum fyrir. Ég sjálfur tók á móti barni fyrir rúmu ári síðan í heimahúsi. Það gefur starfinu öðruvísi gildi. Oftar erum við að koma á erfiðum tímum inn í líf fólks, eftir slys eða veikindi eða annað, en þetta er alltaf skemmtileg stund.“