Haraldur Franklín Magnús, atvinnukylfingur úr GR, hefur stundað golf frá 12 ára aldri. Hann er einn besti kylfingur landsins og árið 2018 varð hann fyrsti íslenski kylfingurinn til að taka þátt í British Open mótinu, sem er elsta og eitt virtasta golfmót heims. Haraldur ætti að vera að keppa í Áskorendamótaröðinni um þessar mundir, en heimsfaraldurinn kom í veg fyrir það, eins og svo margt annað. Á móti kemur að hann telur að faraldurinn gæti haft jákvæð áhrif á golf á Íslandi.

Golfið gefur

Haraldur var á fullu í fótbolta þegar hann var lítill eins og allir aðrir í Vesturbænum, en golfið heillaði hann svo að fótboltinn féll alveg í skuggann.

„Ég prófaði golf á Langanesvelli og þá varð ekki aftur snúið,“ segir hann. „Árið eftir byrjaði ég á fullu í golfinu og fljótlega hætti ég að mæta á fótboltaæfingar og var bara alltaf í golfi. Tveimur árum síðar var ég svo farinn að geta eitthvað.“

Golfið gefur honum margt. „Ég er með ágæta keppnisþörf og það er fínt að geta svalað þeim þorsta í golfi. Svo er þetta frábær útivera og góð blanda af einveru og félagsskap,“ segir hann. „Ég er svolítið innhverfur og í golfi get ég verið einn að æfa tímunum saman, en maður kynnist líka mörgum og eignast fullt af vinum. Þetta er líka frábær barnapía þegar maður er unglingur, maður umgengst fólk á öllum aldri og lærir mannasiði og margt fleira.

Golf varð líka til þess að ég komst út á háskólastyrk. Ég fór í nám í Louisiana í Bandaríkjunum og þar gat ég keppt og æft með keppnisliðinu á sama tíma og ég fékk menntun. Síðar hef ég svo fengið að fara út um allan heim til að keppa,“ segir Haraldur. „Golfið kennir manni líka helling. Þetta er eina íþróttin þar sem þú ert þinn eiginn dómari og ef þú ert tekinn fyrir svindl ertu bara útskúfaður. Þannig að þessi íþrótt elur heiðarleikann upp í manni.“

Æfingin skapar meistara

Haraldur stefndi í langan tíma á að komast í háskóla í Bandaríkjunum.

„Þar er fullt af góðum kylfingum og háskólaíþróttirnar eru frábærar. Planið var að bera mig saman við jafnaldra mína þar og ákveða svo hvort ég yrði atvinnumaður,“ segir Haraldur.

Haraldur vonast til að geta farið út til að keppa í sumar, en það er allt mjög óljóst. Hann segir að faraldurinn sé hundsvekkjandi fyrir atvinnukylfinga, en að golfsumarið á Íslandi líti hins vegar vel út. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Lokaákvörðunin var svo tekin þegar hann var að keppa á British Open mótinu árið 2018.

„Þetta var útsláttarmót sem 288 kylfingar kepptu á og það voru átta eftir. Ég var á æfingasvæðinu þegar ég ákvað að þetta væri það sem ég vildi gera,“ segir hann. „Ég gef þessu svo þrjú ár í senn og reyni að komast upp um eitt stig á hverju ári, sem er erfitt, því það eru tugþúsundir að berjast um örfá sæti.“

Haraldur ráðleggur upprennandi kylfingum sem vilja komast í atvinnumennsku að reyna að fara í háskólagolfið í Bandaríkjunum. Hann segir betra að láta á það reyna en að sjá eftir því síðar að hafa ekki reynt.

„Það er gott að geta borið sig saman við jafnaldra sína, en það er mun erfiðara hér á Íslandi, þar sem þeir eru svo fáir,“ segir hann. „En æfingin er alltaf númer eitt, tvö og þrjú.“

Grasið skiptir miklu

Haraldur segir að það sé töluverður munur á því að spila golf á Íslandi og erlendis, til dæmis út af veðrinu.

„Úti er vellirnir lengri og gerðir fyrir gott veður, en hér heima eru þeir gerðir fyrir 16 metra á sekúndu,“ útskýrir hann. „Það er líka margt fleira, ég bjóst til dæmis ekki við því fyrir fram að það væri svona mikill munur á milli grastegunda, en þær geta skipt hellings máli. Svo er miklu meiri pressa og samkeppni úti.“

Tvö mót standa upp úr

Haraldur segir að það séu tvö mót sem standa sérstaklega upp úr í minningunni.

„Annars vegar British Open árið 2018. Þar voru allir þeir bestu með og það var drullugaman. Ég hoppaði líka upp um nokkur stig í pressu og öðru þarna og verð tilbúnari næst,“ segir hann. „Hitt mótið sem stendur upp úr er þegar ég varð Íslandsmeistari árið 2012. Ég var búinn að vera gjörsamlega gagntekinn af því að verða Íslandsmeistari og hugsaði örugglega meira um það en alla skólagönguna mína. Það hafði líka enginn í GR unnið þetta í 28 ár og það tókst. Þó það sé ekki jafn stórt og British Open var þetta ótrúlega skemmtilegt.“

Ætti að vera á fullu

Heimsfaraldurinn hefur haft neikvæð áhrif á golfheiminn eins og allt annað og Haraldur hefur misst af því að spila á mikilvægum mótum.

„Ég ætti að vera á fullu að keppa um alla Evrópu í Áskorendamótaröðinni, en hún er ekki enn farin af stað. Hún á að hefjast um miðjan júlí og fara á fullt í ágúst, en það verður kannski ekki af því,“ segir hann. „Það gæti verið að árinu verði slaufað og að allir byrji á sama stað að ári, þó það verði kannski haldin einhver mót. En það er erfitt að vinna sig upp í ár.

Ég er samt að íhuga að taka mót í Bandaríkjunum í sumar með gömlum háskólavini mínum ef það gengur. Það er hærra verðlaunafé þar,“ segir Haraldur. „Mótið á að vera í júlí, en maður sér hvernig það þróast.“

Heldur námskeið

„Þetta er allt saman frekar óljóst og þess vegna ákváðum við Andri Þór Björnsson að bjóða upp á námskeið fyrir kylfinga til að hafa eitthvað að gera,“ segir Haraldur.

„Námskeiðin eru fyrir alla og við ætlum að kenna bæði tækni og hvernig á að skipuleggja golfæfingar. Okkur finnst fullmargir vera stefnulausir á æfingum og ætlum að sýna fólki hvernig er hægt að ná markmiðum sínum.

Haraldur ráðleggur upprennandi kylfingum sem vilja komast í atvinnumennsku að reyna háskólagolfið í Bandaríkjunum. FRÉTTABLAÐIÐ/VALLI

Námskeiðin eru fyrir alla sem hafa áhuga. Það verða átta nemendur og tveir leiðbeinendur hverju sinni,“ útskýrir Haraldur. „Við erum ekki menntaðir kennarar, en við erum báðir atvinnumenn sem hafa ekki hugsað um annað en golf í fimmtán ár. Áhugasamir geta haft samband í gegnum Facebook-síðuna „Golfnámskeið með Andra Þór og Haraldi Franklín“ eða sent tölvupóst á gamanigolfi@gmail.‌com.“

Allir vellir troðnir

Íslenska golfsumarið er hafið og fyrsta mót ársins í golfmótaröð GSÍ var um síðustu helgi. Þar lenti Haraldur í öðru sæti, en það munaði bara einu höggi á honum og Axel Bóassyni.

„Þetta var ótrúlega tæpt. Það voru bæði jákvæðir þættir og neikvæðir þættir sem þarf að vinna í. Það er alltaf drullufúlt að lenda í öðru sæti,“ segir hann. „Fyrstu tvo dagana var frábært veður og þá gekk allt eins og í sögu en lokadaginn var það ekki þannig og þá gekk allt eins og í hryllingsmynd. En þetta var bara fyrsta mótið og það eru allir ennþá smá ryðgaðir. Ég reyni bara að vinna næst. Ég vil samt þakka Akranesvellinum. Ég hef spilað á þó nokkrum völlum og hann er í besta ásigkomulaginu núna.“

Haraldur segir að faraldurinn sé hundsvekkjandi fyrir atvinnukylfinga, en að golfsumarið á Íslandi líti vel út.

„Það verður troðið á alla velli og það er frábært fyrir golf á Íslandi að fá svona marga spilara. Það eru líka margir að fara að byrja í sumar, sem er frábært. Það vilja allir kylfingar fá fleiri byrjendur, svo enginn þarf að vera feiminn við að koma í golf,“ segir hann. „Það er líka fullt af barnanámskeiðum í gangi hjá flestum klúbbum og ég byrjaði einmitt þannig. Það er frábær leið fyrir krakkana til að fá að prófa nýja íþrótt og foreldrana að fá pásu í nokkra klukkutíma.“