Ólafur segir að hann geti ekki sagt að hann sé vegan þar sem hann hafi ekki enn tileinkað sér vegan lífsstílinn til fullnustu.

„Ég borða það sem ég kalla plöntumiðað fæði, eða á ensku whole food plant based diet. Ég ákvað að fara á þetta mataræði til að sjá hvaða áhrif það hefði á heilsuna, einkum þó á blóðþrýstinginn hjá mér, sem hafði verið of hár í nokkurn tíma þrátt fyrir lyf,“ segir hann.

Ólafur byrjaði á nýju mataræði þann 4. ágúst á þessu ári og hefur því borðað plöntumiðað fæði í bráðum þrjá mánuði. Hann segist strax finna mun á sér.

„Ég er mun léttari á mér og hef líka fundið fyrir minni óþægindum í maga. Auk þess lækkaði blóðþrýstingurinn, þannig að ég gat hætt að taka blóðþrýstingslyf. Hins vegar hefur hann hækkað aðeins aftur, svo ég er ekki viss hvort ég muni haldast án lyfja. Það verður að koma í ljós. Ég finn líka fyrir því að meltingin er betri, ég er orkumeiri og líður almennt betur.“

180 gráðu beygja

Konan hans Ólafs og 16 ára sonur taka þátt í þessari vegferð með Ólafi, en hann segir að 12 og 9 ára dætur hans séu ekki alveg komnar á þá skoðun að þetta sé málið.

Ólafi fannst ekkert sérlega erfitt að breyta um mataræði. „Við hjónin vorum á ketó mataræði áður en við byrjuðum á þessu, svo þetta var 180 gráðu beygja. En þetta hefur reynst okkur fremur auðvelt. Erfiðast var að komast inn í þennan heim og þessa hugsun. Hvaða matur gefur mér mestu næringarefnin? Hvar fæ ég prótein? Við þurftum að lesa okkur mikið til og þegar ég segi við, þá var það eiginkonan,“ segir Ólafur og hlær. „Maður þurfti að kaupa öðruvísi inn og fylla skápana af nýjum mat, ef svo má að orði komast.“

Þau hjónin tóku sér ekki langan tíma í undirbúning áður en þau breyttu um mataræði, en hann segir þau hjónin vera svolitlar allt eða ekkert týpur.

„Ég held að við höfum gefið okkur viku í undirbúning en á þeim tíma samt byrjað að taka út dýraafurðir,“ segir hann.

Aðspurður hvort hann sakni einhvers matar, segir Ólafur að hann geti ekki sagt það.

„Það gerðist einu sinni þegar ég fór með félögum mínum á pitsustað að mig langaði svakalega í pepperoni. En annars finn ég ekki fyrir neinni löngun í kjöt eða dýraafurðir.“

Þegar Ólafur byrjaði á vega mataræði stofnaði hann Instagram-síðuna Vegferðin, þar sem fólk getur fylgst með hvernig Ólafi gengur í þessum nýja lífsstíl.

Þetta vegan lasagna gerði Ólafur eftir uppskrift á vefnum noracooks.com.

„Ég stofnaði þessa síðu aðallega til að halda aðhaldi að mér sjálfum. Ég lagði af stað í þessa vegferð, lagði upp með fjórar vikur, til að sjá hvaða áhrif þetta hefði á heilsuna. Ég ákvað að þetta væri aðhald til að ég myndi nú standa við að fara all-in í þetta,“ segir Ólafur.

Hann segist að mestu hafa fengið jákvæð viðbrögð við þessari lífsstílsbreytingu. Fólki finnist þetta spennandi og suma langi að prófa.

„Sumum finnst þetta glatað, en ég heyri nú örugglega minnst af því,“ segi hann.

Uppáhalds vegan réttur Ólafs eru hinar ýmsu útgáfur af fajitas. En hann mælir með Junkyard-borgurunum ef maturinn á að vera svolítið djúsí. „Þeir eru klikkaðir.“

Aðspurður hvort hann mæli með mataræðinu, segir Ólafur að hann mæli með því að fólk finni sér það mataræði sem hentar því og þess lífi. „Ég hvet fólk samt til að prófa þetta og taka lítil skref í einu. Til dæmis ákveða að skipta út einni máltíð í viku til að byrja með. Ég hélt fyrst að ég yrði bara með papriku í annarri og agúrku í hinni, en raunin er sú að það er ótrúlega góður matur og flottir réttir sem eru vegan. Þetta er bæði gott fyrir heilsuna og umhverfið, það gerir gott fyrir okkur öll.“

Ólafur er duglegur að finna uppskriftir á ýmsum vegan síðum. Hann fann uppskriftina að vegan skálinni á Instagram og var ánægður með útkomuna.

Uppskrift fengin af síðunni @healthyvegancommunity en uppskriftin er eftir @the_buddhist_chef

Dressing:
1 msk. Hnetusmjör (Ólafur notaði möndlusmjör)
1 msk. Soyjasósa
1 msk. Balsamik vinegar
1 msk. hlynssýróp

Skálin:
Kál
Brún hrísgrjón
Avacado
Sæt kartafla
Kjúklingabaunir
Tómatar

Nánari lýsing sést á myndbandi frá @healthyvegancommunity