„Mín uppáhalds jólavera er Þarasmjatta. Bæði finnst mér hún flott teiknuð, með sína síðu og krulluðu þaralokka og í glæsilegu þarapilsi, en líka af því að hún elskar söl og þara, eins og ég, og gleymir sér tímunum saman í íslenskum fjörum við að safna þessu hnossgæti í alla vasa. Ég fór til dæmis á námskeið og í fjöruferð með höfundum bókarinnar Íslenskir matþörungar og hef síðan verið með vaðstígvélin tilbúin í skottinu. Við fórum heim með fullan poka af sölvum og þara sem ég setti til þurrkunar í bakaraofn, en hálfbrenndi það þegar ég stillti hann á of háan hita og gleymdi mér of lengi í stússi úti við. Ég átti sem betur fer meira til að maula í pokanum, en næ mér annars í söl til matreiðslu í búðinni.“

Þetta segir enski blaðamaðurinn Lowana Veal sem situr í stjórn Samtaka grænkera á Íslandi.

Þarasmjatta er uppáhald Lowönu.
E-efnagægir er einhverfur og einstaklega næmur á minnstu snefilögn af dýraafurðum í tilbúnum vörum. Innihaldslýsingar og E-efni eru honum mikil ástríða, stundum lokar hann sig af og gleymir sér tímunum saman yfir smáa letrinu.

Það voru einmitt sömu samtök sem fengu listamanninn Árna Jón Gunnarsson til að teikna fyrir sig þrettán jólaverur, sem mótvægi við íslensku og kjötglöðu jólasveinana, árið 2018.

„Hugmyndin kom frá Sigvalda Ástríðarsyni, einum af stofnmeðlimum samtakanna, en jólaverurnar eru vænar og grænar og hvers manns hugljúfi. Þau læðast inn í fjárhúsin og frelsa þar fé, hvísla að hænum og klappa jólakettinum sem er steinhættur að éta börn og malar nú sáttur upp við ofn,“ greinir Lowana frá.

Hafraþamba, þykir jurtamjólk góð og þambar hún haframjólk í hvert mál.
Hán Rakakrefur er einstaklega rökfast og krefur þá sem á vegi háns verða um rök fyrir neyslu sinni á dýraafurðum.

Jólaverurnar þrettán tóku breytingum í fyrra þegar horft var til jafnréttis kynjanna en þá urðu sumar veranna kvenkyns og veran Rakakrefur er orðin hán.

„Við höfum ekki enn farið með jólaverurnar í leikskólana en börnum þykja þær skemmtilegar og í fyrra gáfum við út litabók með jólaverunum sem hægt er að sækja á síðunni okkar, graenkeri.is. Hún var lítil jólagjöf frá okkur til barna sem þykir gaman að lita. Í fyrra og hittifyrra óskuðum við líka eftir vísum um jólaverurnar á Facebook-síðu samtakanna og fengum þar bæði góð viðbrögð og skemmtilegan kveðskap,“ upplýsir Lowana.

Lambafrelsir veitir lömbum frelsi.
Tófúpressir er stór og sterkur enda borðar hann gríðarmikið af tófú. Honum finnst það best sem þurrast svo hann pressar úr því vökvann af mikilli kostgæfni.

Grænkeri í 38 ár

Lowana flutti frá Cambridge til Íslands árið 1996 og hefur búið hér síðan. Hún vann að meistararitgerð sinni við háskóla í Cambridge í samstarfi við Orkustofnun árið áður og hefur verið grænkeri í 38 ár.

„Ég hef ekki borðað kjöt síðan 1983 en var áður grænmetisæta frá 28 ára aldri,“ segir Lowana, sem nýtur þess að vera grænkeri á Íslandi.

„Til að byrja með var þrautin þyngri að finna tilbúið hráefni til matargerðar fyrir grænkera en undanfarin ár hefur úrval grænkerafæðis í verslunum og á veitingastöðum aukist ríkulega. Það er gott að vera grænkeri á Íslandi og æ minna mál. Veganbúðin er til dæmis frábær og Fjarðarkaup til fyrirmyndar. Hins vegar þykir mér skrýtið að veitingastaður IKEA, sem býður upp á grænmetisbuff á matseðli sínum, beri það fram með hvítvínssósu sem inniheldur bæði mjólk og fisk. Það gerir svo sem ekkert til fyrir mig, sem er lítið fyrir sósur og bið bara um að sleppa henni, en ég hef bent á þetta og finnst einkennilegt að rétturinn sé ekki vegan alla leið.“

Rauðrófur eru frábært hráefni í góðan hummus. FRÉTTABLAÐIÐ/GETTY

Lowana er með lítinn matjurtagarð og kofa í Skammadal þar sem hún ræktar meðal annars rauðrófur sem hún segir dýrðlegar í heimagert rauðrófuhummus. Hún gefur lesendum uppskriftina.

Rauðrófuhummus Lowönu

120 g eldaðar kjúklingabaunir

2 miðlungs stórar rauðrófur

2 kramin hvítlauksrif

Safi úr hálfri sítrónu

½ tsk. cumin

1 msk. tahini

½ til 1 msk. ólífuolía (má sleppa)

Svolítið soð af rauðrófusafa, ef blandan er of þykk

Sjóðið rauðrófurnar í 45 til 60 mínútur, eða þar til orðnar mjúkar. Rauðrófurnar eru skrældar eftir suðu og fer hýðið þá auðveldlega af. Stappið allt saman með kartöflustappara eða setjið í blandara.