Síðasta haust hófu Valitor, Snæland Grímsson og SalesCloud samstarf við þróun á sölu- og greiðslulausn fyrir fyrirtæki í ferðaþjónustu. Verkefnið gekk út á að auðvelda sölustarf og einfalda uppgjör sem þessir aðilar leystu vel með góðri samvinnu. „Við vildum færa okkur í nútímann og finna spjaldtölvulausn sem tengist beint við posa“, segir Kristján Gunnarsson, framkvæmdastjóri viðskiptaþróunar hjá Snælandi Grímssyni. „Það sem skiptir mestu máli fyrir sölumann er að hann þurfi ekki að hugsa um tæknina heldur horfa framan í fólkið, brosa og kynna hversu skemmtileg ferðin sé sem viðkomandi ferðamaður er að fara í. Snæland Grímsson þurfti lausn sem virkar hvar sem er, tækin eru á 4G og við ákveðum hvar sölumenn eru staðsettir en aðalsalan fer fram í rútunni á leiðinni til Reykjavíkur.“

SalesCloud hefur hannað sölukerfi sem getur tengst ýmsum kerfum, t.d. öllum helstu bókhaldskerfum sem eru í notkun á Íslandi. Það þýðir að ef fyrirtæki er með Navision, dk, Reglu eða sambærileg kerfi þá er hægt að tengja SalesCloud við þau kerfi til að bóka söluna. „Kerfið er hýst í skýi en er með off-line virkni þannig að það virkar einnig ef netsamband dettur niður. Búnaðurinn samanstendur af hugbúnaði (appi), spjaldtölvu, peningaskúffu, eldhúsprentara og posa. Uppsetningu og tækjum er stillt upp eftir þörfum söluaðila. Önnur kerfi sem Sales Cloud getur tengst eru Facebook, Mail-Chimp, WooCommerce, Wix og Weebly. Kerfið er hannað í grunninn til að þjónusta veitingastaði, áskriftarsölu, smásölu og miðasölu svo að fátt eitt sé nefnt.“

Söluferlið leikur einn

Kristján er spurður hvernig Snæland hafi nálgast SalesCloud og segir hann að fyrirtækið hafi haft samband við fyrirtækjalausnir Valitor þar sem söluráðgjafar þeirra hafi bent á SalesCloud.

„Söluferlið hjá Snælandi Grímssyni fer þannig fram að sölufulltrúar kynna fyrir viðskiptavinum, sem staddir eru í rútunni, þær ferðir sem eru í boð hverju sinni. Viðskiptavinur bókar og greiðir ferðina samtímis sem er besti kostur fyrir báða aðila. Þannig klárar ferðamaðurinn að skipuleggja heimsókn sína til Íslands í rútunni og fær ferðagögnin strax þar sem búnaður getur prentað út miða þegar sala fer fram. Skipuleggjendur ferðanna fá síðan allar upplýsingar varðandi söluna á ferðinni.“

Hann segir skipta miklu máli að vita hvaða ferð ferðalangurinn hefur pantað, hversu mörg sæti eru seld í hverja ferð, hvar ferðamaður verður sóttur og að það sé ekki tvíbókað í ferðina en í innleiðingaferlinu fór Helgi hjá SalesCloud með Snælandi Grímssyni í söluferð til að fylgja verkefninu eftir og aðlaga það að þeirra þörfum.

Eftirspurn breytist

Samhliða fjölgun ferðamanna hefur orðið mikil breyting á því hvernig kaup á ferðaþjónustu fara fram segir Kristján. „Við erum að hluta til orðin eins og ferðaskrifstofa og sjáum um farþegaflutninga, ráðum fararstjóra og bílstjóra og semjum við hótel. Við erum með stóran erlendan samstarfsaðila, TUI, sem er með starfsemi út um allan heim. Þeir gera ákveðnar gæðakröfur og SalesCloud er eitt af þeim verkfærum sem auðvelda okkur að uppfylla þær gæðakröfur. Samstarfsaðilar okkar eru farnir að gera auknar kröfur varðandi umhverfismál, þekkingu starfsfólks og rekjanleg uppgjör.“

Það eru ekki mörg fyrirtæki sem eru með átta rútur í rekstri og sækja ferðamenn á 22 hótel í Reykjavík. Snæland Grímsson þarf því að geta þjónustað ferðamenn vel og staðið undir væntingum þeirra. „Að geta selt ferðir og tekið á móti greiðslum, gert ferðagögnin klár vegna ferðar sem fara á í daginn eftir eða næstu daga, auðveldar allt ferli og eykur ánægju og traust viðskiptavinarins. Greiðslur skila sér á rétta staði strax og því er þetta tekjuflæði gríðarlega verðmætt“, segir Kristján.

SalesCloud virðisaukandi

Vinnusparnaður er mikill eftir innleiðinguna enda sækist Snæland Grímsson eftir að fara sem hagkvæmasta leið í rekstri. „Virðisaukinn fyrir okkur er að við þurfum ekki að handfæra uppfærslur og skýið auðveldar um leið allt utanumhald. Uppgjörin eru orðin mun einfaldari en áður. Við erum í fyrsta skipti að fá aðgang að kerfi sem hefur tengingu á milli kortafærslunnar og vörunnar sem er keypt sem er gríðarlega mikilvægt upp á bókhaldið ef eitthvað klikkar í sölunni eða þegar þarf að endurgreiða. Það sem við höfum fundið er að söluferlið flæðir nú óhindrað.“

Til þjónustu reiðubúinn

Aðgangur að öllum færslum er síðan aðgengilegur hjá þjónustuvef Valitor. „Þar getum við stemmt af, séð allar færslur og yfirlitin. Við ætlum svo að fara í það að fá yfirlestur bókhaldsgagna þegar við erum komin inn í nýja bókhaldskerfið okkar“, segir Kristján að lokum.