Elvar Ingi vissi að hann vildi ekki fermast í kirkju og fór að hugsa hvað hann ætti þá að gera. Hann skoðaði siðfestu hjá Ásatrúarsöfnuðinum en leist ekki nógu vel á hana og langaði að gera eitthvað öðruvísi. Þá kom upp sú hugmynd að gera manndómsvígslu í gríni og við tók undirbúningur á henni.

„Ég þurfti sem sagt að uppfylla fimm lífsgildi. Þau voru umhyggja, viska, heiðarleiki, hugrekki og sjálfsbjargarviðleitni. Við gerðum svo myndband af öllum þrautunum sem ég leysti,“ segir Elvar Ingi.

Elvar Ingi þurfti að læra sjálfsbjargarviðleitni. Það var gert með smá gríni í anda kvikmyndarinnar Cast away.

„Ég þurfti til dæmis að hjálpa til heima við að vaska upp og eitthvað þannig. Ég hjálpaði systur minni í körfubolta og ýtti litla bróður mínum í rólu, hjálpaði ömmu yfir götu og fleira þannig. Aðalparturinn af vídeóinu var að ég þurfti að lifa af í náttúrunni. Þá gerðum við svolítið grín að Cast Away, kvikmyndinni. Ég var með gamlan körfubolta í staðinn fyrir blakbolta og var skítugur og þannig.“

Elvar Ingi segir að sjálfstraustið hafi aukist við að þora að gera eitthvað öðruvísi.

Öll fjölskyldan hjálpaðist að við gerð myndbandsins, foreldrarnir bjuggu til þrautirnar og frænkur Elvars Inga bjuggu til búningana og sáu um förðunina. Myndbandið var svo sýnt í manndómsvígsluveislu sem haldin var í júní þegar COVID leyfði

„Þetta var bara venjuleg veisla að öllu leyti nema að myndbandið var sýnt í henni. Ég held að engum hafi ekki líkað það. Það voru allavega flestir hlæjandi,“ segir Elvar Ingi og svarar því játandi að hann sé sáttur við að hafa gert eitthvað öðruvísi en aðrir.

„Já, ég er sáttur við það. Það var líka gott fyrir sjálfstraustið hjá mér að gera þetta myndband. Að þora að gera eitthvað svona öðruvísi,“ segir hann

Þannig að það að gera myndbandið var hálfgerð manndómsvígsla? Þú lærðir af því og fékkst aukið sjálfstraust?
„Já, ég myndi segja það.“

Fjölskylda Elvars Inga hjálpaðist öll að við gerð myndbandsins. Að taka það upp, klippa og búa til búninga.
Gestirnir í veislunni fengu að sjá manndómsvígslumyndbandið og hlógu mikið.